SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir18. október 2021

SORGIN ER EINS OG FJALL, FOSS... Glerflísakliður

Ragnheiður Lárusdóttir. Glerflísakliður. Reykjavík: Bjartur 2021

 
 
Ragnheiður Lárusdóttir hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í fyrra fyrir ljóðabókina 1900 og eitthvað sem jafnframt var tilnefnd til Maístjörnunnar.
 
Hún sendir nú frá sér nýja ljóðabók; Glerflísakliður, þar sem hún yrkir um eigin sorg og missi eins og lesa má í nýlegu viðtali við hana sem birtist í Morgunblaðinu.
 
Það er einstaklingsbundið hvernig fólk bregst við missi en það er algengt að það finni fyrir ýmsum líkamlegum einkennum, finnist það einangrað – jafnvel þegar það er umkringt öðru fólki –, eigi erfitt með daglegar athafnir og upplifi allskyns erfiðar tilfinningar svo sem reiði, eftirsjá, vonleysi, gremju og dapurleika. Fyrsta ljóð Glerflísakliðurs lýsir margvíslegum áhrifum sorgarinnar býsna vel um leið og það setur tóninn fyrir efnistök bókarinnar:
 
 
 
Sorgin
leggst yfir konuna
eins og fjall
eins og foss
eins og aurskriða
eins og lamandi pest
hún getur ekki hreyft sig
ekki talað
ekki sofið
ekki vakað
ekki unnið
ekki hvílst
ekki glaðst
hún er ein
á ekki neitt
nema sorg
 
Endurtekningar og upptalningar setja á oddinn einveru konunnar og vanlíðan hennar; sorgin dregur úr henni allan mátt, heltekur hana og altekur. Í bókinni er ort um tvenns konar missi; annars vegar horfir ljóðmælandi á móður sína hverfa dýpra og dýpra inn í minnisleysið og hins vegar segir frá konu sem er í sorgarferli eftir að eiginmaðurinn hefur sagt skilið við hana og kosið að hefja nýtt líf með nýrri konu. Líta má svo á að dóttirin og fráskilda eiginkonan séu sama konan og missir hennar þar með tvöfaldur en á sjónrænan hátt er það dregið fram með því að birta eitt ljóð um hvorn missi fyrir sig á hverri opnu.
 
Þótt skilnaður feli í sér missi og teljist til áfalla er það ekki beinlínis viðurkennt í samfélaginu að fólk gangi í gegnum langt sorgarferli og leyfi sér að syrgja fyrrum maka á opinskáan máta. Það kemur skýrt fram í ljóðunum um fráskildu konuna sem syrgir í leyni og leikur hlutverk hinnar kátu einhleypu konu sem „kaupir sér kjóla / fer á barinn / heldur veislur / brosir“ en „grætur hljóðlaust / án tára“ því „hún má ekki syrgja / það sem hún á ekki lengur“. Fyrir sorgmætt fráskilið fólk er ekki í boði sérstakur félagsskapur þar sem gefst rými til að ræða um sorgina og missinn eins og fyrir þá sem misst hafa maka sína í dauðann. Söknuður í kjölfar skilnaðar verður þar með tabú, leyndarmál sem sumir kunna að skammast sín fyrir en því mun mikilvægara er að hafa fengið ljóðabók sem tekur eins opinskátt á þessu viðfangsefni og raun ber vitni. Þrátt fyrir að söknuðurinn í ljóðunum, eftir fyrrum eiginmanni, sé sár og hafi í för með sér alvarleg áhrif á líkama konunnar heldur sorgarferlið áfram í átt að bata eða sátt. Áður en þangað er náð nær reiðin þó tökum á konunni og eyðir allri hennar orku:
 
 
Svo kemur reiðin
og leggst yfir allt eins og ólykt
eyðir öllum góðum tilfinningum
fallegum minningunum
framtíðaráformum
hún er sýra sem tærir allt og brennir
eyðir allri orku konunnar
hún verður reiðari og reiðari
hún er með kreppta hnefa
daga og nætur
og samanbitna kjálka
hún vaknar á morgnana og getur ekki rétt úr fingunum
né opnað munninn
hana langar að öskra
bíta
klóra
slá
hún vonar að svikari hennar svíði í hel
og líði vítiskvalir eins og hún
en svikarinn veit ekki að hann er svikari
og er sæll í sínu nýja lífi og vill engum illt
og það gerir konuna
brjálaða.
 
Það er afar táknrænt að sjö ár líða þangað til að sorgin kveður fyrir fullt og allt og konan nær sáttum við sjálfa sig og hið nýja líf; „finnur gleði og frelsi í einveru sinni / […] þarf ekki að leita sér að félaga / er sín eigin kona“. Ragnheiður yrkir af einlægni um skilnaðarsorgina en með sterku myndmáli, endurtekningum og upptalningum miðlar hún á áhrifaríkan hátt þeirri vanlíðan sem skilnaður getur falið í sér en einnig þeirri hugarró sem einstaklingur kann að öðlast eftir langt og erfitt sorgarferli.
 
Þótt söknuður og sorg einkenni líka ljóðin um minnislausu móðurina er tónninn í þeim léttari en í skilnaðarljóðunum; aðstæður eru enda oft grátbroslegar og ummæli mörkuð gleymsku kostuleg eins og ljóðið „Mynd“ vitnar til dæmis um:
 
 
Við skoðum myndir
afmæli, jól og páskar
við hverja mynd segir hún
hvaða gamla kerling er þetta?
Þetta ert þú mamma
hún hlær hátt og lengi
nei vitleysa
þetta er ekki ég
ég er ekki svona gömul 
 
Minnið er ólíkindatól og þegar gleymskan tekur yfir getur verið erfitt að henda reiður á tímann. Um það vitna ljóðin um minnisleysi móðurinnar svo sannarlega; fortíð og nútíð hennar blandast meir og meir saman; hún verður aftur barn sem vill fara heim eða „bara til hans pabba“. Minnisleysið hefur einnig þau áhrif að ímyndunaraflið leikur veigameira hlutverk í frásögnum móðurinnar sem sífellt neyðist til að fylla inn í stærri og stærri eyður eins og kemur glögglega fram í ljóðinu „Ferðalag“: 
 
Minnið hennar mömmu
fór í óvænt ferðalög
hún sem hafði stálminni
fór að muna ýmislegt
sem hún hafði aldrei lifað
hún sagði okkur sögur
af okkur sjálfum
sem við könnuðumst ekki við
hún gaf sumum nýja maka
og setti aðra í ókunn lönd
líf okkar varð ævintýralegra
 
Það tekur móðurina sjö daga og sjö nætur að kveðja þennan heim og eftir standa afkomendur sem kveðja og gráta, muna hana „sem kunni allt, mundi allt og gat allt / en var búin að gleyma því öllu“. Ljóðin um móðurina eru falleg og hjartnæm án þess þó að vera væmin. Með fáum vel völdum orðum er vel lýst erfiðleikum aðstandanda að fylgjast með nánum fjölskyldumeðlimi hverfa smátt og smátt úr tilverunni.
 
Glerflísakliður er bæði heildstæð og fáguð ljóðabók. Einum þræði má túlka verkið sem sjálfsþerapíu, aðferð höfundar til að yrkja sig frá sorginni og ná sátt í lífinu. Í sömu mund er bókin þó einnig tilraun til að efla skilning lesenda á ólíkum tegundum missis og sorgarferlinu sem þeim kann að fylgja. Þótt Ragnheiður byggi verkið á eigin lífi verða ljóðin aldrei of persónuleg heldur tekst henni mætavel að gera reynsluna sammannlega enda missir hluti af lífi sérhvers manns. Ljóð skáldkonunnar eru einkar góð viðbót í íslenska ljóðaflóru.
 

 

 

Tengt efni