SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir24. nóvember 2019

TÁKNÞRUNGIN ENDURFÆÐING. Hunangsveiði

Soffía Bjarnadóttir. Hunangsveiði. Reykjavík: Angústúra 2019, 200 bls.

Ný skáldsaga Soffíu Bjarnadóttur, Hunangsveiði, er djúp og safarík. Löðrandi í sætu hunangi orða og skapandi myndmáls um líkamlegan sársauka og andlegar þjáningar, ástina og fyrirgefninguna. Líkt og í fyrstu skáldsögu Soffíu, Segulskekkju, er arfur kynslóðanna til umfjöllunar; áföll og angur erfast og eru helsi á framfarir mannkyns (sjá umfjöllun um Segulskekkju).

Hunangsveiðimenn eru í rauninni til. Þeir spranga í klettum Nepals og safna dýrmætu hunangi meðan býflugurnar sveima öskureiðar í kringum þá, stinga þá jafnvel í augun. Silva Saudade, aðalpersóna sögunnar, er með vængjað skordýr fast í vinstra auga, dapurlegt tákn fyrir hana sjálfa sem berst um í eðjunni og getur ekki breitt út vængina. Silva er buguð þegar hún leitar til tengslafræðingsins Tómasar O. sem fer með hana í ferðalag um fortíðina ásamt hinum bráðmyndarlega Rónaldi sem firrtur og fjarlægur nærist á hverri konu sem verður á vegi hans.

Í sögunni seytla blóð, sæði, tár og sviti þar sem þau þrjú dvelja á niðurníddu heilsuhæli sorgmæddra í Portúgal í leit að svörum við lífsgátunni. Öll skynfærin eru virkjuð, húðin er ofurnæm, lykt leggur af öllu, sársauki býr um sig í augunum. Textinn er ákaflega fallegur, myndrænn og mergjaður, þrunginn táknum; seigfljótandi mjakast sagan áfram í átt að uppgjöri en ekki er víst að öll þrjú komist af. Það dregur jafnt og þétt af þeim, skynjunin víkkar og sársaukinn vex, það er næstum óbærilegt að lesa síðustu kaflana.

Skordýr hafa áberandi hlutverk í sögunni og prýða bókarkápuna þar sem pera og píka renna saman. Í líffræði skordýra felst endurfæðing sem vonandi er það sem Silvu hlotnast eftir allar þjáningarnar. En þegar skordýrin deyja er ekki lengur lífvænlegt á jörðinni.

„Sorgin hylmdi yfir það sem raunverulega á sér stað. Þjáningin er og við leitum stöðugt að leið út úr henni. Við þurfum ekki endilega að hugsa um sorg, Hún er þarna. Hún kemur og fer og kemur aftur upp úr djúpinu. Eins og selur lyftir kolli sínum upp úr sjó. Hún er. Við því verður ekkert gert. Allt er hverfult og það er sorglegt. Skordýrin eiga sér líka langa sársaukafulla sögu. Hugsið ykkur alla umbreytinguna og hamskiptin. Að klekjast út úr sjálfum sér, endurfæðast.“ (79)

Listaverk: Konstantin Antioukhin

 

Tengt efni