SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 5. desember 2020

ÞARF EKKI ALLTAF AÐ VERA FULLKOMIÐ. Árhringur

Björg Björnsdóttir. Árhringur. Ljóðræna dagsins. Reykjavík: Bjartur 2020, 40 bls.

 

 

Árhringur. Ljóðræna dagsins er heildstæð og fáguð ljóðabók eftir Björgu Björnsdóttur. Hún hefur ekki áður sent frá sér skáldverk á prenti en skrifaði stutta og skapandi texta á twitter og facebook á degi hverjum árið 2018 sem vöktu athygli og leiddi til útgáfu bókarinnar. Í viðtali við Austurfréttir 2018 var Björg spurð m.a.:

„Hvernig gekk að halda sér að verki og klára áskorunina?

„Það skal viðurkennt að sumir dagar voru erfiðari en aðrir. Þá rann það upp fyrir mér þegar ég ætlaði að ganga til náða að ég átti eftir að semja ljóðrænuna. Stundum komu hugmyndirnar af sjálfu sér, eitthvað sem ég hafði séð eða upplifað þann daginn, en stundum greip ég líka í tómt. Og þá reyndi ég að nýta mér þessa flæðishugsun, setti kannski niður eitt orð og beið svo rólega eftir því að sjá hvað það myndi fæða af sér.“

Aðspurð að því hvort Björg sjái fyrir sér að gera eitthvað með það sem komið er segir hún;

„Þetta er góð spurning sem ég hef bara ekki svar við, eins og stendur. Hver veit? Ég geri ekki ráð fyrir að halda áfram með daglegar ljóðrænur. En mig langar vissulega til að halda áfram með einhvers konar skrif. Ég mæli svo sannarlega með því að fólk opni fyrir sínar skapandi hliðar því þær höfum við öll. Það sem við gerum þarf ekki alltaf að vera fullkomið, bara einlægt og satt.“

 

Þorri og mörsugur

Ljóðin í bókinni eru í fornri tímaröð ársins, fyrsta ljóðið er á þorra og hringnum er lokað með mörsugi. Yfirborðsmyndin er kyrrlátar náttúrustemningar og lífið með sínum sársauka og erfiðu byrðum eins og gengur. Orðið árhringur vísar til hringrásar lífsins og tímans og af árhringjum trés má draga ályktanir af uppvexti þess um t.d. jarðveg og veðurskilyrði. Uppvöxtur er undirliggjandi þema bókarinnar sem einkennist af þakklæti fyrir kærleiksríkt samband föður og dóttur.

 

Að falla í gleymsku

Seinni hlutinn, Hringur, er ferðalag um tímann, ort um missi og sorg af hreinni einlægni. Gluggi æskunnar er opnaður, brotakennd innsýn í sögu föður sem ungur átti í erfiðleikum en harkaði af sér og talaði ekki um sjálfan sig, eins og tíðkaðist hjá eldri kynslóðum. Dóttir sér föður sinn hverfa inn í óminni, gleyma og verða aftur barn. Eftir situr í minni hennar allt sem tilveran var byggð á. „Öll orðin, brosin, söngurinn, / samtölin, spilin, umhyggjan, / uppeldið, lífið allt...“ (34).

 

Þá grípur mig ótti.
Tíminn að renna út
til að ræða það eina
sem skiptir máli,
sem hefði hjálpað
okkur báðum.
(38)
 

Dauðahaldið

Ort er um kynslóðir og glataðan tíma og um hvernig saga hverrar manneskju er bara brot, „frásagnir annarra og minningar hinna“ (32). Sagt hefur verið að eftir þrjár kynslóðir sé enginn á lífi sem þekkti þig, gleymskan bíði okkar allra. En jörðin snýst áfram, haldreipin trosna, ný eru hnýtt. Í brjóstinu býr atlætið í æsku, veganestið út í lífið sem dugar eftir efnum og ástæðum. Seinna kemur að sáttinni, að sleppa tökum á sorginni, kasta hamnum, losa um dauðahaldið. Sjaldan hefur það orð átt eins vel við og hér.

 

Þú ert handan við glerið,
í hjarta mér.
Ég held dauðahaldi
í glæra brynjuna.
(40)

 

 

 

 

Tengt efni