Steinunn Inga Óttarsdóttir∙20. nóvember 2021
MINNISVARÐI UM EITTHVAÐ SEM EITT SINN VAR. Guð leitar að Salóme
Júlía Margrét Einarsdóttir. Guð leitar að Salóme. Reykjavík: Una útgáfuhús 2021, 388 bls.
Guð leitar að Salóme en Salóme leitar að kettinum sínum og skrifar bréf til Helgu en tíu ár er liðin síðan ástarsambandi þeirra lauk með látum. Síðan hafa þær ekki sést. Loksins herðir Salóme sig upp í að krota fortíð sína, sem hún hefur byrgt inni, á kisubréfsefni og senda Helgu eitt bréf á dag, frá 1.-24. desember árið 2010. Þetta er umgjörð frumlegrar bréfaskáldsögu Júlíu Margrétar Einarsdóttur, ástar- og raunasögu úr rammíslenskum aldamótaveruleika, í fjólubláu bandi prýdd grænum glugga með mynd af rúllustiga.
Saga Salóme er samofin sögu formæðra hennar á Akranesi, ömmunnar blíðu sem missti ung manninn sinn, gleðipinnann Pétur, sjómann og tásuskrýmsli sem endalaust nennti að leika við rauðhærðar tvíburadætur sínar, Stellu, móður Salóme, og Láru. Sviplegur dauði hans og meint heimsókn hans framliðins um nótt varð til þess að samband tvíburasystranna rofnaði harkalega og þær héldu hvor í sína áttina. Stella hitti síðan sæta organistann, og Salóme ólst upp við rifrildi, reiðiköst og alkóhólisma sem setja mark sitt á hana, auk eineltis í skóla. Bæði hún og Pétur bróðir hennar eru sködduð eftir meðvirkt uppeldi og trúarinnrætingu föðurins.
Salóme er brotin, hirðulaus „ljósmyndastelpa“ og lúði af Skaganum, eins og hún lýsir sér sjálf, í íþróttagalla og rifinni kápu. Þegar hún flytur að heiman og fær vinnu í búð í Kringlunni kemur „klikkhausinn“ Helga inn í líf hennar og frelsar hana frá einsemdinni. Salóme tekur upp nýtt nafn til að lappa upp á sjálfsmyndina og hefja betra líf í búðinni Betra líf. Í kringum Helgu er djamm, uppátæki og leikir en líka geðsveiflur og sorgardrungi. Þessar týndu sálir sameinast í heitri ást sem heillar Salóme en skömmin er alltaf skammt undan. Samkynhneigð er ekki samþykkt. Og áfram heldur dramað á Skaga, eineltið hættir ekki, systrasambandið lagast ekki og hræðilegur atburður frá því Salóme var 11 ára gleymist ekki.
„Mér fannst svolítið eins og við þræddum í gegnum óraunverulegar minningar, eins og Akranes væri kvikmyndasett um nótt þegar búið væri að slökkva á myndavélinni og allir farnir heim. Minnisvarði um eitthvað sem eitt sinn var, væri ekki lengur raunverulegt, og yrði vonandi aldrei aftur“ (304).
Guð leitar að Salóme er margslungin saga um sársauka og skömm, örlög og erfið samskipti. Sögutíminn er heillandi, um aldamótin síðustu voru samfestingar í tísku, geisladiskar seldir í Skífunni, Myndbönd mánaðarins komu út, stuðið var á Astró, Kóklestin brunaði og BT músin brá á leik. Sögusviðið er sömuleiðis heillandi, þorpið með slúðri og smásálum. Júlía Margrét hefur þetta allt á valdi sínu.
Ástin á sér margar birtingarmyndir en andstæðan við hana er skeytingarleysi (366), það sem ógnar öllu mannlífi. Salóme ætlar að taka af skarið þegar síðasta bréfið hefur verið skrifað, þegar áratugur hefur liðið frá því ástin hvarf úr lífi hennar. Lesendur verða að finna út hvort það er orðið of seint.