Ásdís Óladóttir
Ásdís Óladóttir fæddist 22. apríl árið 1967 í Hafnarfirði. Hún ólst að mestu leyti upp í Kópavogi og útskrifaðist sem stúdent árið 1987 frá Menntaskólanum í Kópavogi.
Árið 1989 lá leið Ásdísar í Iðnskólann í Hafnarfirði þar sem hún lauk námi í hönnun þremur árum síðar. Árið 1994 stundaði hún nám í hönnun við Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam.
Fyrsta ljóðabók Ásdísar, Birta nætur, kom út hjá Andblæ árið 1995. Í dag eru ljóðabækur hennar níu talsins auk ljóðúrvalsins, Sunnudagsbíltúr, sem bókaútgáfan Bjartur og Veröld gaf út 2015.
Ásdís hefur fengist við ljóðagerð frá átján ára aldri og ásamt ritstörfum unnið meðal annars við fiskverkun, hönnun, safnvörslu, verslun, ræstingar, sýningarstjórn í Gallerí 78, setið í sýningarnefnd Glerhússins, ritnefnd Andblæs, dómnefnd Ljóðstafs Jóns úr Vör auk þess sem hún var í dómnefnd ljóðasamkeppni Hinsegin daga.
Ásdís býr í Reykjavík.
Ritaskrá
- 2024 Rifsberjadalurinn
- 2020 Óstöðvandi skilaboð
- 2015 Sunnudagsbíltúr
- 2014 Innri rödd úr annars höfði
- 2011 Mávur ekki maður
- 2006 Margradda nætur
- 2004 Einn en ekki tveir
- 2003 Teiknað í haustloftið
- 1998 Haustmáltíð
- 1995 Birta nætur
Tilnefningar
- 2024 Til Fjöruverðlauna fyrir Rifsberjadalinn