SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 1. október 2023

KVILLAR, KRAMPAR OG FALLEGAR TÆR - Um ljóðabókina Þú eftir Höllu Gunnarsdóttur

Halla Gunnarsdóttir. Þú. Veröld. 2023, 58 bls.

Í vor kom út ljóðabókin Þú eftir Höllu Gunnarsdóttur. Halla er flestum landsmönnum kunn enda verið nokkuð áberandi í samfélagsumræðunni. Hún er fædd árið 1981 og auk þess að fást við ritstörf hefur hún starfað sem blaðamaður, aðstoðarmaður ráðherra og framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, svo að eitthvað sé nefnt.

Halla hefur áður sent frá sér tvær ljóðabækur en þær eru Leitin að Fjalla-Eyvindi sem kom út árið 2007, og er jafnframt hennar fyrsta bók, og Tvö jarðar ber árið 2013. Halla hefur einnig skrifað fræðibók um áhrif írönsku byltingarinnar á konur (2008) og ævisögu Guðrúnar Ögmundsdóttur (2010).

Titill ljóðabókarinnar Þú er einfaldur og sömuleiðis kápan sem Stefán Einarsson hannaði. Þar stendur titillinn fyrir miðju og hringur utan um sem hefur verið farið ofan í oftar en einu sinni. Þrátt fyrir einfaldleikann er titill og mynd merkingarþrungin. „Þú-ið" er í augljósu aðalhlutverki og mikilvægi þess óumdeilt, allt annað snýst um það og er það áréttað með hringnum/hringjunum. Þá kann hringurinn einnig að vera táknrænn fyrir legið, sem hefur hýst „þú-ið" um langa hríð, og sömuleiiðis tengslin og nándina við leghafann. 

Ljóðabókin Þú geymir 46 ljóð og er efnisyfirlit aftast í bókinni. Ljóðin fjalla um meðgöngu, fæðingu og fyrstu vikurnar í lífi barnsins. Halla hefur slíka reynslu í farteskinu þar sem hún á tvær dætur, eina rúmlega eins árs og aðra fimm ára. Þær skottur hafa eflaust haft áhrif á frásögnina og fær lesandi mjög á tilfinninguna að ljóðmælandi sé Halla sjálf að fjalla um eigin reynslu. 

Bókin hefst á því að ljóðmælandi missir legvatnið og er þar dregin upp skemmtileg líking:

 

Léttir
 
Ætli lóninu létti
þegar stíflan brestur
 
eins og mér
 
þegar vatnið fer?
 

(bls. 7)

 

Þá taka við á annan tug ljóða sem fjalla um fæðinguna sem gengur mjög brösuglega og er það tíundað í ljóðinu Skýrsla (bls. 30-32) hvað það sé lítil hjálp í deyfingu, að móðir sé mjög verkjuð og að gripið sé til sogklukku þegar allt annað hefur brugðist. Um leið og barnið er komið í heiminn gleymast hins vegar allir erfiðleikar:

 

Algleymi

Allir kvillarnir
 
kramparnir
sviðinn
þrýstingurinn
 
gleymast.
 
Þú er komin. 
 

(bls. 26)

 

Lesandinn fer ekki varhluta af þjáningunni sem fylgir fæðingunni og móðirin stríðir við í kjölfar hennar. Næsta ljóð geymir nánast gróteska mynd af því þegar ljóðmælandi lýsir því þegar hún er saumuð að neðan. Hún segist vera tveggja hæða hús og „á neðri hæðinni/ er sláturtíð". Á efri hæðinni er þó annað upp á teningnum því þar „ríkir fegurðin ein".  Þar kúrir barnið og sýgur brjóstið. Þá er einnig stutt í húmorinn þegar ljóðmælandi kallar milli hæða: „Hvernig ganga bróderingarnar?" (bls. 27-28)

Ljóðin eru afar persónuleg en um leið með almenna skírskotun því þessi reynsla á fyrir mörgum konum, og öðrum leghöfum, að liggja. Ljóðmælanda verður einnig hugsað til annarra fæðinga sem eiga sér stað undir ýmsum, erfiðum kringumstæðum, í mjög áhrifamiklu og pólitísku ljóði:

 

Meðlíðan
 
Hún læðist 
aftan að mér
 
meðlíðanin
 
með urtunni
sem kæpir
ein í látri
undir háværu briminu
 
kindinni
sem ber
afskipt í fjárhúsi
á vitlausum tíma
 
merinni 
sem kastar
lífvana folaldi.
 
Með konunum
öllum konunum
 
fæðandi 
undir árásargjörnu augntilliti
eiginmanna
sem kunna ekki að elska
 
fæðandi
í kjallara undir ómi
af loftvarnaflautum
 
fæðandi
börn
til að gefa þau frá sér
 
framleiðsla
fyrir aðra.
 
(bls. 34-35)
 

Næstu ljóð fjalla um þegar þær mæðgur eru komnar heim. Þau eru einnig einlæg og berorð og draga ekkert undan. Þær gráta saman mæðgurnar, brjóstin eru aum og andleg heilsa „ekki upp á marga fiska" (bls. 40). Smám saman verður barnið meira sjálfbjarga og verður þá til togstreita hjá móðurinni sem bæði vill halda og sleppa: „Það lengist í taumnum/ þú fikrar þig fjær mér/ mér léttir./ En vil samt stytta í honum/ aftur. (bls. 57) Lokaljóðið fjallar síðan um þakklætið sem kemur löngu síðar þegar það hefur fennt yfir kvilla og krampa og minningar um ljúfar samverustundir fá notið sín:

 

Þakklæti
 
Þakklætið
kemur löngu síðar
 
að hafa fengið
að halda um
þessar fallegu tær
um dimmar vetrarnætur.
 
(bls. 58)

 

Myndin af Höllu er fengin af síðu Samstöðvarinnar