SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir19. nóvember 2018

SKUGGAMYNDIR. Horfið ekki í ljósið

Þórdís Gísladóttir. Horfið ekki í ljósið. Reykjavík: Benedikt 2018, 160 bls.

 

Í nýrri skáldsögu Þórdísar Gísladóttur er varpað ljósi á þrjár kynslóðir kvenna; ömmu, mömmu og sögukonunnar sjálfrar sem fæst við að fanga minningar sínar í texta sem hún skrifar að næturlagi því hún þjáist af „svefnstyggð“. Hún telur vænlegri kost að nýta andvöku-stundirnar til skrifta en að ráða niðurlögum þeirra með svefnlyfjum sem kunna að hafa í för með sér óheppilegar aukaverkanir.

Orðatiltækið „að varpa ljósi“ á reyndar einkar vel við í þessu samhengi því titill bókarinnar Horfið ekki í ljósið er sóttur til þeirrar viðvörunar að hættulegt sé að horfa beint í ljósið ef kjarnorkusprengja kynni að springa í nágrenninu, slíkt gæti haft hættulegar afleiðingar. Sögukonan, Klara, er af þeirri kynslóð sem ólst upp í „skugga kjarnorkusprengjunnar“, eins og það var gjarnan orðað, og kennt var hvernig bregðast skyldi við í tilviki kjarnorkustríðs; að hlaupa í skjól og forðast að horfa beint í ljósið.

Bara skáldskapur

Klara varpar ljósi á sundurlaus atvik úr sinni eigin ævi, sem og ömmu sinnar og móður og fleira fólks sem bregður fyrir á sviðinu – gengur inn og út úr ljóskeilunni um stund. Frásögnin er því brotakennd, líkt og einnig á við um minningar sem sögukona líkir við „vísbendingar“ þótt þær geti „verið villandi, stundum óljósar og sundurlausar“ (10). Frásögn Klöru byggist á að rifja upp, raða saman atburðum og tengja þá saman og hún ályktar: „Þegar öllu hefur verið raðað saman í heildstæða frásögn er hugsanlega ekki mikið eftir af því sem raunverulega gerðist“ (10). Hún fæst því ekki við að fanga „stóra sannleikann“ því þegar öllu er á botninn hvolft er hann „bara skáldskapur“ (10). Skriftir og eðli þeirra eru því meðal þess efnis sem sjálf frásögnin snýst um og víða er vísað til annarra höfunda sem lentu „á hálum ís“ þegar þeir fóru að skrifa um eigið líf því sú útgáfa lífsins sem birtist í texta þeirra gat farið illa í aðra (sbr. Simone de Beauvoir, 13). Orðið „skriftamál“ kemur einnig við sögu (11) og á vel við í því kaþólska samhengi sem frásögin hrærist í að hluta því sögukona er uppalin við „við klausturvegg“ í Hafnarfirði og kaþólskar nunnur og kaþólskur prestur koma einnig við sögu. Lítil frásögn af prestinum séra August George í Landkoti, sem sér um fermingarfræðslu sögukonu, leynir mjög á sér og lesanda kann að renna kalt vatn milli skinns og hörunds þegar presturinn segir að sinn „stærsta glæp“ hafi hann drýgt með bróður sínum þegar þeir stálu timburborðum til að nota sem eldivið til hlýja svangri og skjálfandi fjölskyldu sinni á stríðstímum. Hann telur þó að Guð hafi „fyrirgefið honum glæpinn“ (54). Flestir lesendur vita væntanlega að séra George hafði mun stærri og alvarlegri glæpi á samviskunni, sem hann minnist vitaskuld aldrei á – og heldur ekki sögukonan – í það ljós er erfitt að horfa.

 

Glefsur

Þórdís Gísladóttir

Glöggur lesandi getur einnig lesið dýpri og flóknari sögur út úr þeim brotum sem sögukona dregur upp, án þess að lýsa þær upp að magni. Saga þýsku ömmunnar, hárgreiðslukonunnar Barböru Weber, síðar Grímsson, sem flytur til Íslands á stríðstímum og gerist heimavinnandi húsmóðir í Hafnarfirði, kristallast í örfáum myndum, svo sem eins og þeirri staðreynd að hún „lærði íslensku aldrei vel“ og „leysti tungumálavandræðin með því að tala mikið við Guð en minna við fólk“ (23). Eða þeirri áráttu hennar að elda helst skyndimat og fannst ákjósanlegast að hann væri í duftformi úr pakka. Barbara hafði ekki miklar væntingar til lífsins: „Mig langaði að eignast mann. Hann átti að trúa á Guð, alls ekki vera giftur eða fráskilinn og hann mátti ekki vera óreglumaður. Tóti minn uppfyllti öll þessi skilyrði, nema bara með öfugum formerkjum“ (19). Hnitmiðuð er síðan lýsingin á hinum nefnda Tóta: „Hann var ljúfmenni sem alltaf reyndi að gera öllum til hæfis. Hann var líka afar ölkær og átti við þunglyndi að stríða“ (17). Þess er getið, líkt og í framhjáhlaupi, að hann hafi „fallið fyrir eigin hendi“ (18) sem vekur vitaskuld grun um stærri sögu en þá sem sögukona hripar niður á andvökunóttum.

Hin ósagða saga Sérlega áhugverð er saga móður sögukonu, sem „var afskaplega vel upp alin“ af sinni ströngu og formlegu þýsku móður. Hún varð ung ekkja, eignaðist einkadóttur sínum í skyndikynnum og elur hana ein upp, með aðstoð frá ömmunni. Hún hefur ekki samband við barnsföðurinn: „Á þessum árum var lítið hugsað um rétt barna til að umgangast börn sín“ (33) skrifar sögukona og glittir þar í djúpa, ósagða sögu. Móðirin er stundum „dálítið hátti uppi og málglöð en þess á milli döpur og fámál“ (33). Síðar verður sögukonu ljóst að hún hafi þjást af kvíða sem meðal annars átti sér þá birtingarmynd að hún ímyndaði sér alltaf allt það versta og „var stöðugt að reyna að leysa vandamál sem voru alls ekki fyrir hendi“ (34). Líkt og amman virðist móðirin hafa átt við „tungumálavandræða“ að stríða, en hún notar „líkamann sem tungumál vegna skorts á öðrum tjáningarmáta. Hún var alltaf svo slæm, alltaf með verki og alltaf hjá læknum. Fékk ýmsar greiningar og miklu fleiri lyf. Lá svo fyrir og hélt að þannig myndi henni batna. Auðvitað batnaði henni ekki. Engri manneskju hefur nokkurn tíma batnað af að liggja tímunum saman dæsandi í La-Z-Boy-stól“ (21).

Tungumálið og sjálfsmyndin

Það er því ekki fyrr en með sögukonunni sjálfri, þriðju kynslóð þeirra kvenna sem sagan snýst um, að kona nær tökum á tungumálinu, sem hún reyndar heillast mjög af, sér í lagi af „félagslegum málvísindum. Hvernig fólk notar málið á ólíkan hátt eftir þjóðfélagsstöðu, kyni, menntun og eftir því hvaða tungumál það elst upp við að tala“ (23). Sögukona gerir sér grein fyrir að tungumál og sjálfsmynd er samofin og hún ályktar: „Því má vel halda fram að fólk sé það sem það segir og hafi það ekki tök á tungumáli hópsins eða samfélagsins sem það heyrir til þá sé það ekki til nema að hluta“ (23). Í vissum skilningi má því segja að textinn sem skáldsagan samanstendur af sé nokkurs konar félagsleg og málvísindaleg rannsókn sögukonu færð í búning skáldskapar. Sjálf hefur hún náð því valdi á tungumálinu sem móðir hennar og amma höfðu ekki og hefur þar af leiðandi það vald að geta ráðið frásögninni, enda skrifar hún: „Tungumálið er lykill og sá sem hefur lykilinn getur opnað samtalið, leitt það áfram og lokað því. Sá sem hefur meira vald á tungumálinu getur stjórnað því hvert samtalið stefnir, það eru mun meiri líkur á að viðkomandi hafi töglin og hagldirnar í samskiptunum“ (23). Það er að sjálfsögðu fyrst og fremst í krafti þess valds sem sögukonu hefur á tungumálinu að hún getur fært í letur allar þær sögur sem glittir í – til hliðar við ljósið – og framkallast sem nokkurs konar skuggamyndir í frásögninni. Þær sögur eru mun fleiri en hér hefur verið getið. Texti Þórdísar samanstendur af áhugaverðum, stundum furðulegum, sögubrotum sem varpa ljósi á ólíkar aðstæður fólks (ekki síst kvenna) í nýliðnum íslenskum veruleika.

 

 

Tengt efni