SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 8. september 2025

VIÐ MANNFÓLKIÐ ERUM LÍK SOKKUM

Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir. 2025. Yndishrúga. Sæmundur. 

 

Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir sendi frá sér ljóðabókina Yndishrúga síðastliðið vor. Steinunn er sellóleikari, tónskáld og ljóðskáld og er þessi ljóðabók hennar fimmta verk. 

Yndishrúga er 66 blaðsíður og geymir 46 ljóð sem er skipt upp í fimm hluta. Sá fyrsti markar eins konar upphaf og geymir m.a. skemmtilega vísun til formóðurinnar í ljóðinu „Uggur konu." Þar segir frá því að ljóðmælandi er svo skotin í manni að hún er hrædd um að lyppast niður og breyta sér í rifbein (bls. 10).  

Í næstu hlutum bókar virðist ljóðmælandi eldri en hún lætur þó hvorki tíma né rúm njörva sig niður. Ljóðin eru í senn einföld og ljóðræn og minna um sumt á ljóð skáldkvennanna Vilborgu Dagbjartsdóttur og Kristínu Ómarsdóttur en Steinunn minnist þeirra beggja í ljóðum sínum. 

Steinunn dregur víða upp hugvitssamlegar myndir, líkt og sjá má í þessu fallega ljóði:

 

MENNSKT HAUSTLAUF
 
Mennskt haustlauf
í karrýúlpu
sjö ára gömul
 
Hvert fór hún?
 
Þyrlaðist burt 
á hlaupahjóli
 
Vaðlaheiði lýsir
í brúnni dýrð.
Röndótt lambhúshetta skín
í hugskoti mínu.
 
(bls. 15)

 

Ljóðin eru af ýmsum toga en ástin gengur eins og rauður þráður í gegnum bókina alla og þá ekki síður allar þær tilfinningar sem gera vart við sig þegar hennar nýtur ekki lengur við. Sums staðar er hvergi skafið utan af því, líkt og í eftirfarandi ljóði en þar er jafnframt grunnt á ískaldri meinhæðni og hnyttni sem rúmar enga væmni eða óþarfa dramatík. Ljóðið er áhrifaríkara en ella fyrir vikið:        

 
ATHUGUN
 
Fyrir fimm árum
gaf ég út á bók
ástarljóð
meðal annarra ljóða.
 
Þar með talið 
reyndar
eitt fegursta ástarljóð
sem ort hefur verið
á íslenska tungu
held ég.
 
Fjórum vikum síðar
sagði maðurinn minn,
sá sem ljóðin voru ort til:
 
Ég elska þig ekki lengur,
mig langar ekki lengur að sofa hjá þér
og mig langar ekki lengur að lifa lífinu með þér.
 
Núna er ég svona
á báðum áttum
um hvort ég eigi að birta
einhver ástarljóð
í þessari hérna bók.
 
(bls. 22-23)
 
 
Titill bókar, Yndishrúga, er trúlega sótt í ljóð, sem ber ekki titil, en þar er því lýst hvernig ljóðið flæðir yfir ljóðmælanda líkt og kærkominn vorfögnuður:
 
 
ÁN TITILS
 
Grænt
flóð
 
Lífið hrúgar yfir mig
yndi
 
Grænt flóð bragar
 
(bls. 38)
 
 
Það fer vel á að enda þessa stuttu umfjöllun með stuttu ljóði sem þrátt fyrir smæðina geymir svo skemmtilega lýsandi og kjarnyrta mynd af samböndum fólks sem sum greinast í sundur, er á reynir, líkt og sokkar sem eiga það til að hverfa með einhverjum dularfullum hætti í þvottinum:
 
 
PÖR
 
Við mannfólkið
erum lík sokkum. 
 
(bls. 50)