SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Björg Björnsdóttir

Björg Björnsdóttir fæddist 31. ágúst 1969 á Egilsstöðum. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1989 og síðar BA-prófi í frönsku og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands 1992, diplómunámi í hagnýtri fjölmiðlun 1993 frá sama skóla og meistaragráðu í blaðamennsku frá Centre Universitaire d‘Enseignement du Journalisme árið 1994. Árið 2013 lauk hún einnig meistaragráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands.

Framan af ferli sínum, starfaði Björg sem fréttamaður á fréttastofu Sjónvarpsins og fréttaritari í Istanbúl, Tyrklandi fyrir RÚV og aðra miðla. Þaðan lá leiðin til Parísar þar sem hún vann á Le Figaro, einu stærsta dagblaði Frakklands. Árið 1999 sneri Björg aftur til Íslands og starfaði þá við almannatengsl, fyrst hjá GSP, þá sem kynningarstjóri Þjóðleikhússins og síðar við fjárfestatengsl og viðburðastjórnun hjá Straumi-Burðarás fjárfestingabanka. Hún starfaði um þriggja ára skeið sem verkefnastjóri á skrifstofu rektors Háskóla Íslands, þaðan lá leiðin til Barnaheilla þar sem Björg sinnti kynningarmálum og viðburðastjórnun. Þá starfaði hún meðfram námi sem verkefnastjóri hjá Hannesarholti menningarhúsi.

Árið 2013 flutti Björg aftur á heimaslóðir og tók við starfi sem verkefnastjóri hjá Austurbrú en árið 2017 hóf hún störf sem mannauðsstjóri hjá Skógræktinni. Hún hefur í gegnum tíðina verið virk í ýmiss konar félagsstarfi, nú síðast sem bæjarfulltrúi á Fljótdalshéraði.

Skriftir hafa ætíð verið stór hluti af lífi og starfi Bjargar en Árhringur – ljóðræna dagsins (sjá umfjöllun á skáld.is) er fyrsta ljóðabók hennar og kom út 2020. Björg er búsett á Egilsstöðum ásamt dóttur sinni, Elísu Petru.


Ritaskrá

  • 2020   Árhringur - ljóðræna dagsins

Tengt efni