Benný Sif Ísleifsdóttir
Benný Sif Ísleifsdóttir er fædd árið 1970 á Eskifirði og ólst þar upp.
Hún lauk meistaraprófi í þjóðfræði frá Háskóla Íslands, prófi í hagnýtri íslensku og tók að auki diplómanám í Youth and Community Studies frá Saint Martin´s College.
Benný Sif hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2018 fyrir fyrstu skáldsögu sína, Grímu. Nýræktarstyrkir eru veittir árlega til útgáfu á skáldverkum höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum og hvetja þá með því til frekari dáða á þeirri braut.
Í umsögn dómnefndar sagði: „Gríma er söguleg skáldsaga sem segir frá örlögum kvenna í íslensku sjávarþorpi um og eftir miðja tuttugustu öld. Sagan er grípandi, persónusköpun sterk og bygging verksins vel úthugsuð. Textinn er lifandi og skemmtilegur en um leið lýsir höfundur harmrænum atburðum af einstakri næmni. Frásagnargleði og væntumþykja fyrir viðfangsefninu einkenna þessa hrífandi skáldsögu.“ Sama ár sendi Benný frá sér barnabókina Jólasveinarannsóknina. Um þessa sterku innkomu á ritvöllinn segir Benný Sif í viðtali við Austurfrétt:
„Svona af því ég er nýr höfundur og komin á miðjan aldur varð ég bara að byrja með trukki og koma með tvær bækur í ár,“ segir Benný og hlær. „Ég hef alltaf ætlað mér að skrifa en var ekki komin á þann stað fyrr en núna. Ég á fimm börn og fjögur fyrstu eru fædd á tæpum sex árum þannig að það var nóg að gera á stóru heimili. Þegar þau fóru að stálpast eignaðist ég eitt í viðbót og fór svo í þjóðfræði í Háskóla Íslands þar sem ég tók bæði grunn- og meistaragráðu. Eftir það sá ég fyrir mér að fá vinnu við fagið en þegar það gekk brösulega ákvað ég að setjast niður og gera það sem mig hafði alltaf langað, þannig að stundum þarf eitthvað svoleiðis til þess að maður hundskist í verkið!“
Skáldsagan Hansdætur, sem kom út 2020, sló rækilega í gegn. Þar er sögð saga Gratíönu, ákveðinnar og sjálfstæðrar stúlku í íslensku sjávarþorpi á fyrri hluta tuttugustu aldar. Sagan er bæði feminísk og fyndin, skrifuð af miklu fjöri og innsæi í sögu kvenna. Aðdáendur bókarinnar bíða spenntir eftir framhaldinu, sem kemur út nú á haustdögum 2022.
2021 sendi Benný Sif frá sér skáldsöguna Djúpið, þar sem hún rýnir í samskipti kynjanna á kvennaárinu 1975.
Benný Sif býr í Kópavogi ásamt eiginmanni sínum. Hún á fimm börn.
Mynd: Bókabeitan
Ritaskrá
- 2023 Einstakt jólatré
- 2022 Gratíana
- 2021 Djúpið
- 2020 Hansdætur
- 2019 Álfarannsóknin
- 2018 Gríma
- 2018 Jólasveinarannsóknin
Verðlaun og viðurkenningar
- 2020 Íslensku hljóðbókaverðlaunin fyrir Grímu
- 2018 Nýræktarstyrkur fyrir Grímu
Tilnefningar
- 2021 Til Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins fyrir Hansdætur
Heimasíða
https://www.facebook.com/Benny.Sif.Isleifsdottir