SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir29. nóvember 2021

UM HLYKKJÓTTA VEGI ÁSTARINNAR. Hugfanginn

Anna Ragna Fossberg. Hugfanginn. Reykjavík: Króník 2021, 140 bls.

 
Hugfanginn kom út fyrir skemmstu hjá Bókaforlaginu Króníku en sagan varð hlutskörpust í samkeppni Sparibollans, á vegum forlagsins, um fallegustu ástarsöguna á vordögum. Hugfanginn er önnur bók Önnu Rögnu Fossberg en hún sendi frá sér skáldsöguna Auðnu, árið 2018, sem fékk góðar viðtökur.
 
Hugfanginn er fljótlesin, bó telur aðeins 140 síður og textinn rennur vel. Sagan hefst þar sem verkfræðingurinn Smári brotnar saman á dragsýningu. Þaðan víkur sögunni til aðdragandans sem fer fram á tveimur tímaplönum, annars vegar er rakin atburðarás sem hefst hálfum sólarhring fyrr og hins vegar er endurlit aftur til níunda og tíunda áratugarins, þegar Smári er unglingur að verða að manni. Þetta tekst vel. Alltaf er ljóst á hvaða tíma atburðir gerast og flakkað er lipurlega á milli.
 
Fyrir miðaldra lesandann var ferðalagið um unglingsár Smára mjög nostalgískt. Frásögnin minnir nokkuð á vegasögu en í stað þess að fara úr einum bæ í annan er farið hús úr húsi. Smári ber út Tímann og Þjóðviljann og honum er fylgt eftir þegar hann ber út blöðin og rukkar fyrir áskrift. Með þessu móti kynnist lesandi býsna skrautlegu persónugalleríi sem gerir söguna líflegri en ella. Þá leynir tíðarandinn sér ekki; stigagangar ilma af soðinni ýsu og bjúgum og dægurlagið Þú og ég ómar í útvarpinu.
 
Líkt og fyrr segir hlaut handritið að Hugfanginn verðlaun í handritasamkeppni Sparibollans um fegurstu ástarsöguna. Dómnefnd segir hana þó ekki vera hefðbundna ástarsögu heldur sé þar fjallað um ástina í ýmsum myndum og á fjölbreyttan máta. Það má til sanns vegar færa. Unglingarnir sem koma við sögu eru mjög leitandi í þeim efnum, líkt og unglingum er tamt, en á þessum tíma sem hér greinir frá er fátt annað í boði en hefðbundnar ástir gagnkynhneigðs sískynja fólks. Fólk með aðra kynvitund eða kynhneigð þrífst illa eða alls ekki. Það er ekki fyrr en unglingar níunda áratugarins eru orðnir fullorðnir sem nýir valmöguleikar opnast, víðsýnin verður meiri og ástin fær loks að blómstra í öllum sínum myndum.
 
Sagan reyndist skemmtilegt og nostalgískt ferðalag um hlykkjótta vegi ástarinnar í gegnum nokkra áratugi. Fjallað er um ást og ástleysi, umhyggju og meðvirkni, kynhneigð og eikynhneigð. Það er býsna margt undir í jafn lítilli bók og raun ber vitni en það rúmast þó merkilega vel.

 

Tengt efni