SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Björg Guðrún Gísladóttir

Björg Guðrún Gísladóttir er fædd í Reykjavík 2. október 1956.

Hún ólst upp í Reykjavík og stundaði nám á myndlistarbraut Fjölbrautarskólans í Breiðholti. Björg lauk BA gráðu í bókmenntafræði og ritlist frá Háskóla Íslands 2008. Hún á þrjú börn og meðfram barnauppeldi skrifaði hún ljóð sem til að byrja með enduðu ofan í skúffu. Nokkur ljóða Bjargar birtust síðan í tímaritinu Andblæ og í Lesbók Morgunblaðsins.

Árið 1995 sendi Björg frá sér ljóðabókina Sigurvegarinn sárfætti og 2014 minningasöguna Hljóðin í nóttinni og svo aðra minningasögu, Skuggasól, 2019. Eftir útgáfu fyrri minningasöguna hafa Björg og dr. Guðbjörg Ottósdóttir haldið fyrirlestra um börn í ábyrgðarhlutverkum, fyrir fagfólk og aðra sem koma að fjölskyldum með frávik.

Björg hefur einnig skrifað fyrir leiksvið. Árið 1994 skrifaði hún einleikinn Þá mun enginn skuggi vera til sem sýndur var víðs vegar um Ísland, sem og í Svíþjóð og Noregi. Einleikurinn fjallar um sifjaspell og afleiðingar þess. Björg sat í leikritasmiðju á vegum Leikskáldafélags Íslands og Borgarleikhússins og skrifað þar einþáttunginn Brenndar varir sem sýndur var á Litla sviði Borgarleikhússins. Hann fjallar um konu sem horfist í augu við samkynhneigð sína.

Um Hljóðin í nóttinni segir m.a. í ritdómi: „Björg Guðrún er enn einn höfundurinn sem stígur fram af miklu hugrekki og lýsir því hvernig kerfið og samfélagið brást börnum sínum á þessum tímum.“


Ritaskrá

  • 2019 Skuggasól. Minningabók
  • 2014 Hljóðin í nóttinni. Minningabók
  • 1996 Brenndar varir. Einleikur
  • 1995 Sigurvegarinn sárfætti. Ljóðabók
  • 1994 Þá mun enginn skuggi vera til. Einleikur, meðhöfundur Kolbrún Erna Pétursdóttir

Tilnefningar

  • 2014 til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Hljóðin í nóttinni

 

Tengt efni