SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir23. október 2021

MAGNAÐ OG KJARNGOTT. Merking

Fríða Ísberg. Merking. Reykjavík: Mál og menning 2021, 266 bls.

 
Ísland eftir ca. 20 ár: Samkenndarprófið er í boði til að mæla hvort fólk hafi nægan siðferðisstyrk og meðlíðan með öðrum. Standist fólk prófið býðst því að merkja sig í Kladdann og þar með er rétt siðferði tryggt.
 
Merktir fá að búa í fínum hverfum innan varnargarðs út gleri, með beinum, hvítum strætum og klassískum byggingum, fá góða atvinnu og er almennt treystandi. Viljir þú ekki taka prófið, eða það sem verra er, fallir á því, snarfækkar möguleikum á mannsæmandi lífi.
 
Til stendur að gera merkinguna að skyldu með kosningum en um það er hart deilt, merking býður upp á kerfislæga mismunun að sumra mati. Samfélagið er klofið í tvær hugmyndafræðilegar fylkingar um réttmæti merkingarinnar, SÁL og KALL. Og síðan eru þeir sem þegja og hlusta og þora ekki að taka afstöðu og eru þannig hálfu verri en hinir.
 
Reiður fíkill
Svona er staðan í Merkingu, skáldsögu Fríðu Ísberg sem gerist í náinni framtíð. Sköpuð er tæknivædd normalíseruð stemning sem gengur ljúflega upp: fólk tengir sig við appið Zoé sem fylgist með hjartslætti og öndun og svarar öllum spurningum og það er hægt að hafa kveikt á Samfylgd sem er verndarapp í úrinu, fólk sendir skilaboð sem kallast gramm út og suður, notar heilógrímur til að dyljast, bílar eru sjálfkeyrandi og andlitsskanni sér um að útiloka ómerkta úr húsum, verslunum og fyrirtækjum.
 
Sálfræðingar hafa gríðarleg áhrif og völd í þessu samfélagi, hvort sem þeir eru af holdi og blóði eða gervigreind. Til þeirra leita allir sem verða undir, nauðugir viljugir. Ungir karlmenn fara verst út úr þessu, staðan hjá Tristan Mána er t.d. arfaslæm, hann á engan sjens í þessu samfélagi; reiður fíkill með alllangan glæpaferil sem tilkominn er vegna höfnunar og mótþróa. Sjónarhorn Tristans er „fucking“ frábærlega vel stílað, og ekki annað hægt en sogast hratt inn í slangrandi hugarheim hans og hrakfallasögu.
 
Kennari á kvíðalyfjum
Vetur heitir kennari á kvíðalyfjum sem er tvístígandi í afstöðu sinni, hún hefur rannsakað siðferðislegan þátt fjölmiðla varðandi birtingu niðurstaðna á samkenndarprófinu en þorir ekki að taka af skarið, sjálf brennd af ofbeldi fyrrum elskhuga. Er það kannski versta afstaðan, að gera ekki neitt? Innsta eðli Vetrar / manneskjunnar birtist skýrt í samtali hennar við Alexandriu: hún sér sjálfa sig í ömurlegum aðstæðum hennar og fyrirlítur hana fyrir það.
 
Ólafur Tandri er í framboði fyrir SÁL og trúir því öðrum þræði að öflugt heilbrigðiskerfi sé lausnin, að merking sé forvörn en getur þó ekki varist efa þegar Sólveig kona hans þrætir við hann og setur honum skýr mörk. Hann veit innst inni að glæpamenn geta verið fullir samkenndar og að siðblindir geta verið saklausir en köld rök og tölur tala sínu máli í hans huga, glæpatíðni er hærri hjá hinum ómerktu. Skólakerfið tekur gagnrýnislaust þátt í þessu öllu, beinir unglingunum í prófið og til sálfræðinganna ef þeir ná ekki tilgreindu lágmarksviðmiði.
 
Gott fólk
Í Merkingu Fríðu Ísberg er búin til mynd af samfélaginu eins og það gæti svo auðveldlega orðið og er kannski þegar orðið. Dregið er fram hvernig sannleikanum er hagrætt og fjölmiðlar mata fólk á þeim veruleika sem hentar hverju sinni. Og hvernig tungumálið er notað til að ná sínu fram, hvort er verið að útskúfa eða innlima, merkja til góðs eða ills, alls konar heilaþvottur er í gangi fram að kosningunum um hvort aflið fær að ráða í samfélaginu. Kappræður fara fram (233-34) og stríðandi aðilar ætla báðir að breyta heiminum til hins betra, þetta er gott fólk í góðri trú á að verið sé að byggja upp öruggt og réttlátt velferðarsamfélag án ofbeldis.
 
Hafþór fucking Laxness
Í hverjum kafla er sjónarhornið hjá einni persónu sem hefur sitt málsnið og lífsskoðun, sagan er margradda og lesandinn þarf sjálfur að hugsa og velja sér skoðun eða afstöðu. Vinkonurnar Laíla og Tea, sem eru vel menntaðar og hafa tungumálið á valdi sínu, eru ekki persónur í sögunni, en skjóta inn bréfum milli kaflanna og gera það ekki einfaldara fyrir lesandann að marka sér stöðu.
 
Í sögunni tekst Fríða ekki aðeins á við tilvistarlegar spurningar um vald og siðferði af innsæi og visku heldur glímir líka við tungumál og stíl af miklum og heillandi þrótti. Hver persóna hefur sína lífsreynslu og afstöðu sem birtist úthugsuð og útpæld í málfari og orðavali. Ruglingslegur hugarheimur framakonunnar Eyju endurvarpast t.d. í brotakenndum textanum hennar. Og þegar kommentin byrja að flæða eru þau eins raunveruleg og hugsast getur. Rödd Tristans er einstaklega trúverðug, kröftug og hressandi: „Þegar hann sest niður man hann nafnið á rithöfundinum: Hafþór fucking Laxness“ (47). Og sögukaflinn þar sem Alexandria lætur dæluna ganga er hreinlega stórkostlega skrifaður.
 
Það er orðið langt síðan ég hef lesið nokkuð svona merkilegt. Magnað og kjarngott.
 

 

 

Tengt efni