SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir25. apríl 2019

RAUNSÆISSAGA MEÐ RÓMANTÍSKU YFIRBRAGÐI. Oddaflug

Guðrún Helgadóttir. Oddaflug. Reykjavík: Vaka-Helgafell 2000, 239 bls.

 

Fyrsta skáldsaga Guðrúnar Helgadóttur fyrir fullorðna, Oddaflug, er ættarsaga með raunsæissniði. Sagt er frá stórfjölskyldu sem býr í sátt og samlyndi á jörðinni Hrauntjörn, í stóru íbúðarhúsi á þremur hæðum svo og í fjárhúsi, fjósi og hlöðu sem búið er að gera upp sem íbúðarhúsnæði. Sjónarhornið er að mestu bundið við kvenlegg ættarinnar, ættmóðurina Katrínu Ketilsdóttur, sem fædd er árið 1920, dætur hennar fjórar, Viktoríu, Vilhelmínu, Elísabetu og Júlíönu, sem allar eru fæddar á fimmta áratugnum, móður Katrínar, Brittu, og dótturdótturina, Elsu Katrínu, sem er unglingur.

Ytri tími sögunnar er samtíminn, árið 2000 (Katrín er að verða áttræð), en innri tíminn nær yfir marga áratugi því sagan teygir sig allt aftur til þeirra tíma er móðir Katrínar, Britta, var ung stúlka. Þannig spannar frásögnin sögu fjögurra kynslóða þótt það séu millikynslóðirnar tvær sem eru í brennidepli.

Það er nokkur vandi að flétta saman sögu margra einstaklinga í eina heildstæða frásögn þannig að vel takist til en þetta gerir Guðrún Helgadóttir hnökralaust, enda enginn viðvaningur á ritvellinum. Hins vegar vekur það óneitanlega athygli hversu „gamaldags“ frásagnartækni hún nýtir sér við sögugerðina; hvergi er brugðið út af raunsæislegri frásögn, alvitur sögumaður stýrir frásögninni þótt öðru hverju sé skipt á milli fyrstu persónu og þriðju persónu sjónarhorns. Reyndar er það svo að Oddaflug sver sig í ætt við íslenska frásagnarhefð eins og hún var upp á sitt besta á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar, áður en módernisminn kom til sögunnar með tilheyrandi uppstokkun á formi og söguefni. Frásagnartæknin minnir á hina eldri raunsæishefð íslenskra bókmennta (þ.e. ekki ný-raunsæið svokallaða), blandaðri rómantískri sýn, fremur en íslenskar samtímabókmenntir. Vera kann að höfundur hafi valið að fara þessa leið þar sem söguefnið er sótt að miklu leyti til fyrri hluta aldarinnar, en á hitt ber að líta að ytri tími sögunnar er, eins og áður sagði, samtíminn, og þessi aðferð virkar dálítið úr sér gengin.

Sagan sem höfundur leitast við að draga upp í þessu verki er fjölskyldusaga sem er slétt og felld á yfirborðinu, en eins og gengur blunda óuppgerð mál og sársauki, gamall og nýr, undir niðri. Í rás frásagnarinnar er smám saman flett ofan af hinu ljúfa yfirborði: engu að síður virkar hið slétta og fellda yfirborð sem lýst er stundum ‚ídelíserað‘ í meira lagi og vinnur þar með á móti því raunsæi sem virðist liggja til grundvallar frásögninni. Í fyrsta kafla sögunnar segir unglingstelpan Elsa Katrín:

 

„Lífið hefur verið alveg yndislegt og ég vil ekkert að það breytist. Hér hjá okkur hefur aldrei neitt verið að. Þó ég segi sjálf frá held ég að við hljótum að vera hin fullkomna fjölskylda“ (9).

 

Að sjálfsögðu kemur í ljós, eftir því sem sögunni vindur fram, að ýmislegt hefur verið að hjá þessari fjölskyldu eins og öllum öðrum fjölskyldum, engu að síður eru það slíkar lýsingar á fjölskyldunni sem halda sögunni saman framar öðru. Á bls. 23 segir um Katrínu:

 

„Aldrei hafði hún þurft að stríða við þau fjölmörgu vandamál sem margir foreldrar verða að fást við. Á Hrauntjörn hafði allt gengið vel og fallega. Börnin og barnabörnin höfðu þrifist og dafnað og komist til manns án nokkurra vandræða. Öll – nema Eyjólfur litli.“

 

Eyjólfur var einkasonur Katrínar og Sæmundar sem hvarf þegar hann var níu ára gamall og er dauði hans það áfall sem fjölskyldan hefur ekki að fullu komist yfir og tengjast því önnur óuppgerð mál sem leidd eru til lykta í frásögninni.

Fjölskyldan er á flestum sviðum til mikillar fyrirmyndar, Katrín og Sæmundur hafa yfirstigið stéttamun í hjónabandi sínu; hún komin af efnaðri yfirstétt en hann fátækur alþýðumaður sem gegnum eigin dugnað hefur komist í álnir. Lýsingin á Sæmundi minnir á hetjusögur sem íslenskar bókmenntir eiga ógrynnin öll af, hér er kominn ljóslifandi alþýðumaðurinn sem skákar öllum bæði í skóla og í vinnu, brýst áfram og upp á við af eigin rammleik og þrátt fyrir verstu skilyrði – og hlýtur besta kvenkostinn sem býðst. Ástarsaga yfirstéttarstúlkunnar og alþýðudrengsins er að sama skapi kunnugleg (þetta er sagan af kotungssyninum og prinsessunni) og ber engan skugga á áratugalangt hjónaband þeirra, ef frá er talinn sonarmissirinn.

Systurnar fjórar eru hver af sínu taginu; Viktoría einstæð móðir og sjálfstæður atvinnurekandi; Vilhelmína fyrrverandi þingmaður og verkakona; Elísabet hamingjusöm heimavinnandi húsmóðir sem hefur annast ungviði hinna útivinnandi systra sinna af ánægju; og Júlíana sem rekur lögfræðiskrifstofu ásamt eiginmanni sínum og syni, sem einnig eru lögfræðingar. Persónulýsingar systranna eru tengdari raunveruleikanum en hinir goðsagnakenndu foreldrar þeirra, en þó eru þær hver um sig heldur einhliða.

Vera kann að ýmsir lesendur eigi eftir að lesa sögu Vilhelmínu, sem bolað var óverðskuldað af alþingi fyrir flokk sem hefur verið leystur upp og sameinaður öðrum, saman við reynslu höfundar af svipuðum atburðum. Hér er deilt á pólitíska refskák og strákabandalög íslenskra stjórnmála og vera kann að sú ádeila eigi eftir að koma við kaunin á einhverjum.

Oddaflug er læsileg bók og flétta hennar haganlega saman sett. Hér er hins vegar hvorki lagt til atlögu við formið né tungumálið á skapandi hátt og veldur það vissum vonbrigðum því höfundur er fráleitt byrjandi á sviði ritlistarinnar þótt hér sé um hennar fyrstu skáldsögu fyrir fullorðna að ræða.

 

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu, 29. nóv. 2000

 

 

Tengt efni