SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn19. mars 2025

SÖGUR AF HÆGALOFTINU - KONUR OG OFBELDI Í ÍSLENSKUM SAGNADÖNSUM

ÁGRIP DOKTORSRITGERÐAR INGIBJARGAR EYÞÓRSDÓTTUR

 

Sagnadansar eru munnleg kvæðagrein sem fyrst mun hafa borist hingað til lands frá Noregi og Færeyjum og síðar frá Danmörku. Kvæðagreinin á sér rætur á evrópskum miðöldum og á Norðurlöndum er hún fyrirferðarmikill menningararfur, sérstaklega í Danmörku og Færeyjum. Hér á landi hafa sagnadansar ekki verið jafn miðlæg bókmenntagrein og þar og þeir skera sig auk þess úr öðrum norrænum sagnadönsum í því að falla langflestir í flokk svonefndra riddarakvæða, en annars staðar á vestnorræna svæðinu eru kappakvæði mun fyrirferðarmeiri. Kvæðin hér á landi eru varðveitt í handritum frá síðari hluta 17. aldar og fram á 19. öld, sum þeirra voru hljóðrituð á 20. öld og einstaka kvæði hefur haldið velli fram á okkar daga.

 

Þegar hérlendu kvæðin eru skoðuð nánar kemur í ljós að þau fjalla langflest um konur og samskipti þeirra við karla. Ennfremur er ofbeldi furðualgengt umfjöllunarefni. Í rannsókninni er sjónum beint að þeim kvæðum þar sem þetta fer saman; konur í miðju atburða og ofbeldi. Þetta birtist með ýmsu móti: Karlar beita konur ofbeldi, jafnvel kynferðisofbeldi; konurnar bregðast gjarnan við með því að drepa karlana – eða átökin eru á milli karla um konur.

Rannsóknin er þrískipt. Í fyrsta hluta er greint frá rannsóknarsögu, rótum og uppruna kvæðagreinarinnar. Einnig er leitað að ummerkjum um dans og danskvæði í hérlendum bókmenntaarfi miðalda og skrifum af ýmsu tagi frá því eftir siðaskipti. Í öðrum hluta er fjallað um sjálf kvæðin. Sagt er frá umfjöllunarefni, byggingu og málfari kvæðanna, frá handritum, heimildarmönnum – sem oftast voru konur – og skipulagðri söfnun þeirra á 19. öld. Síðan eru tilgreind 52 kvæði, 35 þar sem ofbeldi er miðlægt umfjöllunarefni og 17 af öðrum toga, og í framhaldi af því eru frásagnarliðir, þar sem ofbeldi í ýmsu samhengi kemur fyrir, skilgreindir. Greining kvæðanna eftir frásagnarliðum er hryggjarstykkið í rannsókninni. Þar sést að í sagnadönsum þar sem konur eru beittar ofbeldi birtist iðulega rík samúð með þeim og hlutskipti þeirra. Ennfremur að sagnadansar um afdráttarlaust og harkalegt ofbeldi eru áberandi í elstu handritunum og handritum 18. aldar en taka að týna tölunni þegar kemur fram á 19. öld.

Í þriðja hluta er kvæðagreinin skoðuð í samhengi við aðrar bókmenntagreinar hérlendis á ýmsum tímum: heilagra meyja sögur, fornaldar- og riddarasögur, hetjukvæði og Íslendingasögur, rímur og sagnakvæði. Þar kemur í ljós að ákveðinn strengur er á milli hetjukvæða eddukvæðanna sem lögð eru í munn kvenna, sagnakvæða og sagnadansa. Þetta eru greinar sem á einhvern hátt fjalla um hlutskipti kvenna, eru ort út frá þeirra sjónarhorni og samúð í garð kvenna birtist þar. Í hetju- og sagnakvæðum er þó ekki fjallað um ofbeldi í garð kvenna, þótt samfélagið geti leikið þær grátt. Í meykóngasögum og sumum fornaldarsögum má aftur á móti sjá slíkt ofbeldi. Þar er nauðgunum stundum beitt sem refsingu þegar konur hafa brotist út úr þröngt skornum stakki kvenhlutverksins og fyrir að hafa sært heiður karla. Í tveimur sagnadönsum má greina slík viðhorf en að öðru leyti er samúð kvæðanna afdráttarlaust kvennanna megin.

Sagnadansarnir eru einnig tengdir við samfélagið sem þeir hrærðust í, með áherslu á lagaramma og afstöðu kirkjunnar til skemmtanahalds og siðferðismála. Þar sést að á sama tíma og refsiharka var mikil og aftökur fyrir svonefnd siðferðisbrot algengar, voru kvæði þar sem samúð í garð kvenna sem sæta ofbeldi áberandi, þau margoft skrifuð upp og nutu augljóslega vinsælda. Þegar aftökur lögðust af rétt fyrir aldamótin 1800, fór uppskriftum á kvæðum af þessum toga fækkandi. Reyndar fer það saman við að sagnadansar almennt taka að hverfa úr minni heimildarmanna á þeim tíma. Þó er sláandi að þau kvæði sem lifa áfram og fjalla um ofbeldi á einhvern hátt eru flest af öðrum toga, í þeim er mun meiri áhersla á yfirnáttúrulega atburði og tengsl við þjóðsögur eru augljós.

Að lokum er fjallað um hvaða hlutverki kvæðagreinin geti hafa gegnt í lífi kvennanna sem fluttu og varðveittu sagnadansa. Þar sjáum við konur syngja um erfiða reynslu annarra kvenna og ekki er loku fyrir það skotið að sumar þeirra hafi þannig tjáð eigin hliðstæða reynslu um leið. Þarna var því mögulegt fyrir konur að fjalla um atburði sem alla jafna var erfitt og jafnvel ómögulegt að orða á annan hátt. Jafnvel gerði framandleiki kvæðanna þeim auðveldara að tjá tilfinningar sínar í gegnum þau; þau komu utan frá, lutu ekki hérlendum bragreglum og voru jafnvel ekki á kórréttu máli. Þau eru einnig hlaðin ljóðrænu, endurtekningum og formúlum – enda munnleg danskvæði – og því einstaklega sefjandi og áhrifamikil. Sagnadansar gætu því hafa verið eini vettvangurinn þar sem hægt var að tjá sig um svo erfið málefni. Ritgerðin fjallar því ekki síst um hvernig þessi sérkennilegu kvæði hafa náð að lifa sem hluti af menningararfi kvenna, og hvernig konur gáfu þeim bæði rödd og hljóm.

Tengt efni