AÐ INNAN ERUM VIÐ BLEIK eftir Solveigu Thoroddsen
Solveig Thoroddsen. Að innan erum við bleik. Bókaútgáfan Sæmundur 2023, 48 bls.
Það er í takt við tímann að fyrsta ljóðið í nýjustu ljóðabók Solveigar Thoroddsen beri titilinn YFIRVOFANDI ELDGOS:
Jarðskjálftar bylgja baðvatnið.Ég leyfi ígulkerinu,sem ég tók með mér úr eyjunumsíðasta sumar,að fljóta um baðiðog minnast sjóaldanna.Uns það strandará brjóstum mínumsem hvelfasteins og rennileg selsbökupp úr froðunni.
Myndin af nakinni konu í baði slær líka erótískan tón sem ágerist í næstu ljóðum bókarinnar. Annað ljóðið, VETRARHEIMSÓKN Í TIMBURHÚS, lýsir dvöl elskenda sem fara ekki út úr húsi í marga daga „þótt sólinni tækist, / í fyrsta sinn í þrjá mánuði, / að smjúga inn langan fjörðinn / og bera sig á miðju bæjartorginu / innst inní firðinum", því betra er að vera inni og „Elskast, drekka te og kaffi / klæðast og afklæðast lopapeysum. / Snjór úti, eldur inni". Ljóðið hefst á lýsingu á mismunandi fullnægingjum:
Sumar fullnægingar erupastellitaðir bólstrarmeð þunnum himnummjúkar og óvæntar.Aðrar breiðast út frá miðjueins og frostrósirog gliðna til allra áttaum skjálfandi líkamann.
Mörg ljóða bókanna snúast um ástarsamband sem var um stund gjöfult og gott - en tók enda. Lýst er ferðalagi út á land sem parið, sem mörg ljóðanna fjalla um, fer í saman í að vetrarlagi. Af eftirfarandi ljóði má jafnvel geta sér til um að áfangastaðurinn hafi verið Seyðisfjörður. Þar fær orðið „náttúruhamfarir" tvíræða merkingu og hliðstæða dregin á milli fólks og náttúru:
HLIÐRUNEinn daginn hafði orðið hliðrun.Fjallið óf deigt moldarteppi,ísett grjóti og möl,sem það rúllaði niðursnarbrattar hlíðarnar.Hús fluttust í heilu og hálfu lagiaf grunni sínumá ókunnan stað.Einn daginn hafði orðið hliðruní hjarta þínu.Ástin var ekki lengur þar.Ég finn migá ókunnum stað.Enginn dó við þessar náttúruhamfarir.
Í upphafi næsta ljóðs, HVÍTUM MÁVUM, er borin fram spurning: „Hvað verður um vetrarást þegar vora tekur? / Skolast hún burt með vorleysingunum og / hverfur í fjörðinn djúpa?" Og við lok ljóðsins eru fleiri spurningar og sú síðasta er: „Hefurðu fundið hendur jafn góðar / og mínar voru sagðar vera?"
Ástarsambandinu og endalokum þess er lýst á fremur yfirvegaðan og látlausan hátt í fyrstunni en síðar kemur í ljós að ástarsorgin bítur ljóðmælanda fast, viðkvæmar stundir koma, eins og lýst er í ljóðinu TILVISTARANGIST þegar ljóðveran biður: „Getur einhver lesið fyrir mig ljúfa sögu / sem staðfestir tilvistina? / Þar mega gjarna vera blóm, barnsraddir og jafnvel / selir." Og hún tengir sig við hafmeyju H. C. Andersens sem sprakk af ástarharmi og varð að froðu:
Útfall. Froðan er hafmeyja sem sprakk af ástar-harmiElsku hjartans hafmeyja.Er ég til eða er ég bara þjóðsaga?
En ljóðmælandi lætur ástarsorgina ekki buga sig og leitar til náttúrunnar; gengur á fjöll og hugleiðir dýralíf. Í frábæru ljóði sem ber titilinn ROSTUNGAR, kemur í ljós að :
Miklu fleiri tár flóðuþegar við horfðumí tölvunniá skeljasvangarostunga Attenboroughslausa við fjarlægðarskyn,henda sér fram af háum klettumað fjöruborðinu,en þegar þú kvaðst upp dómum að hér skyldi ást okkar enda.
Mörg fleiri skemmtileg ljóð er að finna á síðum þessarar annarar ljóðabókar Solveigar, sem áður hefur sent frá sér ljóðabókina Bleikrými (2017). Ljóðmál hennar er tært og auðskiljanlegt, lítið um flókið myndmál en mikið um skemmtilegar hugmyndir og líkingar. Nokkur ljóð fjalla um annað en ást og ástarsorg, þótt flest hnitist þau um það efni á einn eða annan hátt.