BEÐIÐ VAR MEÐ BRÚÐKAUPSNÓTTINA ÞAR TIL LUCREZIA HAFÐI Á KLÆÐUM
Þann 3. júlí árið 1558 var 13 ára ítölsk stúlka, Lucrezia di Cosimo de' Medici (1545-1561), gefin hinum 24 ára gamla Alfonso d'Este (1533-1597). Það þótti ekkert óvenjulegt í þá daga. Tengdamóðir Alfonso bað hann þó um að bíða með brúðkaupsnóttina þar til Lucrezia hefði á klæðum. Úr varð að Lucrezia bjó áfram í foreldrahúsum, við hálfgerða einangrun í um tvö ár þar til Lorenzo sótti hana. Á nýja heimilinu hélt einangrunin þó áfram því Lucrezia var nær öllum stundum inni í herbergi sínu.
Írski rithöfundurinn Maggie O‘Farrel byggir sögulega skáldsögu sína á ævi Lucreziu. Titill hennar, Brúðarmyndin, vísar til málverks af Lucreziu, sem sjá má hér hér fyrir neðani. Ljóð Roberts Browning My Last Duchess (1842) ku vera kveikjan að verkinu en þar lýsir Browning vafasömum hugsunum hertogans um málverkið af Lucreziu sem þá er öll.
Brúðarmyndin kom út á frummálinu, The Marriage Portrait, árið 2022 og síðan árið 2024 í íslenskri þýðingu Sunnu Dísar Másdóttur. Sagan er nú einnig aðgengileg hjá Storytel í afar vönduðum upplestri Önnu Bergljótar Thorarensen. Maggie O‘Farrel hefur sent frá sér fleiri verk fyrir bæði fullorðna og börn og fengið lof fyrir en þetta er fyrsta verkið hennar sem hefur verið þýtt yfir á íslensku.
Brúðarmyndin er heilmikið verk, 461 blaðsíða að lengd. Lucrezia segir okkur söguna en lesandi fær einnig að gægjast inn í huga annarra persóna. O‘Farrel fylgir staðreyndum um ævi Lucreziu eftir í grófum dráttum en tekur sér einnig rúmt skáldskaparleyfi þar sem við á. Við fáum fyllri mynd af ungu stúlkunni sem er tilneydd að ganga í hjónaband þar sem hennar eina hlutverk er að tryggja að hertoginn eignist erfingja. Þrátt fyrir að vera hertogaynja með öllum þeim vellystingum sem því fylgir er líf Lucreziu enginn dans á rósum. Hún þarf að leyna líðan sinni og löngunum en lesanda er gert auðvelt að setja sig í spor hennar og finna til með henni.
Í sögunni eru oft dregnar upp býsna áhrifamiklar myndir af stöðu Lucreziu, og konum almennt, en stundum eru þær full dramatískar og missa þá dálítið marks. Þá er sagan helst til langdregin og hefði mátt draga aðeins úr málalengingum og misjafnlega vel smíðuðu líkingamálinu. Eftir stendur þó að margt er vel gert og það er áhugavert að kynnast sögulegum kvenkynspersónum með þessum hætti, því þær hafa jú oftar en ekki hvílt í skugga eiginmannanna. Vonandi verða fleiri verk þýdd eftir Maggie O‘Farrel.