BEINHVÍT BLÖÐ, VOT AF TÁRUM - Um Rifsberjadalinn
Út er komin ný ljóðabók eftir Ásdísi Óladóttur (f. 1967). Fyrsta ljóðabók Ásdísar, Birta nætur, kom út 1995. Úrval úr ljóðum hennar, Sunnudagsbíltúr, var gefið út 2015 þannig að á næsta ári spannar skáldferill hennar 30 ár.
Nýja ljóðabókin heitir Rifsberjadalurinn. Hún skiptist í tvo hluta, Allt nema ég og Á nefi mínu hvílir regnhlíf. Fyrri hlutinn er bálkur sem lýsir glímu ljóðmælanda við ranghugmyndir, sektarkennd og ofsóknaræði; raddir heyrast í höfðinu og sjálfsvígshugsanir leita á. Þetta eru raunsæisleg og hreinskilin ljóð, ómyrk í máli um hvernig geðveiki nær undirtökum, um einhvers konar lækningu með lyfjum („Lífæð mín 30 mg“) og einhverjum bata.
Kláraði námið
en fékk enga stjörnu
á rassinn.
Minna veik
og varð minna
og minna veik.
Var komin
í rifsberjadalinn
eða á lyfið
sem ég tók inn.
Rifsberjadalur hefur skemmtilega tengingu við lyfið Risperdal sem virkar á flest einkenni geðklofa og er notað við bráðum og langvinnum geðtruflunum. Dalur þessi er væntanlega sólríkur og notalegur staður þar sem hægt er að leita skjóls, svipað og að vappa inn í Víðihlíð í samnefndu ljóði Megasar.
Í seinni hluta bókarinnar kveður við öðruvísi tón og skáldlegri. Þar eru japönsk ljóð skrifuð á blöð kirsuberjatrjánna, draumar eru fiskar sem eru dregnir á land og glerbrotum rignir um nótt. En sársaukinn er enn til staðar og einsemdin alltumlykjandi: „allt í góðu lagi nema ég“ (46).
Ljóð sem heitir Samtal fjallar um orð og þar er „nú-na“ endurtekið stef. Því lífið er stutt og dauðinn þess borgun, eins og annað skáld kvað forðum, og boðskapurinn er að allt okkar streð verður fyrr en varir gleymt og grafið.
ÆVI
Maðkur,
sandmaðkur
skilur eftir sig
á leirunni
flókna
slóð,
minnisvarða
um ferð.
Það fellur að.
Síðast kom út ljóðabók frá Ásdísi 2020, Óstöðvandi skilaboð, þar sem einsemdin er einnig alls ráðandi. Sársaukinn er mikill í báðum þessum bókum og skáldkonan veltir fyrir sér hvort orðin nái almennilega utan um hann. Dregin eru upp eftirminnileg mynd: Orðin fæðast og falla: „á beinhvít blöð / vot af tárum“.