SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 1. desember 2018

LEGGJUMST Á BÚFÉ OG ÆRUM EYFIRSKA SMALA. Ljóðasafn Steinunnar

Steinunn Sigurðardóttir. Ljóðasafn. Reykjavík: Mál og menning 2004

SÍÐLA sumars [2004] kom út hjá Máli og menningu safn ljóða Steinunnar Sigurðardóttur sem hefur að geyma allar sex ljóðabækurnar sem hún hefur sent frá sér til þessa. Sú fyrsta, Sífellur, kom út árið 1969 en sú síðasta, Hugástir, árið 1999 og spanna ljóðabækurnar því þrjá áratugi í höfundarferli Steinunnar. Á milli þessa tveggja bóka eru síðan Þar og þá (1971), Verksummerki (1979), Kartöfluprinsessan (1987) og Kúaskítur og norðurljós (1991). Líklega er óhætt að halda því fram að Steinunn sé betur þekkt sem skáldsagnahöfundur en ljóðskáld því hún hefur sent frá sér fjölmargar skáldsögur undanfarin ár sem oftar en ekki vakið verðskuldaða athygli og notið mikilla vinsælda. En ef einhverjir aðdáendur skáldsagnahöfundarins Steinunnar Sigurðardóttur þekkja ekki ljóðskáldið Steinunni Sigurðardóttur gefst þeim hinum sömu hér gott tækifæri á að kynna sér það síðarnefnda í þessu myndarlega og eigulega safnriti.

Það er hins vegar vafasamt að hægt sé að skilja á milli sagnahöfundarins og ljóðskáldsins eins og gefið er í skyn hér að ofan því sagnastíll Steinunnar hefur sterkan ljóðrænan streng og ljóð hennar eru mörg frásagnarkennd og miðla sögu, jafnvel mikilli sögu þótt í knöppu formi sé. Steinunn er til að mynda mikill meistari ljóðabálkanna og eru margir þeirra ógleymanlegir svo sem: „Nokkrar gusur um dauðann og fleira“ (úr Hugástum 1999), „Á suðurleið með myndasmið og stelpu“ (úr Verksummerkjum 1979) og „Sjálfsmyndir á sýningu“ (úr Kúaskít og norðurljósum 1991).

Og líkt og í sögum Steinunnar takast á tregi og takmarkalaus húmor í ljóðum hennar sem gerir þau skemmtileg aflestrar um leið og mörg þeirra dvelja lengi í hugskotinu eftir lesturinn. Hinu harmræna og hinu skoplega fléttar Steinunn oft saman: „Ég hefði getað grátið í morgunsárið / oní kornfleiks á sjóðheitum flugvelli“ (23), en löngum hefur aðalsmerki hennar verið talið hin kalhæðna skáldskaparvitund sem víða er að verki og hin djúpa tilfinning fyrir náttúrunni sem blasir alls staðar við í ljóðheimi Steinunnar. Náttúruljóð hennar gætu ein og sér skipað henni í fremstu röð íslenskra ljóðskálda því sýn hennar á íslenska náttúru er ætíð fersk, oft óvænt og aldrei klisjukennd.

 

Guðni Elísson bókmenntafræðingur skrifar formála að ljóðasafninu þar sem hann spyr hvort finna megi í ljóðum Steinunnar „ákveðin leiðarstef, áleitin þemu og minni, ljóðrænar myndir sem þróast og taka breytingum milli bóka“. Og hann svarar, fyrst stuttlega: „Maður og náttúra, ást, einmanaleiki og aðskilnaður, tími sem eirir engu og dauðinn á næstu grösum,“ og síðan fjallar Guðni í lengra máli um það sem honum finnst helst einkenna ljóðagerð Steinunnar. Formáli Guðna er 23 blaðsíður og fjallar hann bæði af innsæi og lærdómi um yrkisefni og aðferðir skáldsins. Formálann má lesa sem inngang og kynningu á ljóðheimi Steinunnar (þannig er hann settur upp) eða (sem er kannski ennþá betra) sem eftirmála, þegar lesandi hefur sjálfur lesið, hugleitt og skilið ljóðin sínum skilningi.

Ég hef áður skrifað að sem ljóðskáld hafi Steinunn ótvíræða sérstöðu í íslenskum bókmenntum og að hún sé fáum lík. Rödd hennar er sterk, persónuleg og nútímaleg um leið og hún byggir mjög á klassískri íslenskri bókmenntahefð (Laxness og Jónas eru báðir nálægir). Hún er þjóðleg og alþjóðleg í senn; hún yrkir jöfnum höndum um erlendar borgir og íslenska sveit. Stundum yrkir hún út frá íslenskum ævisögum eða þjóðlegum fróðleik; kveikja skáldskaparins á sér engin takmörk. Þá er einnig sterk kvenleg vitund í ljóðum Steinunnar og mjög fjölbreytilegur hópur kvenna á sveimi í ljóðheimum hennar. Þar mætum við smástelpum og gömlum konum, sem allar geta verið mestu æringjar, við lesum um viðkvæmar ástkonur, oft yfirgefnar, sem harma hlutinn sinn en bíta síðan á jaxlinn, við kynnumst íslenskri skottu sem „leggst á búfé og ærir eyfirska smala,“ kartöfluprinsessum sem þrýst er í moldina af þreyttum kóngssonum, og heyrum af kærustum sem eru slegnar af á haustin en rísa upp frá dauðum og stíga upp til himna á páskum. Í heildina er óhætt að fullyrða að sá ljóðmælandinn sem er yfir og allt í kring í ljóðheimi Steinunnar Sigurðardóttur getur brugðið sér í ýmsra kvikinda líki og engum þarf að leiðast viðkynningin við hann.

Heildarsafn ljóða Steinunnar Sigurðardóttir ætti að vera bókmenntaunnendum kærkominn kostur enda munu flestar fyrri útgáfur ljóðabóka hennar vera löngu ófáanlegar. En vonandi verður safnrit þetta enginn punktur aftan við ljóðagerð Steinunnar sem vafalaust á mörg lönd enn óunninn í landi ljóðlistarinnar (sem virðist vera enn í fullu fjöri þrátt fyrir linnulausar dánartilkynningar undanfarinna ára).

Ritdómurinn birtist í Lesbók Morgunblaðsins, 6. nóvember 2004.

 

Tengt efni