Guðrún Steinþórsdóttir∙15. nóvember 2021
BLIKANDI STJÖRNUR OG MYRKRIÐ Á MILLI ÞEIRRA. Myrkrið milli stjarnanna
Hildur Knútsdóttir. Myrkrið milli stjarnanna. Reykjavík: JPV 2001, 191 bls.
„Geturðu lýst fyrir mér einkennunum?“
Ég ræski mig.
„Ég er bara alltaf svo … þreytt.“
„Sefurðu illa?“
„Nei nei. Ég sofna og ég sef alla nóttina. En svo þegar ég vakna þá er ég dauðþreytt í öllum líkamanum. Í fótleggjunum, handleggjunum …“
Á þessa leið hefst splunkuný skáldsaga úr smiðju Hildar Knútsdóttur, Myrkrið á milli stjarnanna. Bókin er æsispennandi sálfræðitryllir sem gerist í reykvískum samtíma. Sagan segir frá ungri konu, Iðunni að nafni, sem vaknar dauðþreytt hvern einasta morgun og skilur ekki hvers vegna. Iðunn flakkar á milli lækna og reynir að fá úrlausn sinna mála en enginn veit hvað amar að henni. Eftir að vinkona hennar mælir með því að hún hreyfi sig meira kaupir hún sér GPS-úr til að halda utan um daglegan skrefafjölda. Eina nóttina sefur Iðunn með úrið á sér en þegar hún vaknar áttar hún sig á því að hún lá ekki sofandi í rúminu heldur hefur gengið yfir 16000 skref. Á ísmeygilegan hátt eykst furðan og óhugnaðurinn í sögunni því stundum vaknar Iðunn með marbletti, stundum með skítuga fingur og á myndbandi sem hún tekur af sjálfri sér yfir nótt virðist hún vera önnur manneskja. Spurningar sem leita bæði á söguhetjuna og lesendur eru: Hvert fer Iðunn á nóttunni og hvað er hún að gera? Hvað er ímyndun og hvað er veruleiki?
Persónusköpun bókarinnar er afar sannfærandi en þar birtast jafnt dæmigerðar manngerðir og kunnuglegar aðstæður. Lesendur kynnast aðalsöguhetjunni, Iðunni, best enda sagan sögð frá sjónarhóli hennar. Iðunn er ung og einhleyp kona sem á að baki misheppnuð ástarsambönd, þar á meðal hefur hún haldið við giftan mann sem hefur beitt hana ofbeldi. Hún á vinkonur sem hún getur skemmt sér með þótt hún deili ekki endilega öllu með þeim og reglulega mætir hún í mat til foreldra sinna sem gleyma statt og stöðugt að taka tillit til þess að hún er grænmetisæta. Í sögunni kynnist Iðunn manni sem átti í stuttu sambandi við eldri systur hennar sem er látin. Textinn er knappur og markast meðal annars af því að Iðunn er ekki alltaf hreinskilin við sjálfa sig og um eigin hagi en því fá lesendur frekar takmarkaðar upplýsingar til dæmis um fortíð persónunnar, áföll hennar og þá sem hún umgengst. Eyðurnar í textanum eru fyrir vikið margar og þar með reynir skemmtilega á lesandann að fylla inn í þær eða feta sig í gegnum myrkrið á milli stjarnanna.
Myrkrið á milli stjarnanna er feikilega vel skrifuð bók, sérstaklega eru samtöl persóna vel gerð en oft eru þau býsna fyndin. Á vandaðan hátt dregur Hildur furðuna inn í íslenskan veruleika þannig að við blasa nokkuð framandi aðstæður í kunnuglegu umhverfi. Spennan í verkinu tengist furðunni og óhugnaðinum en hún er markvisst byggð upp með því að halda ákveðnum upplýsingum frá lesendum; eins og venja er í sálfræðitryllum. Oft enda kaflar svo snögglega eða eru svo stuttir að nauðsynlegt er að halda lestrinum áfram til að svala forvitninni en raunar er bók Hildar svo spennandi að erfitt er að leggja hana frá sér og því best að taka frá eitt kvöld og lesa hana í einni beit. Hildur hefur fyrir löngu sýnt og sannað að hún er magnaður furðusagnahöfundur og er Myrkrið á milli stjarnanna enn ein staðfestingin á því. Lesendur sem sækja í hrylling, furðu og spennu eiga sannarlega von á góðu.