Í MYRKRINU FÓR ÉG TIL MARÍU
Sonja B. Jónsdóttir, Í myrkrinu fór ég til Maríu, Veröld 2023, 79 bls.
Ljóðabók Sonju B. Jónsdóttur, Í myrkrinu fór ég til Maríu, var nýlega tilnefnd til ljóðabókaverðlaunanna Maístjörnunnar er til þeirra verðlauna eru tilnefndar ljóðabækur sem þykja skara fram úr af öllum útgefnum ljóðabókum tiltekins árs.
Vorið 1989 missti Sonja dóttur sína, Hörpu Rut, í bílslysi, aðeins nítján ára gamla. Og rúmum 34 árum síðar, sendir hún frá sér ljóðabókina sem er ort í minningu Hörpu Rutar. Fremst í bókinni er að finna tilvitnun í síðustu línuna í ljóði Jóhanns Sigurjónssonar, „Sofðu unga ástin mín“: „Mennirnir elska, missa, gráta og sakna“. Sonja skipar ljóðum sínum niður í fjóra hluta sem hver og einn ber yfirskrift úr þessari ljóðlínu: Elska, Missa, Gráta, Sakna. Þetta er vel til fundið því líklega þekkja allir þessa vögguvísu Jóhanns og hún vekur hugrenningatengsl við samband móður og barns, við þungan hug og myrkur.
Í fyrsta hlutanum, Elska, eru þrettán ljóð og það fyrsta bregður upp mynd af nýbakaðri móður á fæðingardeildinni með rauðhærða stúlkubarnið í fanginu. Í næsta ljóði er ljóðmælandi „að æfa [sig] / í að segja / mamma“, hún er „feimin við / þetta orð“ enda vart af barnsaldri sjálf. Þriðja ljóðið fjallar um nafnið sem hún velur dóttur sinni:
Ljóð þessa fyrsta hluta bregða upp fallegri mynd af ástríku sambandi móður og dóttur, af stelpu sem er „spriklandi / fjörug // svo full af / gleði og / hlátri / lífi“ eins og segir í VII ljóði; er „prakkari og / klifruköttur“. Einnig er hér ort um „unglingsárin“ sem „voru alls konar // eins og gerist / þegar unglingaveikin / gengur eins og / hver önnur / flensa“. Ljóðið endar á þessum línum:
Síðustu ljóð kaflans lýsa svo ungri, sjálfstæðri og úrræðagóðri konu sem „hafði þó / að minnsta kosti / náð að kynnast / ástinni“, áður en slitið var á lífsþráðinn.
Annar hluti, Missa, hefst á stuttu ljóði sem lýsir heimsókn sem enginn vil fá:
Í kjölfarið fylgir eitt fallegasta ljóð bókarinnar:
Í öllum þrettán ljóðum þessa hluta er miðlað nístandi sorginni sem heltekur ljóðmælanda eftir andlát dótturinnar og sleppir aldrei taki sínu. Í þessum hluta og þeim næsta, sem hefur yfirskriftina Gráta og geymir tíu ljóð, eru flest áhrifaríkustu ljóðin, lýst er mismunandi aðstæðum sem syrgjandinn er í, samskiptum hans við aðra sem geta ekki sett í hennar spor þrátt fyrir góðan vilja og því hvernig sorgin yfirtekur líkama þess sem syrgir.
Í þriðja hluta er að finna titilljóð bókarinnar, Í myrkrinu fór ég til Maríu, og er það annað tveggja ljóða bókarinnar þar sem María guðsmóðir kemur við sögu. Titilljóðið hljóðar þannig:
Hitt ljóðið þar sem María kemur við sögu er í formi stuttar bænar:
Af bókartitlinum mætti kannski álykta að ljóð Sonju séu trúarleg, alla vega í aðra röndina en svo er þó ekki, það eru aðeins þess tvö ljóð þar sem María kemur við sögu sem hafa trúarlega tengingu. Í VII ljóði lokahluta bókarinnar játar ljóðmælandi reyndar trúleysi sitt:
Í upphafi lokahlutans, Sakna, veltir ljóðmælandi fyrir hver hún sé og hvað hún sé, fyrst að hún er ekki lengur mamma. Það býr ekkert táknmið á bakvið táknmynd orðsins mamma lengur og í fleiri ljóðum er ort um það sem glatast og tæmist af merkingu þegar heil manneskja hverfur úr lífi okkar við dauðann. Hér er einnig ort um drauma þar sem hægt að er komast undan veruleikanum og dánir lifna á ný. Sonja yrkir um nútímahluti sem dóttir hennar komst aldrei í kynni við, svo sem gemsa, sem bjóða upp á mikil samskipti barns og foreldsins.
Eins og ljóst má vera af þeim ljóðum sem hér hafa verið lesin úr þessari fyrstu ljóðabók Sonju B. Jónsdóttur er ljóðmál hennar fyrst og fremst blátt áfram og tært. Hún notar lítið af þekktum stílbrögðum og fer sparlega með myndmál, ljóðin eru auðskiljanleg og miða framar öðru að því að miðla tilfinningum. Í umsögn dómnefndar sem tilnefndi bókina til ljóðabókaverðlaunanna Maístjörnunnar segir:
Í myrkrinu fór ég til Maríu er ort til minningar um látna dóttur og geymir blátt áfram en um leið djúp og ægifögur ljóð. Hún fjallar um sorgina sem margbrotið og breytilegt ástand og spyr spurninga sem er ekki hægt að svara nema með strengjatónlist beint úr hjartanu. Í ljóðum sínum kemur Sonja B. Jónsdóttir orðum að hinu ósegjanlega. Hún gerir upp þá átakanlegustu reynslu sem lífið býður upp á, af svo mikilli stillingu og svo miklum skírleika að undrum sætir. Berskjöldunin, æðruleysið og tilfinningaleg nektin í ljóðunum vefur minningunni heiðursklæði.
Við þessi orð skáldanna Guðrúnar Evu Mínervudóttur og Jakup Stachowiak hef ég engu að bæta.
Ritdómur var fluttur í Víðsjá, rás 1, 27. maí 2024.