SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir15. janúar 2026

SVARTALOGN OG SÁTT VESTUR Á FJÖRÐUM

Harpa Árnadóttir. Skuggafall og leiðin til ljóssins. Höfundur 2025.

 

Harpa Árnadóttir er þekktur myndlistarmaður en í janúar 2025 gaf hún út, í tilefni af sextugsafmæli sínu, ljóðabókina Skuggafall og leiðin til ljóssins. En bókin hefur ekki bara að geyma ljóð Hörpu heldur einnig myndir af nokkrum myndlistarverkum hennar. Myndirnar eru þrettán talsins, unnar með fjölbreyttri tækni, allt frá litlum blýantsteikningum til stórra olíumálverka. Mikil prýði er af myndunum sem fleyga reglulega ljóðtextana og greinlega er ekki tilviljun hvernig þeim er raðað því oft má sjá tengingar á milli texta og myndar. Til dæmis má nefna fyrstu opnu bókarinnar þar sem lesa má á hægri síðu ljóðið „Öskufall“, sem birtir ýmsar hugleiðingar ljóðmælandans um ösku, en á vinstri síðu er myndlistarverk, unnið með hafkalki og vatnslitum í gráum tónum. Verkið heitir „Og alla vegu mína gjörþekkir þú“, sem er tilvitnun í Davíðssálm nr. 139 og jafnframt sú áletrun sem ljóðmælandi vill láta standa á öskukeri sínu:

 

 

 

 

Öskufall
 
Baða mig í ösku
það er svo gott
að finna hana
strjúkast við
lærið á
leiðinni til botns
 
[...]
Seinna mun
ég sjálf
orðin að ösku
hvíla í
kirkjugarðinum
fyrir vestan
milli hárra fjalla
við lygnan fjörð
í svartalogni
í gröf ömmu og afa.
 
Mikið verður það gott.
 
Á mínu öskukeri
mun standa
skrifað með blýanti
 
Og alla vegu mína
gjörþekkir þú. (7)

 

Væntumþykjan sem hér kemur fram til fæðingarstaðs – og núverandi heimkynna – Hörpu, vestur á fjörðum, nánar tiltekið Bíldudals við Arnarfjörð, er gegnumgangandi þema í bókinni. „Sælir eru sólardagar / í Arnarfirði að vori“, segir í ljóðinu „Lífsins tré“ (29) og í öðru ljóði sem hefur yfirskriftina „Leiðin til ljóssins“ heyrir ljóðmælandinn „hlýjuna streyma / inn til míns hjarta“ og heyrir „lágværan sólarsönginn / í eilífum moll, / taka sér bólfestu, / byltast í hjartahólfum, / streyma um himnur, / lýsa mig upp / eins og að innan / og vaxa í skjóli / í lognværum firði / milli hárra fjalla / fyrir vestan / fyrir vestan“ (31). Þessi sátt við lífið fyrir vestan er kjarnað í ljóði framar í bókinni sem heitir einfaldlega „Hér á ég heima“:

 

Hjartslátturinn í
Tilfinningatakti
við tilveruna
á litlum stað
við djúpan fjörð.
 
Hér á ég heima. (9)

 

Í kynningartexta um höfund aftast í bókinni kemur fram að Harpa er fædd á Bíldudal, ólst upp á Snæfellsnesi og stundaði nám í Reykjavík og síðar í Svíþjóð. Öll heimkynni Hörpu á Íslandi koma við sögu í ljóðum bókarinnar. Auk þeirra sem þegar hafa verið nefnd og tengjast Vestfjörðunum má nefna magnað ljóð sem heitir „Tregi“ og hefst svona:

 

Vestfirðir eru
tregafullar skálar
fylltar tárum eftirlifenda
sem horfa á eftir
ástvinum sínum
í djúpin“ (8).  

 

Í lokalínum ljóðsins veltir ljóðmælandi fyrir sér hvort til sé genetískt minni og telur það líklegt. Reykjavík er sögusvið ljóðanna „Einmana bílastæði“ (12) og „Borg“ (13) og í þeim báðum tekst skáldinu að draga upp magnaðar myndir þar sem ytra umhverfi hverfist í lýsingu á því sem bærist innra með ljóðmælanda. Í ljóðinu „Faðir minn“ (10-11) er sviðið sveitakirkja á Snæfellsnesi og „Jökullinn vakandi yfir / eins og eilífðin sjálf“. Síðastnefnda ljóðið er minningarljóð um föður Hörpu, Árna Berg Sigurbjörnsson, sem var prestur á Snæfellsnesi og kenndi henni hennar „stærstu lexíu: / Samband þitt við Guð / er þitt og innra með þér“ og, eins og segir síðar í sama ljóði: „Að skynja hið heilaga / í kyrrðinni / - og stundinni, sem maður á / með sjálfum sér / - mitt í öllu hinu“ (11). Síðar í bókinni er annað ljóð þar sem ljóðmælandinn situr við dánarbeð föður síns, sem lést fyrir aldur fram árið 2006, og er bókin tileinkuð minningu hans.

Vert er að taka fram að vorið 2024 hélt Harpa einkasýningu í Listval Gallery á myndlistarverkum með sömu yfirskrift og bókin: Skuggafall og leiðin til ljóssins. Í kynningartexta sýningarinnar segir að „grunnur margra verka hennar [sé] hugmyndin um að líta megi á málverk sem sjónræna ljóðlist“ (sjá: listval.is). Þessum orðum mætti einnig snúa við og segja að ljóð Hörpu séu myndlist í orðum. Myndræn sýn hennar er mjög sterk og sömuleiðis litaskynjun og mikil áhersla er á liti, birtu og birtubrigði í mörgum ljóðanna. Víða bregður hún upp sterkum ljóðmyndum, eins og þegar hún lýsir haustlitunum sem eru eins og „hægeldað síðsumar“ (15) og þegar hún vill „fæða birtuna fram, / faðma birtuna, / taka birtuna í fangið, / fá birtuna bleikhvítljósbláa / í fangið. / Inn um sjáöldur mín, / inn í mig alla“ (25). Litagleðin blossar ekki síst upp í ljóðinu „Perlan“:

 

 

Perlan
 
Hugsa um litbrigði bláskelja.
Undurfagra perlubleikliti
í grænbleikblágráfjólublá
bleikhvítgrænhvítgráu.    (49)

 

 

 

 

Ljóðið fjallar líka um sársaukann, núning skeljarinnar við sandkornið sem í fyllingu tímans verður að perlu. Sársauki kemur einnig fram í fleiri ljóðum, andlegur sem og líkamlegur, líkt og í þremur ljóðum sem spretta upp af rifbroti ljóðmælanda („Sumt talar maður ekki um“ (36), „Rif“ (38) og „Rifbeinin mín“ (39)). Sársauki, söknuður, tregi eru ívaf í ljóðum Hörpu en uppistaðan er sátt og innri friður sem næst með djúpri náttúruskynjun og lífi i fögrum firði, milli hárra fjalla, fyrir vestan.

 

Soffía Auður Birgisdóttir

Ritdómurinn birtist fyrst í SÓN, tímariti um ljóðlist og óðfræði 2025
(Hér fá ljóðtextarnir meira rými, myndir eru fengnar af facebooksíðu Hörpu.)

Tengt efni