SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 4. nóvember 2025

DRAUGAMANDARÍNUR

Út er komin ljóðabók Birgittu Björgu Guðmarsdóttur. Bókin heitir ,,Draugamandarínur" og er fyrsta ljóðabók höfundar en áður gaf hún út skáldsöguna ,,Moldin heit". Bók sem fékk mjög góða dóma og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna í fyrra.

Draugamandarínur eru vel útfærð ljóðabók sem fjallar á skemmtilegan máta um þá litlu athöfn að flysja utan af mandarínum. Í smáatriðum fer Birgitta með okkur í lítið ferðalag sem breytist fljótt í stigskipta skynjun þar sem lesandinn er leiddur áfram í gegnum snertingu ávaxtarins og neglur að klóra rifu á yfirborðið. Fingurinn borar sig inn í kjötið þar sem safinn tekur að leka niður hendina og inn í ermina og um leið flæðir munnvatn um allt, lykt sem blossar upp og vekur upp minningar um sársauka. Hið hversdagslega eins og það að fá sér bita af mandarínu breytist í líkamlega lestrarnálgun, að einhverju óþekktu, framandlegu og merkingin verður önnur og hugræn.

 

þú stingur nöglinni

á kaf, klórar

mjúkan börkinn, skefur

þar til þú finnur

rúskinn, hvítt, krafsar

og rifan stækkar, svo

setur þú fingur innfyrir

og togar, fingurgómur mætir

þrýsnum bita, þreifar -

fyrir innan þétthlaðið aldin.

 

þú flettir ávextinum sundur

eins og blaðsíðu í bók, réttir mér

helming, hérna, safi

lekur hægt niður

vísifingur, ofaní mjúka

fituna og inní ermi

ég fæ mér tvö stykki

og rétti þér bitann aftur.

 

Ljóðabókin um draugamandarínuna leggur upp í óvænta ferð – ekki um ávöxtinn sjálfan, heldur um skynjun okkar og merkingarsköpun. Ljóðmælandinn byrjar á yfirborðinu, við fingurgóma og bragðlauka og fikrar sig smám saman inn að kjarna ávaxtarins/málsins. Það er heillandi og á köflum næstum líkamleg upplifun; lesandinn finnur ilminn, súrleikann og hljóðið þegar hýðið gefur sig. Svo hættum við að hlusta/lesa eða hvað, draugar fortíðar gera vart við sig.

 

lyktin gýs upp

hiti úr sári

leitar á vitin

sæt og ágeng, vekur strax

minningar, klígju, munnvatn.

 

En skáldið lætur það ekki duga. Þegar röntgentækið birtist og blaðsíðurnar verða svartar tekur textinn skref frá hinu líkamlega yfir í framandgerða sýn: Mandarínan er ekki lengur ávöxtur heldur fyrirbæri sem þarf að skoða innan frá. Þessi sjónræna tilraun bókarinnar er áhrifarík.

Í lokin, þegar skáldið leggur eyrað að ávextinum og „heyrir fræið vaxa“, færumst við nær hugrænum ljóðaheimi. Hún hvetur lesandann til að hlusta eftir því sem er venjulega þögult, og minnir á að merking verður til ekki bara í orðunum heldur í skynjuninni sjálfri. Bókin spyr ekki bara um mandarínuna heldur hvernig við upplifum frásögnina— og hvað vaknar í vitund okkur við lesturinn?

 

ég get ekki annað gert

en kastað mandarínum

yfir til þín, vona að þú fáir augnabliks-

frið,

getir lagt eyrað

upp að hýðinu og hlustað, kannski heyrir þú

fræið fyrir innan.

 

Í samtímaljóðlist nýtir hugræn bókmenntagreining reynslu lesandans sem lykil að merkingu. Ljóðin leita ekki endilega að skýrum boðskap, heldur vekja þau skynjun, minni og ímyndunarafl til lífs. Lesandinn verður virkur þátttakandi: Bragð, lykt, hljóð og sjón birtast sem kveikjur til hugrænna ferla. Þetta er sérstaklega áberandi í nýju ljóðabókinni um mandarínuna, þar sem skynfæri og ímyndun blandast saman til að kalla fram merkingu á óhefðbundinn hátt.

Í þessum skilningi er bókin hluti af þróun samtímaljóðlistar þar sem formið sjálft, efnið og skynjunin mynda þrívíða upplifun: Texti, líkami og hugur verða óaðskiljanleg heild.

Á heildina litið er myndlíkingin skemmtileg nálgun ljóðmælandans og þá tekst bókin á heildina litið að gera það sem góð ljóð geta gert: að endurvekja hversdagslega athöfn og bjóða okkur að skynja heiminn á ný. 

Kveðja

Magnea

https://skald.is/skaldatal/379-birgitta-bjorg-gudmarsdottir