EF ÉG GÆTI BARA BREYTT ÞVÍ... Ekki vera sár
Kristín Steinsdóttir. Ekki vera sár. Reykjavík: Vaka-Helgafell 2017, 212 bls.
Ef ég gæti bara breytt því sem liðið er
Kristín Steinsdóttir er rómuð, ástsæl og afkastamikil skáldkona. Fyrsta bók hennar kom út 1987, metsölubókin Franskbrauð með sultu. Síðan hefur Kristín skrifað 32 bækur, aðallega barna- og unglingabækur og hlotið bæði verðlaun og viðurkenningar. Á vef íslenskra bókmennta er viðtal við Kristínu, líklega frá 2010, þar sem hún segir m.a.:
Fyrsta verkið sem ég skrifaði fyrir fullorðna, Sólin sest að morgni (2004), hafði líka verið lengi með mér áður en það kom út. … Í rauninni hafði ég skrifað söguna margoft í huganum. Til að byrja með kom ég ekki auga á að gera neitt annað en að skrifa fyrir börn. Svo fór mig að langa að skrifa fyrir fullorðna. En þegar ég sýndi forlaginu mínu handritið þótti mönnum þetta vera óþarfabrölt. Búin að vinna til fjölda verðlauna sem barnabókahöfundur. Ætti ég ekki bara að halda mig við það?
En Kristín lét ekki undan síga og síðustu ár hefur hún sent frá sér skáldsögurnar Ljósu, Bjarna-Dísu og Vonarland, allt öndvegisverk um konur sem búa við fátækt, fordóma og misrétti. Skáldsagan Ekki vera sár, er sömuleiðis um konu en sú glímir við lúxusvandamál miðað við stallsysturnar. Ingibjörg eða Imba er komin á eftirlaun og ígrundar lífshlaup sitt og reynir að gera það heiðarlega. Upp koma bernskuminningar frá alkóhólísku heimili, farsæll en metnaðarlaus starfsferill og hjónaband sem einkenndist af auðsveipni hennar og lítilþægni, og loks núið þar sem gjá hefur myndast á milli þeirra hjóna.
Söguþráðurinn sem tengist fortíðinni í Laugarnesinu á eftirstríðsárunum er virkilega áhugaverður. Hjónaband foreldra Imbu er stormasamt, pabbinn er túramaður og mamman þögul og afskiptalaus. Litla stelpan þráir athygli og ást móður sinnar og trúir á loforð og skýjaborgir föðurins um betra húsnæði og betra líf. Þegar mamman getur enga ást gefið og pabbinn bregst öllum vonum og yfirgefur fjölskylduna, skapast frumstæð og sár tilfinning í sálardjúpi Imbu sem fylgir henni í gegnum allt lífið, tilfinning fyrir missi, að vera ekki ástar verð, ekki nógu góð og ekki nógu dugleg. Þessu er komið vel til skila í textanum í gegnum sjónarhorn sem er í senn barns og fullorðins, þar sem Kristín er á heimavelli.
Farið er yfir atburði sem hafa markað skil í lífi Imbu og það rennur upp fyrir henni að hún hefur látið ýmis tækifæri, drauma og þrár sér úr greipum ganga. Hún öðlast við þessa yfirferð nýjan skilning á ýmsu, s.s. stöðu móður sinnar sem átti ekki margra kosta völ í lífinu, fráskilin og atvinnulaus með þrjú börn. Einnig að hún er sjálf haldin djúpri sektarkennd gagnvart Kela, litla bróður sem varð eftir heima þegar hún fór til náms. Hann varð óreglumaður en henni finnst hún hafa brugðist honum og þar átti eiginmaðurinn Jónas stóran hlut að máli sem hún hefur ekki fyrirgefið. Þegar Keli deyr hellist þunglyndi yfir:
Nú fór ég að kvíða fyrir öllum hlutum, var með verk undir bringspölunum og miklaði allt fyrir mér. Lá mikið fyrir og hvíldi mig. Á nóttunni dreymdi mig lífið eins og það var áður. Og Keli var hjá mér. Þess vegna vildi ég ekki vakna á morgnana en barðist við að sofa lengur. Mér fannst það vera eins og risastórt fjall að fara yfir að koma mér fram úr rúminu. Ef ég gæti bara breytt því sem liðið var (173).
Söguþráðurinn þegar fortíðinni sleppir er losaralegri og ekki eins áhugaverður. Þau hjónin eru ólík og það kemur alltaf betur og betur í ljós eftir því sem árin líða og meiri tími gefst til að grufla í fortíðinni. Þegar Jónas færir henni nellikur, getur hún ekki varist þeirri hugsun að hann viti að rósir séu hennar eftirlætisblóm, en „nellikur stóðu lengur“ (57). Hún hefur aðlagað sig að Jónasi til að forðast missætti og týnt sjálfri sér. Óskir hennar um að fara á tónleika og ferðast til sólarlanda eru virtar að vettugi, hann hefur áhuga á öðru og sinnir því, hagsýnn og handlaginn maður sem heldur sig dögum saman í sumarbústaðnum, alsæll að dytta og dunda. Og Imba hefur ekki dug til að standa með eigin sannfæringu og löngunum: „Ég þagði og sneri mér undan en mig langaði mest til að segja honum að fara með þennan bústað til andskotans“ (107).
Sár tilfinningin frá bernskuárunum hefur haldið Imbu niðri í gegnum árin og „Ekki vera sár“ er frasi sem Jónas hefur notað á hana til að bæla vilja hennar og hafa sitt fram. Þegar gamalt leyndarmál úr hjónabandinu dúkkar upp er erfitt að finna til samúðar með Imbu. Hún hefur alltaf lifað í læðingi, valið öryggi umfram frelsi. Hvenær fær hún nóg? Dætur hennar og vinkonur eru miklu sterkari en hún en þær eru bara skuggamyndir. Leyndarmálið verður þó til þess að hvörf verða í sögunni.
Hlýleg nostalgía einkennir þessa skáldsögu Kristínar Steinsdóttur sem lýsir stöðu margra þeirra sem ekki hafa fylgt hjarta sínu í lífinu. En sagt er frá vonbrigðum, þunglyndi og ósigrum á yfirvegaðan hátt svo allt verður eins og blíðalogn. Samtöl eru yfirleitt rakin í óbeinni ræðu, sjaldnast er dvalið við tilfinningar, hugsanir eða atburði eða kafað undir yfirborðið né nokkuð undanskilið sem tvíræðni eða tilefni til túlkunar. Ekki aðeins er Imba bæld heldur er textinn bældur líka, einkum í seinni hluta bókarinnar.
Hlutskipti eldra fólks í firrtum nútíma hefur verið nokkuð til umfjöllunar í skáldsögum síðustu ár. Halldóra Thoroddsen, Álfrún Gunnlaugsdóttir og fleiri hafa fjallað um þetta efni sem brýnt er og gott. En það má ekki vanta storma, blóð, ögrun og uppreisn í form né efni.
Myndir: forlagid.is, islit.is