ÁST OG ELDGÖMUL LEYNDARMÁL - Um Eyjar
Eyjar heitir önnur skáldsaga Gróu Finnsdóttur (f. 1951). Gróa samdi ljóð og sögur áður en hún sendi frá sér bók og hafði þá lokið störfum á vinnumarkaðnum. Sum ljóða hennar hafa birst í blöðum, ss. í Tímariti Máls og menningar og Bókasafninu. Þá átti hún tvær smásögur í bókinni Jólasögur sem kom út árið 2015. Gróa hefur einnig skrifað fjölda greina, einkum um bókasafnsmál. Fyrsta skáldsaga Gróu, Hylurinn, kom út árið 2021 og fékk góðar viðtökur.
Bókin Eyjar hverfist um togstreitu í fjölskyldu á bóndabæ þar sem Malla er einbirni. Móðirin Katrín er hippi, ástríðukokkur og grænmetisræktandi; hlý og opin manneskja; en pabbinn er dulur og bældur. Þau eru eins og tvær eyðieyjur (98). Eitthvað varð til þess að Malla fór að heiman fyrir mörgum árum og býr nú í borginni. Hún hefur fjarlægst foreldra sína og ekki er vert að ljóstra upp hvers vegna til að spilla ekki fyrir lesendum. En hún flýr úr ofbeldissambandi í sveitasæluna og þarf að endurskoða allt líf sitt.
Ekki er annað hægt en að heillast af sumum sögupersónanna, ekki síst Katrínu sem hlúir að öllu, og fögru umhverfi Breiðafjarðar. Malla er brotin og búin á því þegar hún snýr aftur til heimahaganna og þarf að horfast í augu við bresti sína, langrækni og dómhörku. Guðmundur á næsta bæ er hugstæður, einskonar afatýpa og jesúgervingur; boðberi þess að eldri kynslóðir búa yfir yfirvegun og visku sem þarf að berast sem víðast. Pabbinn Lárus á alla samúð skilið, hann reynir að gera sitt besta en stundum er það bara ekki nóg. Og öll eiga þau sín eldgömlu leyndarmál sem sagan hverfist um.
Þær mæðgur eru sögumaður til skiptis og lýsa stundum sömu atburðum hvor frá sínu sjónarhorni. Þær eru afar ólíkar svo þetta er skemmtileg aðferð sem gengur ágætlega upp. Það getur tekið á að fullorðnast og Malla fær sannarlega að reyna það á eigin skinni. Ástin kemur auðvitað við sögu og er mikilvægt hreyfiafl í framvindunni. Einkunnarorð bókarinnar koma m.a. frá Milan Kundera: Ástin er leit okkar að týnda hlutanum af okkur sjálfum.
Sjálf segir Gróa um bókina:
„Ég reyni að sýna fram á hvað það getur reynst alvarlegur hlutur að geta ekki rætt út um hlutina, gert upp sín mál og haldið áfram að lifa góðu lífi í stað þess að eyðileggja líf sitt og annarra í einhverri fáránlegri þráhyggju og kannski hroka án þess að geta fyrirgefið. Það mætti jafnvel setja það í stærra samhengi og heimfæra upp á heimsku þeirra sem heyja óskiljanleg stríð úti í hinum stóra heimi. En sjálfri finnst mér þetta vera fyrst og fremst hugljúf ástarsaga sem kannski einhverjir þekkja sig í“ (viðtal í Skessuhorni).
Eyjar fljóta vel á lygnum sjó og eru fínasta afþreying á rigningardögum þrátt fyrir undarlegan misskilning í restina. Fram kemur í sögunni að Katrín lumar á handriti um blóðheitar Baska-formæður sínar, kannski verður það efni þriðju bókar Gróu?