SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 2. apríl 2025

SPEGLAHÚSIÐ: ÖRLAGASÖGUR ÚR FORTÍÐ OG NÚTÍÐ

Benný Sif Ísleifsdóttir, Speglahúsið, Mál og menning 2024

 

Í nýjustu skáldsögu sinni, Speglahúsinu, sem kom út síðastliðið haust segir Benný Sif Ísleifsdóttir okkur örlagasögu kvenna af þremur kynslóðum og þeirra nánasta fólks. Í sögumiðju er hárgreiðslukonan Rósa sem hefur ákveðið að umturna lífi sínu. Hún hefur selt hárgreiðslustofuna sína í Reykjavík og keypt sér hús í Mjóafirði og þangað flytur hún og setur á stofn lítið ferðaþjónustufyrirtæki. Húsið, Brekkufótur, tengist Rósu því þangað hafði föðuramma hennar, Katrín, ráðið sig sem ráðskonu sjö áratugum áður þegar hún var að flýja ofbeldissamband við barnsföður sinn. Í för með ömmu Katrínu voru börnin hennar tvö, Erla og Árni – sem síðar verður faðir Rósu. Sem ráðskona á Brekkufæti þurfti Katrín að sjá um heimilisstörf ásamt því að hugsa um jafnöldru sína, Lísu, og litlu tvíburana hennar, Þórönnu og Helenu, og annað heimilisfólk. Lísa er lömuð eftir slys og eiginmaður hennar, Erlingur, hlaupinn á brott því honum reyndist um megn að takast á við aðstæðurnar eftir slysið. Á Brekkufæti búa líka foreldrar Erlings, tengdaforeldrar Lísu – Helena eldri og Þorleifur – sem og mágur hennar Elliði.

Þessar persónur – og fleiri – eru kynntar til sögu í fyrstu köflum bókarinnar og lesandinn þarf að hafa sig allan við í byrjun til að átta sig á fólkinu og innbyrðis tengslum þess. En það kemur þó fljótt því Benný Sif er sterk á svellinu þegar kemur að persónusköpun og á það við hvort sem hún er að lýsa aðal- eða aukapersónum, fullorðnum eða börnum.

Þegar sagan hefst er Rósa komin yfir miðjan aldur og hefur komið upp börnunum sínum þremur, sem nú eiga sjálf börn. Hún var lengst af einstæð móðir og eina fyrirvinna heimilisins og er orðin þreytt á kröfum um barnapössun og aðra þjónustu, hún vill leyfa sér „að vera bara amma og ganga í takt við ömmu [sína] og hennar tíma“ (71), eins og hún útskýrir síðar. Þegar Rósa flytur í Mjóafjörð breytir hún bæjarnafninu úr Brekkufæti í Lísuhús og vill með því sýna lömuðu konunni sem dvaldi lengst af innan veggja hússins virðingu. Lísa lá mest allan daginn á bedda undir glugga í eldhúsinu og til að víkka sjóndeildarhring hennar var komið upp speglum utanhúss, sem gera henni kleift að sjá í allar áttir, innanhús sem utan, fyrir húshorn og út á fjörð. Með hjálp speglanna sér hún náttúruna í kring, fjöllin og sjóinn, auk þess sem speglarnir endurvarpa birtu inn í húsið.

 

Á flóum, djúpum og grunnum úti fyrir Mjóafirði, á víðlendum veiðimiða, er hafflöturinn eins og risastór spegill þegar dautt er í sjó og því allsendis óvíst að einn spegill á handriðshorni veki athygli þegar komið er í land. Og þar með ekki rauða húsið sem hann stendur við. Endurvarpsmáttur þessa spegils er samt mikill og skiptir sköpun fyrir ungu konuna sem ver deginum á bedda undir glugga á vesturhlið þessa húss, það styttir henni stundir að fylgjast með skipaumferð. Og það getur hún með hjálp spegilsins. En allt er háð samhenginu og þó að sjófarendur sjái ekki spegilinn og verði endurvarpsins ekki varir þá sér Lísa sjófarendur í speglinum og sólin sér Lísu í speglinum. (14)

 

Af þessum speglum dregur skáldsagan nafn sitt en speglar koma reyndar víða við í frásögninni og gegna margháttuðu hlutverki. Rósa hefur lengst af sjálf starfað í sínum eigin speglasal – hárgreiðslustofunni – en í Lísuhúsi ætlar hún að bjóða ferðamönnum að setja sig inn í aðstæður Lísu með því leggjast á bekkinn undir glugganum, til hvíldar og íhugunar, og á eftir geta þeir fengið sé kaffi og nýbakað brauð og kökur hjá Rósu. Ferðamennirnir heillast af hugmyndinni og eru forvitnir um örlög Lísu. Speglar eru hefðbundið sjálfsmyndartákn í bókmenntum og ýmsar slíkar vísanir má sjá í bókinni en einnig tákna þeir gátt á milli heima, bæði milli nútíðar og fortíðar og milli veruleika og handanheims. Hin margfalda sýn speglanna rímar við margfalda sýn sögukonunnar, sem sér tímana tvenna og lengra en nef hennar nær: „Það er þessi einkennilega gátt á milli heima, milli tíma, sem stendur [henni] opin“, eins og segir á einum stað (55). Á öðrum stað útskýrir Rósa:

 

Ég sé margt, mér er sýnt ýmislegt og í þau skipti sem ég hef upplýst lögregluna […] hef ég orðið að gagni, týnt fólk finnst. Sýnir mínar eru gagnlegar en þær eru aldrei til gleði, enginn hefur fundist á lífi. Það er alltaf um seinan og mér þykir það ekki aðeins mjög miður heldur er það mér einnig til stöðugrar áminningar um hve ég hef alltaf verið á skjön við samtíma minn og samferðarfólk. (54-55).

 

Þessi hæfileiki Rósu á eftir að koma við sögu við að upplýsa mannshvörf fortíðar en hér verður ekki farið nánar út í þá sálma.

Í Lísuhúsi leitast Rósa við að endurskapa fortíðina, hún játar snemma í bókinni að hún elski „períóður af öllu tagi“ (13) og segir einnig: „ég er almennt bara hrifnari af liðinni tíð en yfirstandandi, og nú held ég til fundar við gamalt þorp og gamla tíma. Ég hef verið kölluð til þess fundar“ (13).

Í frásögninni er stokkið í sífellu á milli nútíðar og fortíðarinnar þar sem líf fólksins á Brekkufæti er í brennidepli. Eins og nærri má geta eru þetta ólíkir tímar og það er í nútíðarköflunum sem alkunnur húmor höfundar nýtur sín. Börn Rósu koma í heimsókn í Mjóafjörðinn með maka sína og börn og eru stöðugt með sína eigin sjálfsmyndar-spegla á lofti: símana og samfélagsmiðlana og verður sá plagsiður höfundi tilefni til ýmissa kómískra og beittra athugasemda um samskipti kynslóða á okkar dögum.

Það margt á seyði í Speglahúsi Bennýjar Sifjar. Hinar mismunandi sögur sem fléttast saman í bókinni eru áhugaverðar og halda lesanda spenntum við efnið. Hér að framan hefur verið minnst á mannshvörf, tveir menn sem tengjast fortíðarsögunni hverfa og lausn þeirra mála með skyggnigáfu Rósu er kannski full einföld. Ég hefði viljið sjá höfund kafa betur niður í örlagasöguna sem tengist hvarfi mannanna, því þótt margt sé gefið í skyn og lesendum sé kannski engin vorkunn að draga sínar eigin ályktanir þá er þarna mikið efni sem hefði mátt dvelja meira við.

Það virkar dálítið undarlega á þennan lesanda að þegar ofangreind málalok eru útkljáð birtist allt í einu nýr og óvæntur söguþráður á nútíðarsviði bókarinnar – ekki síður örlagaþrunginn en fortíðarsagan. Hér verður ekki farið nánar út í hann en aðeins sagt að sú saga sem þarna er hafin undir lok Speglahússins hefði í raun verið efni í aðra bók eftir Benný Sif. Ég vænti þess þó að aðdáendur hennar njóti þess að lesa Speglahúsið – líkt og í fyrri bókum sínum tekst Benný Sif vel að lýsa persónum og tíðaranda og áherslan er hér – líkt og svo oft áður –  á samstöðu kvenna í blíðu og stríðu og samskipti þeirra við breyska karlmenn sem oft er lítt treystandi.

Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá á rás 1 í RUV, 25. mars 2025.

Tengt efni