SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir28. nóvember 2019

ORÐIN SEM ÞURFTI AÐ SEGJA. Hljóðin í nóttinni

Björg Guðrún Gísladóttir. Hljóðin í nóttinni. Minningasaga. Reykjavík: Veröld 2014, 252 bls.

Björg Guðrún Gísladóttir sendi nýlega frá sér bókina Skuggasól. Það er önnur skáldsaga hennar en minningasaga hennar, Hljóðin í nóttinni olli miklu fjaðrafoki þegar hún kom út 2014. Aðallega vegna þess að þar er sagt frá kynferðislegri misnotkun þekkts barnakennara gagnvart nemendum sínum. En það er fleira áhugavert í þessari bók því Björg Guðrún gerir upp við fortíðina, segir frá uppruna sínum og barnæsku í Reykjavík á sjöunda áratugnum, erfiðri lífsbaráttu eftir að hún komst á legg, höfnun, þunglyndi, átröskun, vonbrigðum, ofbeldi og sársauka.

Fjölskylda hennar bjó fyrst í Höfðaborginni, bráðabirgðahúsnæði sem hrófað var upp til að mæta húsnæðisleysi í Reykjavík um 1940. Íbúðirnar voru pínulitlar og hrollkaldar, hreinlætisaðstaða var bágborin, skólpleiðslur lágu ofanjarðar, gólfin voru sigin, veggirnir þunnir og gisnir og vatn fraus í pípunum á veturna. Þegar Björg byrjaði í skóla fylgdi fúkkalyktin henni og fékk hún fljótt að heyra að hún væri höfðaborgarskríll og tossi, ruslaralýður og bæjarpakk.

Nemendum var á þessum tíma raðað í bekki að undangengnu þroskaprófi en börn fátækra foreldra voru sett saman í hóp svo hægt væri að sinna heldri manna börnum betur. Þarna kynntist Björg ofbeldi kennarans sem káfaði á bekkjarbræðrum hennar í skriftartímum.

Heimilislífið einkenndist líka af andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, ásamt stanslausri drykkju og fátækt. Sagan nær yfir þrjár kynslóðir kvenna, ömmunnar sem djöflaðist áfram á hörkunni, móðurinnar sem var í ofbeldissambandi og svo Bjargar sem brýst út úr aðstæðunum og leitar sér hjálpar. Myndin sem dregin er upp af þessum konum er óvægin og lýsir vel samfélagi, viðhorfum og ríkjandi hugmyndafræði þeirra tíma. Uppvöxtur við þær aðstæður sem lýst er veldur kvíða og sálarkvölum sem fylgja fólki fyrir lífstíð. Í bókinni er bæði varnarleysi barnsins og angist unglingsins komið vel til skila.

Björg Guðrún lýsir því hvernig sjálfsmyndin brenglast, henni finnst hún vera ljót og hallærisleg, engum þyki vænt um hana og hún er sannfærð um að allir megi traðka á henni af því að hún eigi það skilið.

„Þegar ég horfði í spegil sá ég ekkert jákvætt við mig. Eitt skiptið varð ég svo reið út í sjálfa mig að ég beit í handlegginn á mér. Sjálfshatrið öskraði á mig í spegilmyndinni, ég var ógeðsleg. Stundum gat gripið mig sterk löngun til að meiða mig, ná einhverri stjórn á sársaukanum inni í mér, það hlyti að vera skárra að finna til í líkamanum en að líða illa í hjartanu“ (153).

 

Í bókarlok kemur fram að þrír bekkjarbræðranna er dánir en einn þeirra var sendur á vistheimili vestur á fjörðum sem síðar kom í ljós að var helvíti á jörðu (251). Björg Guðrún er enn einn höfundurinn sem stígur fram af miklu hugrekki og lýsir því hvernig kerfið og samfélagið brást börnum sínum á þessum tímum.

Á bókarkápunni er hin táknræna og fræga mynd af af engli sem gætir barna sem fikra sig yfir hengibrú.

„Ég velti oft vöngum yfir því hvort einhver engill gætti okkar systkinanna. Ég var ekki viss um að englarnir vildu vera hjá okkur. Ég gat ekki séð fyrir mér að englar þyldu mikil læti eins og oft voru heima hjá mér… Líklega gæta þeir bara barna sem eru alltaf góð og í nýjum fötum, sem eiga heima í fallegum húsum og góð lykt er af“ (100).

 

Björg Guðrún er viljasterk og ákvað að takast á við sársaukann sem hélt henni í heljargreipum.

Seinni hluti bókarinnar snýst um uppgjör og hægfara bata með aðstoð sérfræðinga. Gamla sannfæringin úr barnaskóla um að hún væri heimsk og skítug víkur smátt og smátt og hún tekst á við djöfla sína og guð. Í frásögn Bjargar Guðrúnar af uppgjöri við barnaníðinginn föður sinn takast á vorkunn og viðbjóður en hún sýnir mikinn þroska og yfirvegun þegar hún áttar sig á að hún getur ekki tekið ábyrgð á gerðum hans (242).

Hljóðin í nóttinni er eftirminnileg og vel skrifuð sjálfsævisaga, full af grimmd og andstyggð sem sagt er frá af heiðarleika og einlægni. Hetjusaga um vítahring angistar og örvæntingar og grýtta leið til sáttar og bata. Um leið er varpað ljósi á skömm í sögu þjóðarinnar sem hefur verið falin alltof lengi. „Orðin sem þurfti að segja hafa verið sögð“ (252) segir í lokaorðunum en hætt er við að svo sé ekki, því miður.

Ritdómurinn birtist í Kvennablaðinu, 10. mars 2014

 

Tengt efni