SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir31. mars 2019

ÁSTIN ER SANNLEIKURINN. Hjarta, tungl og bláir fuglar

Vigdís Grímsdóttir. Hjarta, tungl og bláir fuglar. Reykjavík: JPV útgáfa 2003

„ÞAÐ er komin ný öld og nýtt tímabil í skrifum mínum,“ sagði Vigdís Grímsdóttir í viðtali sem birtist í DV í tilefni af útkomu skáldsögu hennar Frá ljósi til ljóss. Og víst er það rétt að sú saga var að mörgu leyti ólík fyrri verkum Vigdísar og nú hefur hún sent frá sér framhald hennar, sögu sem er ennþá ólíkari fyrri verkunum og ber titilinn: Hjarta, tungl og bláir fuglar. Þessar tvær bækur fjalla að miklu leyti um sömu persónurnar, þótt ýmsar hafi horfið í bakgrunninn og aðrar nýjar bæst í hópinn: Og margt bendir til þess að sögu þeirra sé ekki lokið og geta lesendur átt von á þriðju bókinni áður en langt um líður, ef að líkum lætur. Það er þá líka nýjung hjá Vigdísi, að skrifa trilogíur, en þann leik hafa ýmsir aðrir höfundar okkar stundað með ágætum árangri.

Fyrir útkomu Frá ljósi til ljóss hafði Vigdís Grímsdóttir sent frá sér (auk smásagna og ljóða) sjö skáldsögur, fjölbreytilegar að efni og gerð, og er óhætt að segja að með þeim hafi hún fest sig í sessi sem einn af dáðustu samtímahöfundum okkar þótt vissulega hafi ekki öllum hugnast hinn ljóðræni og ágengi stíll hennar. Ef við reynum að skilgreina í hverju hið „nýja tímabil“ hennar sem höfundar felst er kannski fyrst til að taka að fram að Frá ljósi til ljóss var sögusvið skáldsagna hennar svo til alfarið Ísland og íslenskur samtími og sjónarhorninu var gjarnan beint að einstaklingum sem eru á einhvern hátt öðruvísi en „fólk er flest“, oft börnum eða ungu fólki. Mörgum sögum Vigdísar má einnig lýsa sem sálfræðistúdíum; hún kryfur persónur sínar gjarnan til mergjar og sýnir okkur hvernig ofbeldi, kannski fyrst og fremst andlegt ofbeldi, markar óafmáanleg spor í persónuleikann. Vigdís hefur ekki vikið sér undan því að taka á samfélagsmeinum og siðferðilegum spurningum, þá afhjúpar hún oft persónulega og félagslega fordóma gagnvart þeim sem samfélagið hefur ýtt út á jaðarinn fyrir einhverjar sakir.

Nýtt sögusvið

Í nýjustu sögunum tveimur færist sögusviðið hins vegar frá Íslandi til Nýju Mexíkó og bæði umhverfið og persónurnar í nýjustu bókinni eru að vissu leyti framandi því sem við eigum að venjast í íslenskum bókmenntum. Í takt við þessa færslu á sögusviði má einnig merkja ákveðna stílbreytingu hjá Vigdísi kannski ekki síst hvað varðar persónulýsingar. Reyndar eru persónur þessara bóka furðu einhliða; margar þeirra virðast vera góðmennskan uppmáluð og sumar jaðra við að vera einfeldningslegar. Það á til að mynda við Lenna eldri sem er ein af aðalpersónum Frá ljósi til ljóss. Hann er maðurinn sem verður ástfanginn af konu á mynd sem hann finnur þegar hann er barn, sem verður til þess að hann fer á fullorðinsaldri til Nýju Mexíkó að leita konunnar. Heima á Íslandi skilur hann eftir dóttur sína, Rósu (sem er skírð í höfðuð á konunni á myndinni), í umsjá vinafólks og undir lok bókarinnar heldur hún á eftir honum með nýfæddan son sinn, Lenna yngri.

Lenni eldri fann ekki þá konu sem hann leitaði en hann fann dóttur hennar Floru og samband þeirra á sér hliðstæðu í ástarsambandi dóttur hans sem undir lok fyrri bókarinnar eignast barn sem manni sem hafði elskað móður hennar Magdalenu og hún á reyndar eftir að komast að því síðar að tengsl þeirra eru önnur og meiri en hana hafði áður grunað. Ástin er vissulega það þema sem þessi tvö verk snúast um og ástin virðist hafin yfir allt, hún réttlætir allt og þurrkar út öll landamæri bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi.

Í Hjarta, tungl og bláir fuglar er sjónarhornið að mestu leyti bundið við Lenna yngri sem kom með móður sinni til litla fjallaþorpsins Madrid fyrir sunnan Santa Fe í Nýju Mexíkó þegar hún fór að finna föður sinn rúmlega áratug eftir að hann hélt af stað í leit að ástinni. Hér er frásögnin í fyrstu persónu ólíkt fyrri bókinni þar sem sagt er frá í þriðju persónu. Fyrstu persónu frásögnin skapar meiri nánd og þótt það sé Lenni yngri sem segir frá þá er honum í sífellu mótmælt af vinkonu sinni Editu. Persónulýsing stúlkunnar Editu er ein sú skemmtilegasta í bókinni. Hún trúir á yfirburðarvisku guðanna og birtingarmyndir þeirra í náttúrunni og cayotunum og skilgreinir sjálfa sig sem dóttur tunglsins. Edita elskar Lenna takmarkalaust og kallar hann „son ljóssins“ þótt hún efist oft um dómgreind hans og hæfileika hans til þess að sjá fólkið í kringum sig í réttu ljósi. Samspilið á milli Lenna og Editu í frásögninni er víðast hvar mjög skemmtilegt og gefur frásögninni nauðsynlegan léttleika því efniviðurinn er víða af dramatískara taginu.

Fjölbreytilegar persónur

Ekki verður fjölyrt um efnivið sögunnar hér en óhætt er að segja að hún snúist fyrst og fremst um að lýsa þeim fjölbreytilegu persónum sem lifa nægjusömu lífi í litla fjallaþorpinu og gætu flestar tekið undir með Lenna eldri þegar hann segir: „Maður hlær, syngur, og drekkur, trúir á guðsmóðurina og veit að ástin er sannleikurinn“ (bls. 109). En þessar persónur þurfa að heyja sínar glímur við tilveruna eins og aðrir. Hér er sagt frá Floru sem drekkur meira en góðu hófi gegnir enda mörkuð af erfiðri æsku þegar hún flakkaði um með móður sinni í leit að týndum föður. Síðar ákvað hún að gleyma, elska og njóta – og gleðja fólk, sér í lagi karlmenn sem komu til hennar daprir en fóru í sjöunda himni. Hér er sagt frá Kiki, móður Editu, sem situr við gluggann og bíður elskhugans, svarta Mike (föður Editu), sem laumast að heiman frá eiginkonunni hvenær sem hann getur til að njóta ásta með henni. Hér er sagt frá Jakobi sem elskar góðan mat, og sjá má af holdarfari hans, og er nokkurs konar umboðsmaður Maríu guðsmóður í fjallaþorpinu. Til hans flykkist fólk til að leggjast á bæn og bíða eftir að María birtist þeim. Hjá Jakobi finnur Rósíta (Rósa, móðir Lenna yngri) skjól eftir tveggja ára þunglyndi sem lagði hana í rúmið eftir að henni varð ljóst að barnsfaðir hennar, Róbert, myndi ekki koma á eftir henni til Nýju Mexíkó og að hún á ekki afturkvæmt heim til hans. Hér er einnig sagt frá Lúnu, æskuvinkonu Rósu, sem málar myndir á Íslandi innblásin af Fridu Kahlo og sendir vinum sínum sem hengja þær á trén í þorpinu þar sem allir njóta þeirra.

En í miðju frásagnarinnar er Lenni yngri sem þráir föðurlandið af ekki minni tilfinningu en afi hans þráði útlenska konu á ljósmynd. Hann lætur sig dreyma um samfundi síns og föður síns en konurnar í fjallaþorpinu vilja ógjarnan sleppa af honum hendinni. Undir lok sögunnar heldur hann þó af stað í fylgd með Lúnu sem hefur komið til að heimsækja vinkonu sína og sjá líf hennar með eigin augum. Lokamynd bókarinnar er mynd sem Lúna hefur málað af Lenna með bundið fyrir augun. Hvað för hans til Íslands á eftir að leiða í ljós veit enginn en líklega verður hulunni svipt af því í þriðju bókinni.

Sterkt andrúmsloft

Hjarta, tungl og bláir fuglar er sérstök bók og sterkt andrúmsloft hennar á sér varla hliðstæðu í annarri íslenskri skáldsögu. Hins vegar minnir hún mig á bækur bandarískra blökkukvenna á borð við Toni Morrison, Alice Walker og Ntozake Shange og felast þau líkindi bæði í efnistökum og stíl. Hvort þar sé um bein áhrif að ræða eða tilviljun skal ósagt látið. Hitt er ljóst að Vigdís fer hér inn á nýjar brautir og verður spennandi að fylgjast með hvernig hún fótar sig á þeim í næstu verkum.

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 1. nóvember 2002

 

Tengt efni