SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 7. apríl 2025

BOÐIÐ UPP Í DANS - Um Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur

Birgitta Björg Guðmarsdóttir, Moldin heit, drápa, 2024


Moldin heit
er annað verk Birgittu Björgu Guðmarsdóttur en hún sendi frá sér skáldsöguna Skotheld árið 2018. Moldin heit hefur aldeilis hlotið góðar viðtökur því hún fékk nýræktarstyrk, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hreppti Fjöruverðlaunin.

Birgitta Björg er fædd árið 1988. Hún er með B.A. gráðu í íslenskum fræðum og M.A. gráðu í ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt ýmiss konar textagerð; auk þess að skrifa skáldsögur hefur hún fengist við ljóðagerð, þýðingar og smíði sönglagatexta. Þá er vert að geta þess að Birgitta Björg hefur lært dans en hann kemur mjög við sögu í nýju skáldsögu hennar. 

Moldin heit er meistaraverkefni Birgittu Bjargar í ritlist og var leiðbeinandi hennar Bergþóra Snæbjörnsdóttir. Verkefnið er lokað í þrjátíu ár, til ársins 2054, en lesa má útdrátt verksins með orðum rithöfundarins: 

 

Moldin heit fjallar um dans, um líkamann, um sorg og um sköpun. Skáldsagan segir frá þremur einstaklingum sem öll stunda sköpun á einhvern hátt og standa í sorgarferli. Karen er dansari sem hefur nýlokið við eitt stærsta hlutverk ferils síns, en ýmislegt misjafnt gerðist á meðan æfingarferlinu stóð sem gerir það að verkum að hún er hvíldarþurfi. Hún leggur í ferð til vinkonu sinnar, Esju, sem hefur flúið borgina vegna erfðadeila en hittir fyrir á leiðinni kollega sinn, Ými, sem hún hefur ekki séð síðan verkinu lauk, illa fyrir kallaðan á brú í bæjarfélagi sem hvorugt þeirra býr í.

 

Sagan er 213 blaðsíður að lengd og er talsvert lagt upp úr byggingu og stíl. Bókinni er skipt upp í fimm hluta sem hver um sig er byggður upp af stuttum köflum. Á undan hverjum hluta er sleginn ljóðrænn og nokkuð óræður tónn í rauðlituðu letri og sömuleiðis eru kaflaheitin lituð rauðu. Textinn er einnig brotinn upp víða, einkum í samtölum persóna þar sem hann hreinlega dansar um síðuna, ýmist hægri- eða vinstristillur, eftir því hvor persónan er að tala. Það fer sérstaklega vel á því í ljósi þess að aðalpersónan, Karen, er dansari. Samtöl persóna eru sannfærandi, og geyma t.d. hikorð, án þess þó að verða of hversdagsleg eða óspennandi. Þá má einnig finna uppbrot á texta þar sem hann er settur upp sem ljóð og ber mörg merki þess. Textinn er þó víðar myndríkur og hversdagslegar senur eru gjarnan sveipaðar ljóðrænu, líkt og þegar Karen fylgist með húsflugu í herberginu:

 

Ég fylgi henni eftir með augunum, flýg með henni um rýmið þar sem hún tekur sér tilhlaup í loftinu og spyrnir frá sér af öllu afli. Hreyfir bláolíuglæra vængina og þrýstir frá sér loftinu. Hún skellur á glerinu og hrynur niður á sylluna, liggur þar rotuð í örskamma stund innan um dauðar húsflugur og flagnaða málningu, en veltir sér af bakinu yfir á fæturna, tekst á loft og er síðan horfin út um opna gættina. (bls. 110)

 

Húsflugan dansar um rýmið og ekki áfallalaust, ekki frekar en Karen sem æfir fyrir afar krefjandi dansatriði sem kostar hana blóð, svita og tár, bókstaflega. Dansinn er afar fyrirferðamikill í sögunni, bæði í efni og stíl, og liggur rytminn eins og rauður þráður í gegnum bókina alla svo að segja má að höfundur bjóði lesandanum upp í dans. Það fer afar vel á því.

Sagan bæði byrjar og endar með jarðarför og er dauðinn sínálægur. Sagan hefst á því að Karen fylgir ástmanni sínum til grafar og í erfidrykkjunni fylgist hún með manni sem tvístígur á brú ,,líkt og milli tveggja heima - óviss um það hvorum hann tilheyrir." (bls. 23) Í kjölfarið hefst ferðalag frá einni jarðarför til annarrar og við fáum að kynnast persónum betur í gegnum samskipti þeirra og endurlit alviturs höfundar. Líf og dauði takast á, söguna á enda, og myndgerast með ýmsum hætti; hlutgerast í myndatökum ljósmyndarans sem fangar og frystir dansarann á filmu og persónugerast í tilfinningaríkum dansinum.

Þá er víða vísað í moldina sem hefur ratað í titil bókar. Auðvelt er að tengja mold við dauðann en heit moldin kann jafnframt að vera óður til lífsins, enda getur hvorugt verið án hins. Fleiri tákn og þemu má finna í sögunni og í raun er býsna mikið undir í ekki lengri sögu. Því er ekki óeðlilegt að finna megi smá hnökra í frásögninni, þar sem hefði mátt staldra aðeins lengur við og skerpa betur á. Það hefði t.d. mátt koma skýrar fram hvað það er í fari Karenar sem veldur snöggum umskiptum gestsins (bls. 44) og hvaða flötur það er sem kærasti Ýmis málar. (bls. 51) Þetta eru þó smáatriði í annars frumlega byggðri og vel skrifaðri sögu sem vekur oft til umhugsunar. Til dæmis má finna þar afar skemmtilega hugleiðingu um orðið ,,sjáumst" og fer vel á að enda þessa stuttu umfjöllun um vel heppnaða bók á tilvitnun þar um:

 

Sjáumst. Hversu einstakt orð. Hve einstakt að geta svarað fyrir bæði sig og einhvern annan. Mig og þig. Við munum sjást. Að geta gefið slíkt loforð. Ég sé þig seinna. Þú sérð mig seinna. Þangað til næst. Uns við sjáumst aftur. Eins konar loforð um sameiningu. Ákall. Sjáumst. Heyrumst. Kyssumst. Förumst. (bls. 62)