SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir27. ágúst 2025

TÓK SEX ÁR AÐ KLÁRA - Um Byl

Íris Ösp Ingjaldsdóttir sendi frá sér sína fyrstu bók, Röskun, árið 2019 sem hlaut afar góðar viðtökur. Sag­an fjall­ar um Heru, rúm­lega þrítug­an lög­fræðing sem er að byggja upp líf sitt eft­ir nauðgun og er ný­flutt í íbúð í góðu hverfi, og um Stellu sem bjó í íbúðinni áður. Hera glím­ir við andleg veikindi í kjöl­far áfalls­ins sem stig­magn­ast dag frá degi þar til hún veit ekki lengur hvort um er að ræða ímynd­un um ger­and­ann sem aldrei fannst eða hvort hún sé ásótt af afturgöngu Stellu sem myrt var í íbúðinni tveim­ur árum fyrr. Hefur Íris Ösp nú selt kvikmyndaréttinn að þessari spennuþrungnu bók svo búast má við trylli á hvíta tjaldið innan skamms. Ljóst er að ný rödd hefur bæst við í íslenska glæpasagnakórinn og er tekið fagnandi.

Nú er komin ný bók og ekki síðri frá hendi Írisar Aspar og ber hún heitið Bylurinn. Sagan gerist í fortíð og nútíð og sjónarhornið skiptist á milli þriggja persóna.  Bergur er hamingjusamur fjölskyldufaðir með allt á tæru þar til sonur hans deyr, þá bankar fortíðin uppá og hefndarfýsn hans beinist að Öldu og Styrmi, unglingssyni hennar sem hann grunar að hafi valdið dauða sonarins.  Þau mæðginin eru afar ólík og lýsa atburðum hvort með sínu nefi. Persónusköpunin er afar vel heppnuð, m.a.s. aukapersónan Gunni verður ljóslifandi. Alda er skemmtileg persóna, hún er enginn fyrirmyndaruppalandi, kjaftfor og svífst einskis. Hún hvetur son sinn til þess að eyða sparifé sínu og hætta að hugsa um framtíðina (81). Styrmir er trúverðugt unglingstetur sem er mun þroskaðri en mamma hans. Bergur verður sífellt örvæntingarfyllri, geðveikin magnast, tryllingurinn er sérlega vel uppbyggður og endar auðvitað með ósköpum. Íris Ösp hefur gott vald á þessu öllu, sem og máli og stíl,  og smiðshöggið er vel heppnaður endir á vel heppnaðri bók.

Áður hafði Íris Ösp aðallega skrifað smásögur og hún sótti á sínum tíma námskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni og Björgu Árnadóttur og lærði einnig leikritun hjá Hlín Agnarsdóttur (Vísir, 21. maí 2019).

Íris Ösp er fædd og upp­al­in í Reykja­vík, nán­ar til­tekið Breiðholti. Í viðtali við Morgunblaðið 1. ágúst 2025 segir hún m.a.:

„Ég byrjaði að skrifa þegar ég var krakki. Ég byrjaði á sendi­bréf­um, smá­sög­um og ljóðum, en svo kom langt hlé þar sem ég sinnti þessu lítið. Bolt­inn fór svo að rúlla á ný þegar ég var í fæðing­ar­or­lofi með yngsta barnið mitt, þá fór ég á rit­list­ar­nám­skeið, byrjaði að skrifa lengri sög­ur og skrifaði loks fyrstu skáld­sög­una mína.“

Fram kemur í viðtalinu að það tók Írisi Ösp sex ár að klára Byl en hún greindist með erfiða sjúkdóma. 

„Ég byrjaði fljót­lega að vinna í Byl eft­ir að Rösk­un kom út, áður en ég veikt­ist. Ég vann að bók­inni hægt og bít­andi, var alltaf að gera bara smá og smá í einu og lagði hand­ritið svo frá mér í marga mánuði í einu. En það gerði mér að gott að hafa eitt­hvað í poka­horn­inu sem hafði fram­vindu.“

Íris Ösp hefur sagt opinberlega frá veikindum sínum en rit­ferlið hefur verið ljós í myrkr­inu í glímunni við þau (meira um það hér).

 

 

 

Tengt efni