SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 3. desember 2023

FEGURÐIN Í FLÆÐINU eftir Ester Hilmarsdóttur

Ester Hilmarsdóttir. Fegurðin í flæðinu. Bókaútgáfan Sæmundur 2023, 40 bls.

 

 

SKILABOÐ

 

Þessi rauðu skilaboð í nærklæðin,

skeyti í brók frá móður náttúru.

 

Að sjá rauða dropa blómstra í buxum

og fyllast gleði, fyllast sorg, fyllast engu.

 

Í þessum mánaðarlegu tjáskiptum

eru örlög ákveðin.

 

 

 

 

Flestar konur fara á túr, hafa á klæðum, fá Rósu frænku í heimsókn... eða hvaða orð eða orðtak man kann að hafa um þá staðreynd að blæðingar eru mánaðarlegur viðburður í lífi kvenna á tilteknu æviskeiði. Þrátt fyrir að þetta sé gangur náttúrunnar, sjálf undirstaða lífsins og ætti að vera það eðlilegasta í heimi, fylgja blæðingum margvíslegar tilfinningar og margs konar líðan og þetta er yrkisefni Esterar Hilmarsdóttur í ljóðabókinni Fegurðin í flæðinu. Í lýsingu á bókinni segir:

 

 

Fegurðin í flæðinu fjallar um blæðingar, allt frá fyrsta dropa til hins síðasta. Hér er farið yfir allt frá eftirvæntingunni sem því fylgir að byrja á fyrstu blæðingum til ergelsis, bakverkja og magakrampa. Ekkert er dregið undan. Farið er inn á jafnrétti, skömm, umhverfismál, og fegurðina sem tengist þessu sérstaka ferli líkamans með alvarleika og húmor í bland.

 

 

Þetta er hnitmiðuð og sönn lýsing á efni bókarinnar sem hefst á sjónarhorni ungrar stúlku sem horfir „með óttablandinn virðingu / ofan í sundtösku vinkonu [sinnar]. Tíðarvörur. / Sveipaðar dulúð. / Glóandi eins og gull í kistu." Þessi tímamót eru greinilega spennandi í huga stúlkunnar, sem fær þó ekki gleðileg viðbrögð þegar hún stendur sjálf á þeim:

 

 

Ég fékk pakka af

tampax super ultra flow

og „æjjj, ertu nú byrjuð

á þessu veseni greyið mitt."

 

 

Eins og segir í lýsingunni hér að ofan yrkir Ester um flest sem viðkemur blæðingum í bókinni; um dulúðina sem umleikur blæðingar, um ólík viðhorf til þeirra, um kosti þess að vera á túr (vera „forfölluð" í leikfimitímum), um ótal neikvæða fylgifiska: hausverk, kviðverki og stjórnlaust flæði sem oft skapar vandræði og um leyndina og jafnvel skömmina sem margar finna fyrir.

 

Skemmtilegt er ljóðið LEYNIMAKK þar sem því er lýst hvernig tíðarvörur ferðast á milli kvenna:

 

 

Skutlað leynilega á milli handa.

Skáskotið fyrir aftan bak

og stungið laumulega í vasa.

Handlangað undir borðum

svo lítið beri á.

Flutt flausturslega

úr einu veski í annað.

Eins og ólögleg fíkniefni.

Enginn má sjá.

Heimurinn gæti farist.

 

 

Í næsta ljóði, SMÁN & SNEYPA, segir: „Skammastu þín ekki örugglega? // Þegar þú keyptir bindi í fyrsta sinn, / tvígstígandi og hikandi við afgreiðsluborðið? / Þegar dömubindið datt úr skólatöskunni? / Þegar það blæddi í gegnum buxurnar?" og svo framvegis. Ljóðið endar á línunni: „Erum við búin að skammast okkar nóg?" Það er í raun furðulegt að þessu eðlilega og náttúrulega ferli kvenlíkamans fylgi skömm og taka má undir ljóðmælanda að nú sé nóg komið.

 

Mörg ljóða bókarinnar eru húmorísk eða grátbrosleg, eins og til dæmis ljóðið GUÐ VERI MEÐ ÞÉR þar sem ort er um vanlíðan sem oft fylgir blæðingum:

 

 

Megi Guð vera með fólki

á öðrum degi blæðinga.

 

Megi parkódínið vera sterkt

og súkkulaðið sætt.

 

Megi hitapokinn virka

og lakið sleppa.

 

Megi sófinn vera mjúkur

og klósettpappírinn duga.

 

 

En einnig er ort um sorgina sem fylgir því þegar blæðingarnar koma þvert gegn væntingum og vonum um annað: „Ég beið eftir þér. / En þú komst aldrei. / Rósa kom hinsvegar / í hverjum mánuði. / Og ég hataði hana", segir í ljóðinu BEÐIÐ og í ljóðinu GRÁTIÐ segir: „Rauðbrúnn flekkur. / Lífið er horfið / og ég græt það / sem ekki varð."

 

Aðrar konur óttast það helst að Rósa komi ekki - eins og lýst er í ljóðinu GERÐU ÞAÐ:

 

 

Elsku rauða rós,

blómstraðu nú í brók minni.

Ég hef engan tíma

til að sinna barnsgráti.

 

 

Ný vandamál koma svo til sögunnar á tímum umhverfisvandamála, ofurneyslu og sóunar: „Vissirðu að ein blæðandi manneskja notar fimmþúsund / til fimmtánþúsund tíðarvörur á lífsleiðinni. / Það er nóg til að fylla heila seglskútu! / Og hvar heldurðu að þetta endi? / Uppí nösunum á saklaustum skjaldbökum. Urðað upp í rjáfur." Nokkur ljóð fjalla um þetta nútímavandamál og auðvitað fylgir aukin skömm í kjölfarið þótt við „eigum ekki að þurfa að skammast okkar / fyrir eitthvað sem við höfum enga stjórn á".

 

Ljóð Esterar eru mismunandi í formi og lengd og hún hefur í flestum tilvikum góð tök á ljóðmálinu, best finnst mér henni takast upp í stuttum hnitmiðuðum myndum, eins og til að mynda í eftirfarandi ljóði:

 

 

Á KAF

 

Ég þarf bara að stíga

þessa blóðrauðu öldu.

Sigla þessa brúnleitu báru.

Koma þessum álfabikarsbát í höfn,

áður en ég sigli á kaf.

 

 

Í síðasta ljóði bókarinnar yrkir Ester um tíðahvörfin. Lokaljóðið ber yfirskriftina ÚR EINU Í ANNAÐ og þar er fyrst lýst neikvæðum fylgikvillum blæðinganna en síðan neikvæðum fylgikvillum tíðahvarfanna: 

 

 

Hélstu að þetta væri upptalið? Nei, nei elskan mín.

Svo þegar þessu er lokið þá tekur við:

 

Nætursviti. Hitakóf. Leggangaþurrkur.

Hjartsláttarónot. Höfuðverkur.

Svefnerfiðleikar. Skapsveiflur.

Kvíði. Svimi. Pirringur.

Þreyta. Depurð. Grátgirni.

Minnkuð kynhvöt. Liðverkir.

 

 

Er nema von að ljóðmælandi spyrji í síðustu línunni: „Hvað skítadíll er nú þetta?"

 

 

 

Fegurðin í flæðinu er mjög áhugaverð og sterk ljóðabók og teikningar Esterar, sem prýða nær hverja einustu opnu, lyfta verkinu upp á enn hærra stig; myndirnar eru frábærar í einfaldleika sínum, dregnar með svörtum línum og flæðinu rauða bætt við - jafnvel í formi lítils bletts á síðunni.

 

Fegurðin í flæðinu er bók sem mæður ættu að gefa dætrum sínum sem standa á þessum tímamótum. Ljóðin geta verið leið inn í umræður sem sumum finnst erfitt að hefja - þótt það ætti vitaskuld alls ekki að vera raunin.