SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 2. apríl 2018

SANNAR SÖGUR? Lygasaga

Linda Vilhjálmsdóttir. Lygasaga. Reykjavík: Forlagið 2003

„Sú mynd sem ég sneri að heiminum í rúmlega fjóra áratugi var svo margfölsuð að ég mátti skrapa af henni ótal lög af málningu, fitu og sóti áður en grillti í daufar útlínur óhreinu stelpunnar sem ég var alltaf að fela. Eftir vandlega hreinsun kom í ljós að frummyndin var svo óskýr að það var eins og hún væri að hluta til ómáluð. Ef vel var að gáð mátti sjá glitta í flóttalegt augnaráð þeirrar öryggislausu og eigingjörnu manneskju sem ég í rauninni er þegar óttinn fær að vaxa eins og illgresi í huga mér“ (67) segir ljóðskáldið Linda Vilhjálmsdóttir í Lygasögu sem út kom 2003.

Lygasaga er fyrsta prósabók Lindu; „sönn saga um lygi“ eins og segir á afar ljótri bókarkápu sem á klisjulegu táknmáli sýnir svartan blett á tungu. Í sögunni skiptast á mislangir kaflar um vanlíðan, kvíða og einsemd sögumanns í bernsku og sleitulausan drykkjuskap á fullorðinsárum sem hvorttveggja tengist brotakenndri sjálfsmynd og sjúklegri þráhyggju. Linda er bersögul og ósérhlífin þegar hún lýsir þeim blekkingarvef sem hún var flækt í um áratuga skeið; réttlætingunni fyrir ofdrykkjunni og ofbeldinu sem hún beitti sína nánustu og sjálfa sig. Slíkt miskunnarleysi er ekki algengt í íslenskum sjálfsævisögum og reyndar óvíst hvort flokka á Lygasögu Lindu sem slíka. Bók af þessu tagi, sem lýsir löngu ferli frá algjörri niðurlægingu til upprisu úr öskustó, gæti vakið vonir hneykslisþyrstra lesenda um spennandi fylleríissögur af fólki sem veltist um í svaðinu. En Lygasaga er ekki þannig bók, hún er nærgöngul við sögumann en hlífir lesandanum við smáatriðum.

Ljóst er að Linda hefur farið í gegnum gríðarlega sjálfsskoðun og sett lífshlaup sitt í nýtt samhengi. Afhjúpunin er algjör. Myndin sem hún dregur upp af sjálfri sér sem barni og unglingi er vægðarlaus og fráhrindandi; hún er löt, kjaftfor og meinfýsin ókind sem í botnlausu óöryggi reynir að fóta sig í hörðum heimi og er ekki vönd að meðulum. Sem útivinnandi sambýliskona er hún jafnömurleg, föst í alkóhólistamynstri sem einkennist af ásökunum, sektarkennd og refsingum, og þjökuð af sjúklegri drottnunargirni og afbrýðisemi. Eftir áratuga ofdrykkju er blekkingarhjúpurinn loksins rofinn og blákaldur raunveruleikinn blasir við; það sem í fylleríisruglinu leit út eins og hógværð var í rauninni veiklyndi, töffaraskapurinn breiddi yfir vanmáttinn, lífið var lygi.

Í textanum svífur kaldhæðnin yfir vötnum en hún beinist öll að Lindu sjálfri, ásamt grimmd og sársauka. Niðurbroti hennar í drykkjuskapnum er lýst með niðurrifi sjálfs- og heimsmyndar, í rústum lyganna leynist hið sanna sem erfitt er að horfast í augu við en það er gert af óvenjulegu hugrekki í þessari bók. Stíll sögunnar hæfir efninu vel, hraður og talmálslegur og skemmtilegur aflestrar. Byggingin er hins vegar veiki hlekkur hennar. Skálholtssena í byrjun bókar á að sýna hvenær botninum er náð en er einhvern veginn ótrúverðug sem vendipunktur í lífi söguhetjunnar. Upphafsatriðið kallast á við lokasenuna sem er einhvern veginn ofhlaðin, of táknræn, of sviðsett miðað við að söguhetjan hefur nýlega uppgötvað að líf hennar var allt ein sviðsetning. Á baki bókarkápunnar er ljósmynd af höfundi sem gæti svipt lesandann voninni um að söguhetjan sé frjáls; hún er aðeins hálf á myndinni og með dökk sólgleraugu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 25. nóvember 2003.

 

Tengt efni