HANDRIT BÍÐA Í DYNGJUM - Um Kurteisleg kvæði og dýrlegar diktanir
Bókin Kurteisleg kvæði og dýrlegar diktanir. Bókmenntagreinar og handritamenning á sautjándu öld eftir Þórunni Sigurðardóttur, er komin út hjá Árnastofnun. Í bókinni, sem er 500 bls doðrantur, eru átján greinar sem Þórunn hefur birt í tímaritum og bókum á undanförnum árum, bæði á ensku og íslensku.
„Þær stundir sem ég hef haft til fræðiiðkana og textaútgáfu hafa margar farið í „að brjótast í gegnum...dyngjur af handritum á Landsbókasafni, Árnastofnun og víðar. Sú vegferð hefur verið lærdómsrík og gefandi - og skemmtileg“ segir Þórunn í formála bókarinnar.
Þórunn hefur rannsakað og skrifað heilmikið, allt frá árinu 1994 eins og fram kemur í ritaskrá hennar. Bókin er fræðileg útgáfa, ætluð fræðimönnum fyrst og fremst enda margir textanna sem til umfjöllunar eru einungis varðveittir í handritum. Leikmenn geta þó alveg fundið sitthvað áhugavert ef leitað er grannt.
Vísbendingar um líf og tilfinningar
Í greinunum er lögð áhersla á félagslegt umhverfi skálda og viðtakenda bókmenntanna, tilurð þeirra, dreifingu og varðveislu, og samspil texta og umhverfis eða samhengi textanna við það samfélag sem þeir eru sprottnir úr. Sýnt er fram á að í bókmenntunum er hægt að fá vísbendingar um daglegt líf og tilfinningar, bæði skálda og samtímamanna þeirra, jafnt úr veraldlegum sem trúarlegum textum.
Greinunum er skipt í fimm kafla eftir meginviðfangsefni: Menntun og bókmenning; Handritamenning; Höfundareignun; Konur í bókmenntum síðari alda; Bókmenntagreinar á sautjándu öld. Aftast er heimildaskrá auk nafnaskrár og handritaskrár. Myndir í bókinni eru flestar af handritum en engin skrá er yfir þær.
Eins og fram hefur komið bíða handrit í dyngjum eftir því að vera lesin og rannsökuð og þau geyma eflaust merkilega sögu. T.d. eru ótal textar frá 17. öld lítt rannsakaðir (eða „árnýöld“ eins og tímabil fyrri alda er kallað í bókinni) og bíða eftir að þeim verði gaumur gefinn. Þar leynist margur fjársjóðurinn. Það er mjög áhugavert að lesa um áður óþekkt kvæði sem Þórunn fjallar ítarelga um og er mjög líklega er eftir Hallgrím Pétursson, en handrit þess er að finna í Svíþjóð. Eins var gaman að lesa um áður óþekkt ljóðabréf eftir séra Einar í Eydölum sem varðveitt er í einu handriti á Landsbókasafni. Mjög áhugavert er að kynnast sr. Guðmundi Erlendssyni í Felli, sem hefur lítt verið hampað en kemur víða fyrir í þessari bók. Hann var vinsælt en mistækt skáld, samtímamaður Hallgríms Péturssonar og stóð sumpart í skugga hans.
Siðsamar jómfrúr
Einn kafli heitir „Konur í bókmenntum síðari alda“. Þar er m.a. fjallað um birtingarmynd kvenna í t.d. tækifæris- og siðatextum, dyggðakvæðum, harm-og erfiljóðum og sálmum. Á þessum tíma var konan ekki sjálfstæður einstaklingur heldur hluti af karlinum, meðhjálp hans og yndisauki (274) og hennar hlutverk var að fjölga mannkyninu. „Siðsamar jómfrúr eiga að hegða sér vel, forðast vondan félagsskap, illan munnsöfnuð, ótuktlegan dans og vikivaka, dreissugan klæðaburð... Konurnar eiga að vera kyrrlátar, ljúfar og vingjarnlegar...Undirgefni, hlýðni og þénustusemi eru þannig grundvöllur kvenlegra dyggða. Hin dyggðum prýdda, hlýðna og kyrrláta kona er hafin á stall og jafnframt hlutgerð“ segir Þórunn. Konum var oft líkt við sól eða skæra lampa í bókmenntum 17. aldar og þær áttu i senn að vera bæði gagnlegar á heimilinu og prýða það.
Í grein sem ber heitið „Dyggðafull kona er ein eðla gáfa“, segir frá konum sem tókust á hendur óhefðbundin hlutverk og er getið í bókmenntum, s.s. Guðrún Árnadóttir (d. 1619) sem lærði að lesa, skrifa og reikna og má skilja af harmljóði um hana að hún hafi verið skrifari fóstra síns áður en hún giftist (293). Á 17. öld fjölgar verulega þeim bókmenntatextum sem ætlað var að halda konum á sínum stað og skilgreina hlutverk þeirra sem var að styðja við karlinn og þar með þjóðskipulagið. En ekki er þar með sagt að þær hafi allar hlýtt því alltaf, nægir að nefna t.d. Halldóru Guðbrandsdóttur biskups Þorlákssonar sem hafði karlmannshug í konubrjósti sem kunnugt er.
Vannýttar heimildir
Þórunn telur að skilgreining á bókmenntagreinum (genre) sé mikilvæg fyrir lestur, skilning og túlkun bókmennta. Hún les heilmargt út úr sálmum annað en guðrækni og trúfræði. „Sálmarnir voru ekki aðeins ortir í trúarlegum tilgangi heldur einnig félagslegum, til að heiðra, lofa, hugga, gleðja, fræða, bæta kristilegt siðferði, til minningar um látna, til að syngja yfir börnum og óska náunganum heilla, gefa heilræði, veita áminningu og deila á bresti og veikleika mannanna, græðgi og valdafíkn, svo nokkuð sé nefnt“ (405).
Þórunn segir að líta megi á safn íslenskra sálma og andlegra kvæða frá 17. öld sem vannýttar heimildir um mannlíf, samfélag og menningu. Það er sannarlega áhugavert og gjöfult sjónarhorn sem á vonandi eftir að laða fleiri til að leggja stund á íslensk fræði og sinna rannsóknum á okkar dýrmætu handritum, varpa mögulega nýju ljósi á samfélag og mannlíf fyrri tíma og vera hvatning til þess að gera menningararfinn áhugaverðan og aðgengilegan nútímafólki.