SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir11. febrúar 2025

DUNA. SAGA KVIKMYNDAGERÐARKONU

Kristín Svava Tómasdóttir og Guðrún Elsa Bragadóttir, Duna. Saga kvikmyndagerðarkonu, Mál og menning 2024, 304 bls.

Á níunda áratug tuttugustu aldar hófst það sem síðar hlaut nafngiftina íslenska kvikmyndavorið. Þá kom fjörkippur í íslenska kvikmyndagerð og nýir listamenn í þessum geira stigu fram og merkilegt má teljast að í þeim hópi voru nokkrar konur sem létu mikið að sér kveða. Sú þrautseigasta í þeim hópi er án efa Guðný Halldórsdóttir, sem betur er þekkt undir gælunafninu Duna, en hún gerði þrjár kvikmyndir á níunda áratugnum, tvær á þeim tíunda og tvær á fyrsta áratug tuttugustu og fyrstu aldar. Duna starfaði alla tíð á sviði kvikmyndagerðar, auk leiknu myndanna gerði hún heimildamyndir, sem og áramótaskaup og aðra þætti fyrir sjónvarp, svo nokkuð sé nefnt. Hún stofnaði kvikmyndafélagið Umba árið 1983, ásamt vinkonum sínum og samstarfskonum í kvikmyndagerð. Aðdragandanum er lýst á eftirfarandi hátt:

 

 

„Við vorum allar að vinna fyrir unga og upprennandi leikstjóra og vorum allar svona ofboðslegar aðstoðarmanneskjur“, segir Duna. „Við létum mikið til okkar taka og vorum hamhleypur til verka. Svo hittumst við þegar við áttum frí og stofnuðum klúbb sem hét Föstudagsklúbbur síðdegiskvenna. Þá var bjórinn ekki leyfður en við drukkum heil ósköp af kokteilum, skiptumst á sögum og bárum saman bækur okkar. Það efldi okkur og við espuðum hver aðra upp, sem við máttum vel. Við vorum djöfull duglegar og margþættar í okkar verkum og fengum lítið kredit fyrir og vorum einfaldlega spældar: „Hvurn djöfullinn erum við að moka undir þessa gæja? Gerum okkar eigin mynd!“ Þannig að við ákváðum að stofna fyrirtæki einungis með konum“ (87)

 

Höfundar bókarinnar Duna. Saga kvikmyndgerðarkonu eru þær Kristín Svava Tómasdóttir sagnfræðingur, skáld og rithöfundur, og Guðrún Elsa Bragadóttir, lektor við kvikmyndalistadeild Listaháskóla Íslands. Í stuttu máli má segja að bókin segi söguna af því hvernig Duna „hlammast í gegnum þessa kvikmyndagerð með kjafti og látum“ (15) svo notuð séu orð sem hún lætur sjálf falla framarlega í bókinni. Orðalagið lýsir Dunu eflaust ágætlega, hún segir fjörlega frá, hefur húmor fyrir sjálfri sér og öðrum og virðist ákveðin og föst fyrir.

Duna er fædd árið 1954 og er ein af fyrstu íslensku konunum sem lagt hefur fyrir sig kvikmyndagerð og starfað við hana alla sína starfsævi. Þótt ég hafi hér í upphafi getið þess að nokkrar konur hafi átt þátt í íslenska kvikmyndavorinu á níunda áratug síðustu aldar er þó ljóst að karlmenn í hópi kvikmyndagerðamann nutu þar ýmissa forréttinda vegna kyns síns. Að því leyti eru titlar tveggja fyrstu mynda áratugarins nokkuð táknrænir: Land og synir eftir Ágúst Guðmundsson og Óðal feðranna eftir Hrafn Gunnlaugsson voru báðar frumsýndar árið 1980. Feður og synir voru í forgrunni í íslenskri kvikmyndagerð og þótt myndir eftir Rósku, Kristínu Jóhannesdóttur og Guðnýju Halldórsdóttur litu allar dagsins ljós á þessum tíma og leikstjórar á borð við Kristínu Pálsdóttur og Þórhildi Þorleifsdóttur þreyttu frumraunir sínar á þessu sviði, þá er það einnig staðreynd að hlutur kvenna varð síðan æ rýrari og fáar myndir eftir konur bættust í flóruna á tíunda áratugnum. Björn Ægir Norðfjörð, kvikmyndafræðingur, skrifar í yfirlitsgrein um íslenskar kvikmyndir frá árinu 2019 [„Ljós í myrkri. Saga kvikmyndunar á Íslandi“, sem birtist í Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar] að eftir hinn blómlega níunda áratug hafi komið bakslag:

 

Því miður hefur hlutur kvenna orðið æ rýrari allar götur síðan og hefur það ljóslega komið niður á fjölbreytileika íslenskra kvikmynda, sem eru æði karlmiðaðar. Kvenleikstjórar er ekki aðeins líklegri til að segja sögur af konum heldur eru það þeir sem helst beygja frá hefðbundnum viðmiðum við gerð kvikmynda á níunda áratugnum, samanber myndirnar Sóley (Róska/Manrico Pabolettoni, 1982), Á hjara veraldar (Kristín Jóhannesdóttir, 1983) og  að  einhverju  leyti  Kristnihald  undir  Jökli.

 

Í bókinni um Dunu er ekki að finna mikla umræðu um þennan kynjavínkill á íslenskri kvikmyndagerð fyrr en í síðari hluta bókarinnar. Þar kemur fram að frá upphafi kvikmyndavorsins og fram til aldamótanna 2000 leikstýrðu konur um fimmtungi mynda, en þeim „fjölgaði jafnt og þétt í flestum öðrum hlutverkum innan geirans, til dæmis sem aðstoðarleikstjórum, framleiðendum og klippurum“ (246). Flestar konurnar sem komu fram á svipuðum tíma og Duna „hurfu hins vegar af sviðinu eftir eina eða tvær myndir“ (246). Einnig kemur fram að þegar Duna og vinkonur hennar stofnuðu kvikmyndafélagið Umba hafi hún talið „að þá sætu þær svona nokkurn veginn við sama borð og karlarnir en seinna fór sú upplifun hennar að breytast“ (247):

 

„Ég hef þurft að sanna mig frá því ég byrjaði í kvikmyndagerð,“ sagði hún á ráðstefnu Kvenréttindafélags Íslands árið 2000. „Á hverju ári er úthlutað í þrjár myndir úr Kvikmyndasjóði Íslands. En af einhverri ástæðu er mér alltaf úthlutað svolítið minni styrk en strákunum, starfsfélögum mínum, og það þótt fjárhagsáætlun mín sé hærri en þeirra. Og ég sé enga ástæðu aðra en þá að ég er kona og ég gæti floppað“ (247).

 

Síðar segir hún: „Konum er hvorki treyst fyrir tækni né peningum og kvikmynd er peningar og tækni“ (247).

Bókin um Dunu snýst hins vegar að minnstu leyti um þennan kynjavínkil, eins og áður er sagt. Kannski mætti lýsa bókinni sem starfsævisögu Guðnýjar Halldórsdóttur. Í upphafi lýsa höfundarnir tveir, Kristín Svava og Guðrún Elsa, því þegar þær keyra að vetrarlagi upp að  Gljúfrasteini til að taka viðtal við Dunu á æskuheimili hennar. Þar gefst tilefni til að fara lauslega yfir bernskuárin á heimili Halldórs Laxness og Auðar Sveinsdóttur, foreldra Dunu, og lýsa staðháttum í Mosfellsdalnum þar sem Duna hefur búið nær alla sína tíð, í Melkoti, húsi sem hún og eiginmaður hennar Halldór Þorgeirsson byggðu sjálf steinsnar frá Gljúfrasteini. Þetta upphaf á bókinni gefur tóninn fyrir hana alla. Stíllinn er léttur, frásögnin að mestu leyti lögð í munn Dunu enda er bókin að stórum hluta byggð á viðtölum við hana sjálfa, en einnig á við fleiri úr fjölskyldu hennar, sem og vini hennar og samstarfsfélaga.

Duna segir frá æsku sinni í Mosfellsdalnum, skólagöngu sinni, vinnu sinni sem aðstoðarmaður við ýmislegt í tengslum við kvikmyndun á Brekkukotsannál og síðar við Paradísarheimt, sem ef til vill var, ásamt reynslu hennar að því að vinna fyrir sjónvarp, einn besti skólinn sem völ var á fyrir verðandi kvikmyndagerðarkonu; „eldskírn“ kallar hún reynsluna af því að vinna við Paradísarheimt. 1980 heldur hún til London til náms í kvikmyndagerð, sem var nám að hennar skapi, intensíft og farið vel í alla þætti fagsins. Eftir að Duna útskrifast úr kvikmyndaskólanum fylgja kaflar sem fjalla um hennar eigin kvikmyndagerð. Við lesum um vinnuna við Skilaboð til Söndru (1983), Stellu í orlofi (1986), Kristnihald undir jökli (1989), Karlakórinn Heklu (1992), Ungfrúna góðu og Húsið (1999), Stellu í framboði (2003) og Veðramót (2007). Einnig kynnumst við kvikmynd sem Duna þurfi að hverfa frá vegna veikinda en átti að heita Ævinlega velkomin og lesandanum finnst synd að hafi aldrei komist á hvíta tjaldið.

Frásögn af því hvernig Duna „hlammast í gegnum þessa kvikmyndagerð með kjafti og látum“ er ekki aðeins fróðleg og upplýsandi um þann ógurlega barning sem íslensk kvikmyndagerð hefur líklega lengst af verið, heldur er hún einnig fjarskalega skemmtileg aflestrar, því Guðný Halldórsdóttir er einstaklega fyndinn sögumaður og þær Kristín Svava og Guðrún Erla ná vel að miðla húmor hennar og karakter. Bókin hlýtur að teljast mikilvægt innlegg í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar og íslenskrar kvennasögu, um leið og ég trúi því að flestir muni hafa gaman af öllum þeim aragrúa að skemmtisögum sem í henni eru – sumar þannig sagðar að lesandi veltist um að hlátri.

Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá á rás 1, rás 1, 4. febrúar 2025.