SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir12. júlí 2019

ENGINN HEMUR ELDFJALLIÐ. Undir eldfjalli

Svava jakobsdóttir. Undir eldfjalli. Reykjavík: Forlagið 1989

 

Ritdómur eftir Súsönnu Svavarsdóttur

Undir eldfjalli er smásagnasafn eftir Svövu Jakobsdóttur. Í safninu eru sex sögur; „Undir eldfjalli," sem segir frá fullorðnum hjónum sem hafa keypt sér jörð við „tærnar" á Heklu og eru að rækta hana upp, „Endurkoma," sem segir frá því þegar miðaldra íslensk kona kemur í heimsókn til Íslands, eftir að hafa búið í Bandaríkjunum í fjörutíu ár, „Fyrnist yfir allt," saga um barn sem flyst milli málsvæða, „Fjörusteinn," sem segir frá hugrenningum gamals manns, þegar kona hans er flutt á hjúkrunarheimili, „Pálmasunnudagsganga," um konu með flís í auga og „Saga bróður míns," um konu sem gætti bróður síns.

Þótt þessar sögur fjalli um æði ólíka hluti og tákn og minni séu sótt til óskyldra staða, eiga þær engu að síður margt sameiginlegt. Í öllum sögunum beitir Svava sálfræðilegu raunsæi, þar sem við sjáum inn í hugskot aðalpersóna, eða sögumanns. Þær eiga það flestar líka sameiginlegt að allt þetta fólk stendur á tímamótum í lífi sínu, þarf að horfast í augu við sjálft sig, eða löngu liðna atburði sem hafa haft afgerandi áhrif á líf þess — án þess þó að það hafi nokkurn tímann gert sér grein fyrir því. Tímamótunum má líkja við einhvers konar hamfarir og eru þau undirbyggð með mikilli spennu, eins konar brennisteinsfnyk á undan eldgosi.

Í fyrstu sögunni, Undir eldfjalli, eru Gerður og Loftur, miðaldra hjón, að rækta upp land í Hekluhrauni. Þau eru landnemar og strita í sól og heiðríkju í þrjá daga — ölvuð af kyrrðinni og fegurðinni, en: „Hver slíkur dagur er hinn síðasti. Nauðugur viljugur nærist því fögnuður þessara fögru daga á djúplægum grun um fallvelti lífsins. Á morgun skellur á slagviðri!" Þau hjónin bíða heimsóknar sonar, tengdadóttur og sonarsonar, frá Austfjörðum, til að sýna þeim landnám sitt og umhyggjuna fyrir því — og eftirvæntingin er mikil.

Þegar Svava veltir hér fyrir sér fallvelti lífsins leikur hún sér við hringrás náttúrunnar sem hliðstæðu við hringrás mannsins, og hringurinn stækkar, uns úr verður jafnvel spurning um vegferð mannsins á jörðinni. Þau Gerður og Loftur hafa lokið við að rækta upp garðinn við hús sitt í Reykjavík — hann stóð í miklum blóma — og þau höfðu líka komið elsta syni sínum til manns — hann er að hefja sitt blómaskeið, sem læknir austur á fjörðum. Og nú eru þau að byrja að rækta upp nýjan garð og litlir græðlingar eru farnir að teygja sig upp úr jörðinni, varla sýnilegir fremur en litli sonarsonurinn — sem grípur um fingur ömmu sinnar, þegar hún veltir því fyrir sér afhverju hún sé að þessu, „ótrúlega föstu taki, af því handarafli sem sagt er, að smábörnum sé áskapað og hún hafði lesið að væri arfur úr bernsku mannkyns í frumskógunum." En af hverju eru þau hjónin að byrja að rækta nýjan garð? Af hverju er fólk yfir höfuð að rækta garðinn sinn, hvort sem er í náttúrunni — eða einkalífinu, þegar alltaf geta skollið á hamfarir? Hver er tilgangurinn með þessu öllu?

Í annarri sögunni, Endurkomu, er sagt frá miðaldra konu sem kemur í heimsókn til Islands, eftir að hafa dvalið í fjörutíu ár í Bandaríkjunum, eða frá tólf ára aldri. Bandarískur eiginmaður hennar er í för með henni og henni finnst það bæði þægilegt og óþægilegt, aðallega vegna minninganna sem hún á frá ástandsárunum á Íslandi. Hún hefur aldrei rætt þær minningar við neinn, þær liggja grafnar í arfahaug, rétt-eins og gróðurinn í bakgarðinum við fallega húsið hennar — þótt framgarðurinn líti vel út.

Það er varla ástæða til að rekja hér fleiri sögur úr bókinni, það yrði hvort eð er aldrei annað en yfirborðsúttekt, þar sem sögur Svövu eru myndaðar úr svo mörgum lögum, að túlkunarmöguleikarnir eru endalausir; út frá kvennaminni, fornsagnaminni, goðsagnaminni, Biblíuminni, nátt-úruminni og svo mætti lengi telja

Að lesa sögur Svövu Jakobsdóttur er eins og að glíma við 3000 búta púsluspil. Hvert orð hefur merkingu; er tilvísun út fyrir hverja sögu, en þjónar þó mjög ákveðnu hlutverki innan hennar. Stíll Svövu í þessari bók er knappur og hnitmiðaður og yfirborð sagnanna slétt og fellt. En undir niðri krauma tilfinningar — bældar, týndar, gleymdar - sem eru við það að sprengja sér farveg upp á yfirborðið af krafti eldfjalls. Og eldfjallið hemur enginn. Sögurnar eru líka raunsæislegri á yfirborðinu en oft áður, án þess að þær tapi dýptinni.

Svava hefur löngum verið óbrigðull meistari smásagnanna og svo er enn. Eftir því sem maður les sögurnar oftar opnast manni fleiri víddir mannlífsins og vegna þeirra tákna og minna úr bókmenntasögunni, sem Svava notar, verða þær manni endalaus hvatning til að leita út fyrir sögurnar, í önnur bókmenntaverk, og eru því heill bókmenntaskóli út af fyrir sig.

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 2. desember 1989

 

Tengt efni