SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 6. september 2024

ODDNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR

Þann 3. september voru liðin 113 ár frá fæðingu okkar nýjast meðlim í skáldatalinu. Ekki seinna vænna. Ljóðakonan Oddný Kristjánsdóttir var gott skáld með puttann á púlsinum á sinn skáldlega máta. Það er gott að lesa ljóðin hennar. Ljóð sem ort voru fyrir margt löngu og tíðarandinn allt annar þá en hann er í dag.  Samt allir að glíma við sömu lífsgátuna bara í annarri mynd. Þetta gamla eins og vinnubrög forfeðranna hefur glatast með tilkomu tækninnar og manni finnst einhvernveginn svo stutt síðan.

Mér líður vel við lesturinn, orðin eru vel til höfð, snyrtileg, svona eins og þau séu á leiðinni á fögnuð. Fornleg myndi margir segja en ljóðin eru fjölbreytt að formi, bundin sem óbundin en alltaf ljóðræn. ,,Tíni ég saman tárin mín/ tygja fákinn hvíta/máninn hátt á himni skín/hrímfölur að líta" kunnulegt stef sem hún notast við á fallegan máta. ,,Það sem lífið lagði á borð/látum rölta fetið/hugsun, tillit, atlot orð/allt er geymt og metið" Oddný er lagin við að koma lífsspeki sinni frá sér og þannig eiga ljóða að vera. Það sem lífið lagði á borð er myndræn sýn því gnægðir þær sem lífið hefur upp á að bjóða þurfum við að þakka fyrir. Þegar við grátum yfir því að íslenskan sé fátækari, orðaforða ábótavant og almenn hnignun málsins þá erum við að tala um þetta, gjáin á milli þess gamla og þess nýja er oft of djúp. Látum því börnin okkar lesa gömul ljóð, lesum þau sjálf og efltum þannig orðaforða þeirra með okkar fallega, einstaka, ylhýra, kjarnyrta máli. 

VIÐ FLJÓTIÐ

Hér eru allir einir
allir þöglir blína
inn í móður mistur
meta byrði sína?
athvarf verður enginn
öðrum hér í sandi
þeir sem brýrnar brutu
byggja í öðru landi.
 

VOTABANDS - LIMRUR

Landinu hallar að hafi,
háfjöllin standa á skrafi,
í hvamminum nær,
er hlýlegur bær,
þar bjuggu þau amma og afi.
 
Karlarnir kasta fram vísu,
konurnar ganga að því vísu,
að elda nú enn
í svo ágæta menn,
soðkökur, saltket og ýsu.
 
Amboð á engjunum ganga,
allir að losa og fanga,
í þúfnareit þar,
sem þurrlegast var,
um dagana ljósa og langa.
 
Lestin sig kraflar um keldur
karlmennskan böggunum veldur,
þeim krækt er á klakk,
yfir keldur og svakk,
upp á túnið sem hófunum heldur.
 
Aldirnar hurfu í hafið
hvarvetna er dáið og grafið,
það votabands lið,
sem sett var á svið
og búskaparvandanum vafið.
 
Hér eru þau mörg, orðin, sem horfin eru úr málinu í dag. Orð sem tilheyra kynslóðum sem nú eru horfnar. Guði sé lof fyrir þessar ljóðabækur frá henni Oddnýju.
 
Heimildir.:
Morgunblaðið - 134. tölublað (18.05.2007) - Tímarit.is (timarit.is)
 
Ljóðabókin ,, Best eru kvöldin" 2001
 
https://skald.is/skaldatal/542-oddny-kristjansdottir
 
Kveðja Magnea