SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir20. október 2021

„ÉG GÆTI ALDREI SKRIFAÐ UM EITTHVAÐ SEM MÉR LEIDDIST“ - Viðtal við Kristínu Steinsdóttur

 
Kristín Steinsdóttir hefur verið starfandi rithöfundur í yfir þrjá áratugi og er margverðlaunuð fyrir verkin sín. Hún er einkar fjölhæfur höfundur en hún hefur sent frá sér bækur fyrir börn og fullorðna auk leikrita sem hún skrifaði í samvinnu við Iðunni systur sína. Verk Kristínar hafa flakkað víða um heim og verið þýdd á ensku, þýsku, dönsku, finnsku og litháensku svo eitthvað sé nefnt. Hún hóf ferilinn sem barnabókahöfundur og leikritaskáld en líkt og hún lýsir í viðtalinu kom það mörgum í opna skjöldu þegar hún skrifaði sína fyrstu bók ætlaða fullorðnum lesendum mörgum árum eftir að hún hóf rithöfundarferilinn. Við kíktum í kaffi til Kristínar einn bjartan haustdag og spjölluðum við hana um höfundarverk hennar, skemmtilegar og áhugaverðar persónur sem hún hefur skapað og þörfina fyrir að rétta hlut þeirra sem ýtt hefur verið út á jaðar samfélagsins og ljá þeim rödd í sögum sínum.
 
Hefurðu alltaf haft þörf fyrir að segja sögur?
 
Já ég held það. Ég er alin upp á sögum og byrjaði mjög snemma að segja þær. Móðir mín var mikil sögukona. Það var enginn leikskóli á Seyðisfirði þegar ég var að alast upp en mamma gat haldið villtustu náungum alveg slökum með því að segja sögur. Hún sagði svo skemmtilega frá og hún kunni bæði stuttar sögur sem hún byrjaði á með litlu krökkunum og svo kom hún með lengri sögur og mjög langar sögur ef við vorum veik og leiddist að liggja heima.
 
Þetta að segja sögu, maður fékk það bara inn með móðurmjólkinni, fiskinum og kartöflunum. Ég áttaði mig líka á því seinna að ekki höfðu allir verið jafn heppnir með mömmu og ég. Hún var engu lík. Við systkinin höfum öll verið í einhvers konar listum ef ekki rithöfundar þá ljóðskáld, þýðendur og tónlistarmenn. Þannig er ég viss um að uppeldið hefur mótað okkur mjög mikið.
 
Þín fyrsta bók, hin stórskemmtilega barnabók Franskbrauð með sultu, vann Íslensku barnabókaverðlaunin 1987. Hafði sú saga verið lengi í smíðum?
 
Nei. Ég má eiginlega ekki segja það en það var þannig að Iðunn systir mín, sem var farin að skrifa barnabækur, hringir í mig 1987 rétt eftir áramót og segir: „Krilla, nú uni ég þessu ekki lengur. Vaka Helgafell er að auglýsa samkeppni um barnabækur, þetta er gullið tækifæri. Ef ég get skrifað getur þú það líka. Sestu nú niður og skrifaðu, þú getur þetta.“ Ég var á leiðinni í messu með eldri son okkar Jóns því hann átti að fermast um vorið. Við fórum í kirkjuna og ég vissi ekkert hvað gerðist því ég sat allan tímann og var að skipuleggja bókina. Ég vissi að hún átti að gerast á Seyðisfirði og hvernig ég vildi hafa hana og svo var bara að byrja. Á þessum tíma er ég að kenna í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og við vorum með þrjá krakka og auk þess bjó hjá okkur móðursystir Jóns, yndisleg gömul kona sem átti engin börn og við tókum til okkar þegar hún varð ekkja. Hún var hjá okkur þangað til hún dó eða í sex ár. Varð amma barnanna okkar. Svo heimilið var nokkuð þungt og ekki mikill tími aflögu til að skrifa en ég náði inn áður en fresturinn rann út. Ég gleymi því aldrei þegar ég fékk upphringinguna, það var alveg ótrúlegt!
 
Skipti viðurkenningin þig miklu máli?
 
Já, þetta var óskaplega mikil hvatning en líka dálítið erfitt í byrjun, því ég mátti ekki segja frá. Það liðu margir dagar, kannski vikur, mér fannst það vera ár! Þá var niðurstaðan kynnt og bókin kom út samdægurs. Þetta var mikil hvatning en um leið getur verið svolítið hættulegt að slá í gegn á þennan hátt því þá er eftirleikurinn erfiðari. En ég hugsaði ekkert um það þá. Þetta var allt svo nýtt og spennandi. Brian Pilktington sá um að myndskreyta þríleikinn og það var gaman að kynnast honum.
 
Það áttu eftir að koma út tvær bækur til viðbótar um Lillu, Kötu, Möggu og persónurnar í kringum þær; vissir þú frá upphafi að bækurnar yrðu fleiri?
 
Já, nú var ég komin með forlag sem vildi gefa mig út og ég vildi sannarlega halda áfram. Franskbrauð með sultu gerist að sumarlagi, Fallin spýta næsta vetur og Stjörnur og strákapör ári seinna þegar Kata kemur til Reykjavíkur og heimsækir Lillu. Ég var fljót að skipuleggja bók númer tvö sem gerist á Seyðisfirði því ég sótti söguna í liðna tíð.
 
Já eru þetta ekki endurminningar að einhverju leyti?
 
Auðvitað má segja það. Stundum er sagt með réttu að höfundar séu alltaf að skrifa um sjálfa sig!
 
Þurftir þú kannski oft að verjast hrekkjusvínum með naglaspýtum eins og stelpurnar í bókunum?
 
Já, kannski voru það ekki naglaspýtur en við lömdum frá okkur með spýtum. Það varð einhvern veginn að halda hrekkjusvínunum í skefjum. Þau gátu verið býsna erfið!
 
Getur þú sagt okkur frá samstarfi ykkar systra?
 
Við unnum mikið saman við leikritagerð og þau voru það fyrsta sem ég sendi frá mér en ég var búin að skrifa nokkuð lengi fyrir skúffuna. Þannig kom ég eiginlega út úr þeim skápi ef svo má segja. Þessi vinna var afskaplega skemmtileg. Ég var nýflutt heim, búin að vera lengi erlendis og bjó uppi á Skaga en Iðunn í Reykjavík. Okkur langaði alltaf til að hittast og brugðum á það ráð að skrifa saman. Þá áttum við sífellt erindi hvor við aðra. Iðunn kom upp á Skaga og við reyndum að finna afdrep þar og ég fór til Reykjavíkur. Símareikningarnir voru líka býsna háir! Stundum leigðum við okkur sumarbústað, vorum þar viku og viku og unnum vel. Það var mikið fjör og tíminn nýttur alveg í botn. Upp úr þessu varð til fyrsta leikritið okkar Síldin kemur og síldin fer. Það var frumsýnt hjá Leikfélagi Húsavíkur 1986 og sló í gegn. Þvílík upplifun og mikið sungið! Iðunn samdi texta við lög frá síldarárunum. Þetta leikrit var leikið mjög víða, hjá áhugaleikfélögum, eiginlega hringinn í kringum landið og fór alla leið til Færeyja. Seinna tók Leikfélag Reykjavíkur það upp sem Síldin er komin við lög og texta Valgeirs Guðjónssonar. Það var sýnt í Skemmunni sem var vestur á Melum en seinna rifin. Auk þessa skiluðum við inn þremur útvarpsleikritum í samkeppni sem útvarpið efndi til: 19. júní, Enginn skaði skeður og Fugl í búri. 19. júní bar sigur úr býtum en leikritin voru öll leikin í útvarpinu. Um svipað leyti er ég svo að skrifa Franskbrauð með sultu. Ég verð bara lafmóð þegar ég hugsa um þetta. Við systur höfum haft svona ofboðslega mikið að segja!
 
Þjóðsögur og þjóðtrú blandast gjarnan inn í barnabækurnar þínar, til dæmis má minnast bókarinnar Draugar vilja ekki dósagos (1992) þar sem að stelpan Elsa kynnist draugnum Móra og sögunnar Krossgötur (2000) þar sem unnið er með tiltekna þjóðsögu. Hver er ástæðan fyrir því að þú kýst að vinna með og nútímavæða þjóðlegt efni?
 
Kannski er þetta kennarinn í mér. Ég var fyrst í Kennaraskólanum og síðan tók ég háskólagráðu eða BA-gráðu í þýsku og dönsku og var að kenna í framhaldsskóla. En ég las óskaplega mikið af þjóðsögum sem barn. Þær voru alltaf við hendina og hægt að grípa í þær. Í sagnaheimum mömmu var líka oft farið í þann grunn að sögurnar væru á mörkum þess yfirskilvitlega. Og þetta sýjast inn í mig þannig að þegar ég fer að skrifa barnabækur finnst mér mjög gaman að fara inn í þessa heima og gera þá aðgengilega fyrir krakka. Ef við viljum einblína á kennarann þá er greinilegt að ég er að reyna að miðla gömlum arfi en um leið er ég að skemmta sjálfri mér. Ég gæti aldrei skrifað um eitthvað sem mér leiddist.
 
Þú hefur skrifað barnabók um vesturfarana, Vestur í bláinn (1997), og einnig bókina Vítahring (2004) sem byggir á Íslendingasögu. Finnst þér mikilvægt að kynna fortíðina fyrir börnum?
 
Í Vítahring er ég auðvitað að fara inn í Harðar sögu. Við bjuggum á Skaga, göngin voru ekki komin og sögusvæðið ljóslifandi þegar fjörðurinn var ekinn. Mig langaði til að skilja fólkið, glæða persónurnar lífi, skrifa um Grímkel sem syndir sannarlega til lands með Helgu, móður sinni og Birni litla bróður. Þegar saga er samin og í raun um hvað sem er, verður ævinlega að skapa persónur og þarna voru það Helga og Grímkell sem ég glímdi við. Það var mikið ævintýri. En ég var nokkuð lengi að þessu því ég varð auðvitað að lesa söguna aftur og aftur, fara inn í Hvalfjarðarbotn, ganga upp Helguskarð eða örmjótt, bratt klifið og sigla út í hólmann. Leggja niður fyrir mér hvernig þetta gæti hafa verið. Börnin mín vildu heyra þessa sögu aftur og aftur þegar þau voru lítil og við ókum þarna um. Ég held að krakkar hafi bara gott af því að lesa um þetta.
 
Vestur í bláinn var svolítið öðruvísi. Þá fór ég til Kanada og fannst mjög áhugavert að kynnast landnemabyggðunum. Sagan er fantasía; stúlka fer aftur til fortíðar í gegnum málverk á sýningu. Þannig gat ég farið alla leið, látið stúkuna vera á staðnum, upplifa landnemabyggðina og þá gleði og þær sorgir sem fólkið þar bjó við.
 
Finnst þér vera mikill munur á því að skrifa fyrir börn og fullorðna?
 
Já það er töluverður munur en ekki síður vandaverk. Í dag hafa viðhorfin vonandi breyst en áður heyrðist oft að þetta væru nú bara barnabækur, kerlingar að skrifa fyrir krakka. Okkur þótti það ósanngjarnt og stofnuðum SÍUNG, Samband íslenskra barna og unglingabókahöfunda. Við unnum vel og vöktum athygli á þessari bókmenntagrein, fannst ósanngjarnt hvað við fengum lítið þegar kom að því að veita úr Launasjóði rithöfunda.
 
Mér gafst alltaf vel að láta eitthvað gerast með hvelli í byrjun bókar, gott að fanga krakkana og halda þeim. Auðvitað verður líka að halda fullorðnum lesendum við efnið en á annan hátt. Ég bjó vel að því að hafa skrifað fyrir börn þegar ég sneri mér að fullorðinsbókinni og nýt þess sem aldrei fyrr að blanda saman börnum og fullorðnum í bókunum mínum.
 
Engill í vesturbænum (2003) markar dálítil tímamót á ferli þínum því hún er bæði fyrir börn og fullorðna.
 
Það er hárrétt. Engill í vesturbænum markar ákveðin skil því um leið og ég er flutt til Reykjavíkur kemur öðruvísi bók. Mér fannst óskaplega gaman að skrifa hana, skrifa sögur sem drengurinn Askur segir og láta hann upplifa eitthvað nýtt á hverri opnu. Það þýðir þó ekki að maður geti sleppt sér lausum, þræðinum verður að halda. Það getur verið nokkur kúnst og þetta form krefst mikils af höfundi. Myndlýsing Höllu Sólveigar Þorgeirsdóttur styður líka mjög vel við sögurnar og við unnum vel saman.
 
Sólin sest að morgni (2004) kallast á við Engil í vesturbænum því þar birtast okkur minningabrot - eins konar örsögur eins og segja má að séu líka í Engli í Vesturbænum.
 
Ég ætlaði einmitt að koma að því að þegar ég fer að skrifa fyrir fullorðna þá byrja ég á því að skrifa, Sólin sest að morgni, sem gengur mér í hjartastað. Þótt ég geti ekki gert upp á milli bókanna minna sækir Sólin alltaf á mig því hún segir frá æsku minni og heimi sem einu sinni var. Mér finnst bernskan og æskan leita meira á mig í dag heldur en þegar ég var yngri. Ætli það séu ekki einhver ellimörk!
 
Ég las stundum upp úr Sólinni en gat aldrei lesið seinni kaflana því þeir eru svo raunalegir, þegar mamma er að deyja. Ég var að hluta til að reyna að skrifa mig frá því. En það gekk á ýmsu áður en þessi bók leit dagsins ljós.
 
Nú! Kom það lesendum á óvart að þú sendir frá þér bók sérstaklega ætlaða fullorðnum lesendum?
 
Nei, það voru kannski ekki lesendur mínir heldur forlagið. Ég hafði gert það gott í barnabókunum og afhverju ekki að halda sig við þær. Það voru allir mjög góðir við mig en vildu ráðleggja mér; væri ekki bara gott að halda áfram á sömu braut og ég hafði verið á? Margverðlaunuð konan! Og ég skil það að mörgu leyti. Þegar ég var eiginlega alveg búin að leggja árar í bát og ég held að ekkert verði úr útgáfu kemur nýr ritstjóri á forlagið sem fær handritið til sín og hringir í mig. Þetta var kona og nú var ákveðið að bókin kæmi út. Mér þótti mjög vænt um það. Það er líka skemmtilegt að bókin er í senn lítið myndaalbúm. Þegar ég var að lesa upp úr henni voru margir sem töluðu um að þeir þekktu senur, þekktu greiðsluna og fatnaðinn. Svona var þetta og svona var hitt og þeir hafi jafnvel farið að skoða eigin fjölskyldualbúm í framhaldi af lestrinum. Ég held mikið upp á það knappa form sem ég vann með í bókinni og er alltaf með það í huga - hvað sem verður.
 
Það er eftirtektarvert hversu margar sögulegar skáldsögur þú hefur skrifað og þá er einkar athyglisvert að þær gerast á ólíkum tímum. Til dæmis má nefna að Vítahringur gerist fyrir meira en þúsund árum, Bjarna-Dísa á sér stað fyrir austan í lok átjándu aldar; Vonarlandið gerist í Reykjavík á 19. öld og nýjasta bókin þín Yfir bænum heima gerist fyrir miðja síðustu öld. Finnst þér ekkert mál að flakka svona fram og aftur í tíma?
 
Það er ekki erfitt í sjálfu sér að flakka fram og aftur í tíma en það krefst meiri undirbúningsvinnu. Til dæmis má nefna Vonarlandið. Þar þurfti ég að setja mig mjög vel inn í hvernig lífið hafði verið á þessum tíma í Reykjavík. Mátti ekki detta inn í vitlausan tíma! En þá er ég komin að sjálfselskunni því mér finnst þetta svo skemmtilegt að það er engin kvöð. Persónurnar þurfa að vera holdi klæddar en eru allar skáldaðar. Þar hef ég ekki eina einustu manneskju sem fyrirmynd. Allt er þetta mikil vinna en líka skemmtileg þegar vel gengur.
 
Þú hefur skrifað um persónuna Bjarna-Dísu sem einnig er til þjóðsaga um en í þínum meðförum er saga hennar dálítið önnur en í þjóðsögunni, getur þú sagt okkur hvers vegna?
 
Ég vildi réttlæta Dísu því ég var reið. Það skipti mig miklu máli að standa með Dísu gegn þeirri einsleitu mynd sem við fengum af henni þegar ég var ung. Eins og þá að hún hafi verið mikil hofróða, verið svo fín með sig að hún klæddi sig ekki eins og manneskja þegar hún fór upp á heiði. Trúi nú hver sem vill! Sagan gerist um hávetur árið 1797 í grimmdargaddi og auðvitað klæðir hún sig eftir föngum. Í einni heimild er talið að hún hafi hugsanlega verið of mikið klædd. Svitnað í öllu dúðinu. Leyfum Dísu að óska sér fallegra fata og þess að hún hafi viljað líta vel út þótt hún sé bara vinnukona en hún er ekki svo vitlaus að fara í skyrtugopa upp á heiði. En svona var talað um hana, það fann ég með því að lesa mér til. Svo gef ég í og veit ekkert lengur hvað er satt og hvað ekki en ég geri það eins trúverðuga og mér er unnt. Og bara svo því sé haldið til haga eru lokin algjörlega samkvæm Ministerialbók Dvergasteinsprestakalls; þar sem segir: „Þórdís Þorgeirsdóttir 24 ára og frá Austdal. Fraus í hel á fjöllum uppi 28. nóvember 1797. Fannst með lífsmarki en dó áður en til byggða komst.“ Þetta er að hluta til satt, því hún dó áður en hún komst til byggða en hún var drepin. Presturinn segir það ekki, aðeins að hún hafi fundist með lífsmarki en dáið áður en til byggða komst. Ég skrifa í bókina:
 
„Snjórinn var blóðlitaður eftir átökin. Áverkar á líkinu. Var sýslumaður kallaður til? Skoðaði hann verksummerkin á heiðinni? Trúði hann á afturgönguna – eða stóð honum alveg á sama um hvað gerðist?“
 
Það er þetta sem mig langar til að fólk velti vöngum yfir. Þetta kemur auðvitað líka inn á stéttamuninn í sögunni, því Bjarna-Dísa er af lægri stétt og það sama má segja um Vonarlandið. Þú ert að taka fyrir þjóðfélagshópa sem eru í aukahlutverki og rétta hlut þeirra. Það hefur alla tíð búið með mér að gera það.
 
Bókarkápan á Bjarna-Dísu er líka sniðug, landið og stúlkuandlit sameinast í landakorti.
 
Já, mér finnst útfærslan á kápunni á Bjarna-Dísu ótrúlega flott. Það er Alexandra Buhl sem hannaði hana, líka saurblöðin. Við erum mjög góðar saman. Varðandi söguna sjálfa má með nokkrum sanni segja að þetta sé söguleg skáldsaga en í mínum huga er hún ekki síður skáldsaga.
 
Svo þér finnst þú ekki vera bundin heimildum, þær eru kannski bara stökkpallur fyrir frekari sköpun?
 
Jú, ég er sannarlega bundin heimildum því ég passa mjög vel uppá að skálda söguna þannig að menn séu ekki allt í einu farnir að éta pítsu eða gera eitthvað sem er alveg út í hött. Svoleiðis vinnubrögð væru náttúrlega út úr kortinu og ég hef tamið mér að hafa alltaf í huga, sé ég að skrifa um eitthvað sögulegt, að það sé eftir bestu vitanlegum heimildum þó ég leiki mér líka með þær. Tíðarandinn verður að passa, ég læt persónur ekki gera og segja eitthvað sem væri óhugsandi. En ég leyfi mér jafnframt að skella á skeið.
 
Bækurnar eru eins og börnin manns og ég er alltaf hrædd við að stíga feilspor. Þótt ég sé búin að skrifa mikið er samt eins og ég verði aldrei fullkomlega sjóuð, svo ég sé nú einlæg. Ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég var hrædd við læknabatteríið þegar ég skrifaði Ljósu. Þar er ég að skrifa um sjúkdóm, sem var og er, hræðilegur. Og ég var hrædd um að stíga feilspor, misstíga mig í frásagnargleðinni og falla út úr tímanum sem ég vann með. Ég reyni alltaf að gæta þess að hafa einhverja með mér í för sem lesa handritið yfir, ekki bara forlagið, því þótt ég sé með afbragðs ritstjóra vil ég líka hafa sýn einhvers sem er inni í greininni ef svo má segja. Það er erfitt þar sem Bjarna-Dísa á í hlut. Þar varð ég að fara inn í þjóðsöguna, láta það sem ég skrifaði um falla að tímanum og gera það um leið áhugavert.
 
Í Ljósu er ég að skrifa um geðsjúkdóm en ég er svo lánsöm að eiga bróður sem er geðlæknir og þýðandi. Hann las yfir fyrir mig, og jú, jú það var eitt og annað sem hann sagði að ég skyldi hugsa betur um en ekki margt.
 
Í formála að nýjustu bókinni þinni, Yfir bænum heima, kemur fram að þig hafi lengi langað til að skrifa um stríðið. Hvers vegna heldur þú að þetta söguefni hafi leitað svona sterkt á þig?
 
Ég var alin upp á þessum sögum. Stríðið lifði sterklega í hugum manna. Seyðisfjörður hefur þannig legu og Austfirðir hafa alltaf verið í miklu sambandi við útlönd. Ég læt persónu í bókinni segja: „blessuð þokan“. Það lifði hjá mömmu löngu eftir að stríðinu lauk, nákvæmlega það sem hún gerði þegar við drukkum kvöldkaffið einu sinni sem oftar. Þá man ég eftir henni við borðstofugluggann þar sem hún er að draga fyrir og blessuð þokan er komin alveg niður í garð. Þokan fékk auðvitað sína blessun því þá var engin hætta á að loftárásarmerki yrði gefið og menn þyrftu að fara í kjallarann um miðja nótt. Óttinn við þýskar flugvélar sveimandi yfir sat enn í brjóstinu.
 
Það var gaman að skrifa þessa bók. Ég var með góða heimildarmenn fyrir austan og líka hér syðra. Þeir eiga heiður skilinn. Jóhann Sveinbjörnsson var minn helsti mentor, hann man þetta allt, segir vel frá og gerði alla hluti lifandi. Systir hans Inga Hrefna gerði það líka. Það hjálpaði mér mikið. Svo hafði ég fangið fullt af gömlum sögum.
 
Myndin sem þú dregur upp af samskiptum íslenskra kvenna og hermanna er dálítið önnur en þekkist í mörgum öðrum íslenskum skáldsögum.
 
Já, hermennirnir voru að hluta til bara hræddir strákar og oftast mjög kurteisir. Þeir máttu ekki drekka og dönsuðu vel þannig að stelpurnar sem höfðu kannski alltaf setið og vermt bekkina voru á dansgólfinu allt kvöldið. Mömmu fannst eðlilegt að stelpurnar dönsuðu og eignuðust þá að vinum. Sumar eignuðust börn en ekki nærri því allar. Hún talaði fallega um þessi sambönd. Þetta gerðist áður en ég fæddist en ég er alin upp við að þetta hafi verið eðlilegur hlutur og að margir hermenn hafi orðið heimilisvinir bæjarbúa. Það var raunalegt þegar þeir voru fluttir til og fólk átti ekki von á að sjá þá nokkurntíma aftur sem var líka raunin í flestum tilvikum.
 
Þegar ég var að lesa upp úr bókinni kom aftur og aftur í ljós að fólk vissi ekki hvernig stríðið hefði verið á Seyðisfirði og hélt jafnvel að þetta væri ofsögum sagt. En það segir sig sjálft að þegar hermenn í þúsundatali flytja inn í bæjarfélag þar sem nokkur hundruð manns búa fyrir gerist það ekki án breytinga. Þarna bjó venjulegt fólk sem lenti í óvenjulegum aðstæðum og mig langaði í þessari bók, alveg eins og í Bjarna-Dísu, að rétta myndina af. Mér finnst þessar endemis ástandssögur hvimleiðar. Það er mynd sem mig langaði að berja niður á kurteisan hátt en ekki með einhverjum bægslagangi.
 
Það er gaman að allt frá útgáfu Franskbrauðs með sultu hefur Seyðisfjörður og Austurland ratað mikið inn í bækurnar þínar, hvernig stendur á því? Er það bernskan, uppruninn?
 
Ég held það. Ég hef einmitt verið að hugsa um þetta. Ég á svo erfitt með að slíta mig frá Austurlandi. Það tekst alveg í bókinni Ekki vera sár (2017) þá tókst mér að fara alfarið suður, það var ákveðið afrek!
 
Skáldsagan Á eigin vegum (2006) er algjör perla; getur þú sagt okkur aðeins frá þessari sögu og hvernig hugmyndin að henni kom til þín?
 
Mér þykir óskaplega vænt um þá bók. Aðalpersónan, Sigþrúður, er mikil hversdagsvera en samt svo rík. Það er oft þannig þegar ég byrja að skrifa, að ég finn innra með mér hvernig sagan á að vera. Þetta er kannski illskiljanlegt en ég veit ekki hvernig ég gæti tjáð tilfinninguna öðruvísi. Ég vissi bara með sjálfri mér að Sigþrúður, sem var svo minnimáttar og jafnvel hálfgerð skuggavera, var samt óskaplega nægjusöm og glaðlynd. Ég sá hana alltaf þannig fyrir mér og sé hana enn. Það var mjög gaman að vera með henni. Þegar ég skrifaði bókina fékk ég inni í Kjarvalsstofu í París og var þar í tvo mánuði með þetta söguefni í farteskinu. Ég tala ekki frönsku, nema bara menntaskólafrönsku, og Frakkar eru hvorki ginnkeyptir fyrir ensku né þýsku svo í París var ég sjálf hálf utangátta. Kannski var ég dálítið eins og Sigþrúður, varð hún. Og okkur kom vel saman!
 
Svo er annað sem ég ætla að segja ykkur sem ég hef ekki sagt frá áður en Sigþrúður er með visna vinstri hönd og það er hennar vandamál að hluta til en hún vinnur úr því eins og öllu öðru því hún er svo vel gerð. En þetta þekki ég afskaplega vel því ég er sjálf með svona hönd. Þið sjáið stærðarmuninn, þessi hönd er alveg eðlileg en hin er lítil og grönn. Þegar ég fæddist voru fingurnir samvaxnir en ég fór í aðgerð átta ára gömul. Það er enn of stutt á milli fingranna. Ég átti að koma aftur og fara í uppskurð þegar ég væri fullvaxin en ég fór aldrei. Mér fannst þetta ekki skipta máli, höndin yrði hvort sem er alltaf öðruvísi. Þegar ég var ung og langaði til að hafa langar, naglaðar neglur var þetta erfitt en ég er löngu hætt að hugsa um það.
 
Þetta er ég að segja því Sigþrúður er með visna hönd eða svokallaðan „selshreifa“ og ef þið flettið í gegnum ýmsar sögur, þá var það stundum kallað svo þegar börn fæddust með vanskapaðar hendur og mæðrum þeirra átti að hafa brugðið við að sjá sel á meðgöngunni. Ég kýs að láta mína konu vera með svona hönd en hún plummar sig engu að síður. Og mér þykir innilega vænt um hana.
 
Hvort sem um er að ræða barnabækurnar þínar eða bækur ætlaðar fullorðnum þá birtast okkur gjarnan mjög sterkar og áhugaverðar kvenpersónur – hvers vegna?
 
Finnst ykkur það of áberandi?
 
Nei alls ekki, en er þetta eitthvað sem er með ráðum gert eða gerist það bara?
 
Þetta gerist. Ég hef náttúrulega aldrei verið karl, ætli það sé ekki að einhverju leyti því um að kenna?! Ég hugsa eins og kona. En ég hef líka velt því fyrir mér hvort fólk sakni karlanna vegna þess að það er svo eðlilegt fyrir mig að skrifa um konur. En ég reyni alltaf að skapa persónur sem eru ekki einsleitar. Steríótýpur fara voðalega í taugarnar á mér. Ég gerði það til dæmis meðvitað í Ljósu og lagði þar mikla hlýju í Vigfús sem Ljósa var gift. Af því að ég held að sá maður hafi verið búinn að ganga í gegnum mjög margt. Ég dáist að manni sem getur búið við svona geðsveiflur alla tíð og engin lyf sem gagnast. Þarna er Kleppur kominn og hann hefði getað sent hana suður á Klepp og þá hefði hann vísast aldrei séð hana aftur. En hann gerir það ekki. Það er ást og að einhverju leyti virðing. Þegar ég var að skrifa lokin á bókinni þá hugsaði ég mikið um þetta og ef ég les smá brot:
 
„- Amma hættu að öskra. Aumingja afi er farinn í gamla bæinn, hann þolir ekki lætin í þér. - Hættu strax að lemja, þú færð hvort sem er ekkert að fara út. Þegar sumarið kemur og þú ert orðin róleg förum við í göngutúr og ég leiði þig. Hlustaðu á mig! Þá máttu líka borða með okkur. - Ég er alveg hjá þér hinum megin við vegginn. Gerðu það, amma mín. Vertu nú stillt. Litla barnið hennar Hafdísar er dauðhrætt við þig. - Amma, hættu að sparka í vegginn annars fer ég.“
 
Þarna sjáum við að komið er barnabarn sem bregður upp mynd af lífinu. Þá finnst mér að allt fólk á bænum fái kredit fyrir að hafa hana og þar með talinn Vigfús. Þó ég segi það ekki þá vona ég að það skiljist. Ég skal samt alveg viðurkenna að konurnar koma til mín og eiga við mig erindi og mér finnst það bara allt í lagi. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á heilu kyni, okkur konum! Ef ég hef áhuga fyrir að skrifa að mestu leyti um þær þá veit ég að aðrir hafa áhuga á að skrifa um karla og það er bara allt í lagi. Það kann að vera að einhverjum finnist þetta of einhæft, þeir um það.
 
Þú byggir skáldsöguna Ljósu á ævi ömmu þinnar og fjallar þar einmitt listavel um geðveiki og hvernig komið var fram við geðveikt fólk áður fyrr. Hvernig vannstu þessa sögu og afhverju ákvaðstu að segja hana?
 
Jú, amma mín var með geðhvarfasýki á háu stigi og þetta er á þeim tíma þegar ekki voru til nein lyf sem gögnuðust. Ég las mér mikið til um hvernig þetta var og hvernig var farið með fólk. Og meðferðin var oft skelfileg. Það eru til sögur um að fólk hafi verið bundið á bás úti í fjósi eins og gripir eða sett í dárakistu, nokkurs konar geðveikrastofu. Þessi amma mín fæddist 1874 og hún deyr 1938 svo það er ekki langt síðan. Þetta var voðalegur kross að hafa inni á heimili, það segir sig sjálft. Pabba þótti mjög vænt um mömmu sína, stundum var hún í lagi og stundum ekki. Stundum lá hún með breitt upp fyrir höfuð og stundum reið hún út og týndist. Það var svo mikill kraftur í henni þegar hún var uppi. En pabbi vildi aldrei ræða um hana og sagði alltaf „elsku Kristín mín, hún mamma var svo falleg og svo góð“ og svo sagði hann ekkert meira því þetta hafði náttúrulega verið skelfingarástand.
 
Ég var efins um hvort ég ætti að skrifa þetta vegna ættingjanna því það myndi nú kvisast að þetta væri amma okkar. Ég bar þetta undir nokkra sem voru því fylgjandi að ég skrifaði söguna og ég hef aldri heyrt styggðaryrði frá neinum í fjölskyldunni og heldur ekki frá læknunum um að ég hafi farið rangt með. Þessi bók gekk mjög vel, var mikið lesin, lofuð og verðlaunuð og hefur verið þýdd á erlendar tungur. Svo ég held að ég hafi bara gert rétt.
 
Stundum er sagt að starf rithöfundarins geti verið einmanalegt, ertu sammála því?
 
Þegar ég er að skrifa er ég með persónunum. Þegar við Sigþrúður vorum í París þá vorum við saman úti að strolla. Hún kom með mér á kaffihús og í göngur. Þannig hef ég félagsskap en ég man samt eftir því að þegar ég hætti að kenna, þá saknaði ég samveru með öðrum kennurum. Mánaðarlega hitti ég hóp skáldkvenna og við borðum saman. Sá hittingur hefur verið okkar leið til að brúa þetta bil. Starfið getur orðið einmanalegt, ég tala nú ekki um sé maður er að skrifa um eitthvað leiðindapakk, sem ég kannast raunar ekki við því ég skrifa um þá sem mér finnst skemmtilegir og þykir vænt um.
 
Hvað er á döfinni hjá þér?
 
Mér finnst gaman að geta sagt frá því að Leikfélag Reykjavíkur er búið að kaupa réttinn að Á eigin vegum og það er verið að vinna leikgerð úr henni. Það verður ekki lítið gaman að fylgjast með Sigþrúði á sviðinu! Verkið átti að fara upp á þessu leikári en ég veit ekki hvort af því verður því öllu hefur seinkað vegna Covid.
 
Það var einkar ánægjulegt að spjalla við Kristínu um þennan glæsta og fjölbreytta feril og mikið verður gaman að fylgjast með Sigþrúði lifna við á fjölunum.
Ljósm. af Kristínu: Austurfrétt


 

Tengt efni