MEISTARI UNDIRTEXTANS
Gerður Kristný. Sálumessa. Reykjavík: Mál og menning 2018, 87 bls.
Þegar Gerður Kristný, þá 24 ára gömul, sendi frá sér fyrstu ljóðabókina, Ísfrétt (1994), grunaði kannski fáa allar þær ísköldu gusur sem þessi unga skáldkona átti eftir að senda yfir lesendur á næstu árum og áratugum. Þó varð strax ljóst að hér var komið fram skáld sem ætti eftir að láta að sér kveða, eins og margsannast hefur. Strax í fyrstu ljóðabók Gerðar Kristnýjar koma fram mörg þau megineinkenni og stef sem setja svip sinn á mestalla ljóðagerð hennar. Meitlaðar, kaldranalegar myndir sem vísa langt út fyrir sig, tálgaður texti sem býr yfir djúpum undirtexta sem margfaldar áhrifamáttinn þótt yfirborðstextinn standi traustum fótum einn og sér.
Sálumessa
Nýjasta ljóðabók Gerðar Kristnýjar, Sálumessa, sem nýverið hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, ber öll þau einkenni sem hér hefur verið minnst á. Lögð hefur verið áhersla á að um sé að ræða ljóðabálk sem byggi á raunverulegum atburðum, að bókin fjalli um glæp sem varði unga stúlku, kynferðisofbeldi sem leiddi hana í dauðann. Eigin frásögn stúlkunnar birtist fyrir mörgum árum í greinarformi í tímariti sem Gerður Kristný ritstýrði. Fyrir glæpinn sem leiddi hana í dauðann, hefur enginn sætt ábyrgð en Gerður Kristný var hins vegar dæmd fyrir að birta frásögn hennar í tímaritinu. Sú staðreynd varpar napurlegu ljósi á kerfi og hugsunarhátt sem vonandi er á undanhaldi.
En hér er þó aðeins hálf sagan sögð því Sálumessa Gerðar Kristnýjar vísar langt út fyrir þetta einstaka mál, eins og þeir sem þekkja til verka skáldkonunnar hefðu getað sagt sér sjálfir. Ljóð Gerðar eru aldrei einföld þótt textinn kunni að virðast það á yfirborðinu og þeir sem binda lestur sinn aðeins við þetta tiltekna mál missa af þeim vef vísanna sem textar Gerðar Kristnýjar byggjast alltaf á.
Málstaður þjáðra og svikinna kvenna
„Lengi hef ég / dvalið með þér / í dysinni“ segir í upphafi Sálumessu og strax hér margfaldar Gerður Kristný tilvísunarheiminn. Dysin þar sem kona var „heygð eins og / hundur með / eiganda sínum“ með „Höfuð í landsuður“ (7-8) vísar aftur í tímann til hins þekkta Sjöundármáls og Steinunnar þeirrar sem heygð var í „Steinkudys“ á Skólavörðuholti árið 1805. Nokkrum sinnum í Sálumessu er vísað til þess máls og dregnar upp hliðstæður með því máli sem er í forgrunni bókarinnar (sjá bls. 42-43, 46-47). Ljóst má vera að skáldkonan vill kveða sálumessu yfir öllum þeim fórnarlömbum sem sagt hafa sig „úr lögum / við lífið“ sökum óbærilegra harma og sofnaði „Svefni / hinna dauðu“ (33). Það er málstaður allra þjáðra og svikinna kvenna sem hvílir á ljóðmælanda sem hikar ekki við að vísa til píslarsögu mannssonarins:
Vissulega varstumannsdóttirinsem var fórnaðSaga þinbirtist svo hversem á hana trúirglatist ekkiHyllið dótturina,þið dómarará jörðu! (53-53)
„Gleymir mér / heimur // Daprast mér draumar (83)
En skáldið vill að sjálfsögðu heiðra sérstaklega minningu þess fórnarlambs sem á söguna sem vísað hefur verið til í kynningu á bókinni og halda minningu hennar á lofti. Lesanda er gefið færi á að setja sig í spor hennar og upplifa hryllinginn. Fyrsti hluti bókarinnar bregður upp kaldri bæjarmynd á aðventu þar sem fegurð og skelfing leikast á: „Stjörnur / úr járni / lýstu upp stræti [...] Það hvein / í ísnum undan / skautum barnanna // eins og / hníf væri / brugðið á brýni“ (12-13). Stúlkan er ávörpuð og aðstæðum hennar lýst, hún býr í hljóðu og myrku húsi, þar sem grýlukerti vaxa fyrir glugga og horfir „út um / vígtenntan skolt vetrarins“ (15). Síðar hverfur hún að fullu „inn í vetrarríkið“ (35).
Helvíti, hér er sigur þinnDauði, hér er broddur þinn (44)
Sakleysið og illskan
Eitt áhrifamesta stílbragðið í Sálumessu er hvernig Gerður Kristný vefur endurtekið saman illsku og sakleysi. Myndir af börnum að leik er stefnt gegn óhugnaðinum. Níðingurinn neytir færis þegar hann kennir barninu að lesa (17) og bernskan verður „botnfrosin tjörn“ (19). Þegar hún heyrir köll í börnum sér hún eitt andartak „hver [hún] / hefðir getað orðið“ (23).
Sorgin og reiðin
Það er mikil sorg í Sálumessu – og reiði sem bálast upp í ljóðmælanda. Reiðin beinist beint gegn gerandanum, bróðurnum sem ljóðmælandi dæmir „til / sjógangs“, eins og lýst er í mögnuðum kafla (61-71). En reiðin beinist einnig gegn öllum gerendum og fórnarlömb þeirra sameinast í mögnuðum kór:
Hundruð hausasyngja þérsálumessustjaksettir strjúpar (57)
„Það vantar orð“
... segir í lokalínu ljóðabálksins og áður höfum við lesið:
„Það vantar orð yfir skelfinguna sem hríslast eins og snjóbráð niður eftir hryggnum“ (25)„Það vantar orð yfir tímann sem það tekur harm að hjaðna“ (39)„Það vantar orð yfir kuldann sem nístir okkur þegar vinir deyja“ (59)„Það vantar orð yfir kvíðann þegar við óttumst að fenni yfir minningarnar“ (73)„Það vantar orð yfir snjóinn sem sest á örgranna grein bjarkar í stingandi stillu“ (85)
Þessar setningar marka kaflaskil í Sálumessu og fara stundum saman með orðum úr framandi málum sem tjá gleðilegri tilfinningar. Gagnvart grimmd og ofbeldi verður mörgum orða vant en Gerði Kristnýju hefur tekist vel að orða tilfinningar sem vakna í slíkum aðstæðum. Þá leggur hún einnig til ný orð og myndræn orð: Rökkurnökkvi og myrkurkirkja.
Hér gefst ekki færi á að kafa í nánar ofan í magnaðar myndir og djúpan tilvísanheim Sálumessu en rétt að ítreka að ljóðin verður að lesa og endurlesa oft því aðeins þannig mun merkingarheimur þeirra opnast að fullu. Sú sem hér skrifar telur sig aðeins rétt hafa gárað yfirborðið eftir að hafa lesið bókina þrisvar.
Ljóðaþríleikur
Ef til vill má líta á Sálumessu sem lokaverk í ljóðaþríleik Gerðar Kristnýjar um ofbeldi gegn konum. Í Blóðhófni (2010) sótti hún efnivið til Skírnismála og tók undir femínískan endurlestur á kvæðinu. Í kvæðabálkinum dregur hún með áhrifaríkum hætti fram á sjónarsviðið það gegndarlausa ofbeldi sem jötnameyjan Gerður Gymisdóttir þurfti að þola af hendi Skírnis, skósveins goðsins Freys. Í Drápu (2014) er morðsaga úr íslenskum samtíma í brennidepli, ung kona er myrt og djöfullinn leikur lausum hala í einni óhuganlegustu glæpasögu sem sögð hefur verið í ljóðaformi í íslenskum samtímabókmenntum. Bækurnar þrjár eiga það sameiginlegt að þar er í knöppu og á hnífskörpu ljóðmáli kveðið um ofbeldi gegn konum. Þessi ljóðaþríleikur kallast síðan á við bók Gerðar og Thelmu Ásdísardóttur. Myndin af pabba (2005) Sú bók stuðlaði að vitundarvakningu og breytti heiminum eins og við þekktum hann. Ofannefndar þrjár ljóðabækur eru að sjálfsögðu af öðrum toga en áhrifamáttur þeirra er ekki minni.