Soffía Auður Birgisdóttir∙21. desember 2020
LISTIN AÐ HVERFA. Guðrúnarkviða
Eyrún Ósk Jónsdóttir. Guðrúnarkviða. Reykjavík: Bjartur 2020, 102 bls.
Við andlát gefst færi á að líta yfir farinn veg þeirra sem gengnir eru og meta líf viðkomandi. Slíkt sjáum við til að mynda í eftirmælum – þótt þar kunni fyrst og fremst að birtist falleg mynd syrgjenda. Eyrún Ósk Jónsdóttir vinnur með þessa hugmynd í nýju bók sinni Guðrúnarkviðu en þenur hugmyndina í allar áttir og gefur mörgum orðið í þessari skemmtilegu og frumlegu bók.
Guðrúnarkviða er ljóðsaga í 33 köflum, þar sem skiptast á ljóð og stuttar sögur eða frásagnir. Í upphafi bókarinnar erum við stödd í jarðarför og sjónarhorninu er beint að kórnum sem syngur við útförina. Verið er að jarða konu sem er „rétt skriðin yfir miðjan aldur, svo presturinn segir ítrekað „langt fyrir aldur fram“ (6). Allt er með venjulegu sniði þar til þetta gerist:
Þá heyrir þú það. Þú heyrir það og hrekkur við. Þú heyrir kunnuglegt hljóð. Sakleysislegt hljóð raunar. Hljóð sem aldrei myndi slá þig út af laginu nema einmitt í þessu eina samhengi. Aðeins hér er þetta hljóð skelfilegra en orð fá lýst og allar þær hryllingsmyndir sem þú hefur séð og þær martraðir sem þú hefur fengið sérðu ljóslifandi fyrir þér Það er einhver að banka. Þú lítur skelfingaraugum á kistuna. Þú getur svarið fyrir að hljóðið kemur þaðan. Það er einhver að banka í kistunni. Á kistulokið innanvert.
Í ljós kemur að fleiri í kirkjunni heyra bankið en enginn þorir að vekja máls á því þar sem allir halda að hljóðið eigi uppruna í þeirra eigin huga; að samviska þeirra sé að banka upp á eða þreyta, kulnun eða sturlun.
Konan í kistunni, Guðrún sem titill bókarinnar vísar til, er kurteis kona sem ekki vill valda vandræðum í lífi annarra. Hún vill ekki „fara að bjóða læknum, starfsfólki líkhúsa, prestum, útfararstjórum og öðru fagfólki byrginn (46) og lætur því nægja að banka laust í kistulokið þar til hún kemst að niðurstöðu sem opinberuð er undir lok kviðunnar.
Í nokkrum köflum bókarinnar fáum við innsýn inn í huga Guðrúnar en hennar rödd er þó aðeins ein af mörgum sem hljóma í kviðunni. Hinn syrgjandi eiginmaður fær rödd, einnig gömul vinkona, presturinn, kórmeðlimurinn, útfararstjórinn, og jafnvel kona sem mætir óboðin í jarðarfarir ókunnugra. Þessar ólíku raddir gefa hver fyrir sig upplýsingar sem smám saman mynda heildarmyndina. Upp teiknast mynd af lífi Guðrúnar, hjónabandi hennar, tilfinningum, (brostnum) vonum og þrám. Við fáum jafnvel ólík sjónarhorn á sama atvikið, eins og til að mynda þegar eiginmaður vinkonu Guðrúnar fór á fjörurnar við hana í fertugsafmæli konu sinnar.
Inn á milli frásagna sem tengjast beint aðstæðunum í jarðarför Guðrúnar og lífi hennar koma ljóð sem geta tengst efninu en standa einnig fyllilega sjálfstæð. Dæmi um það er ljóðið „Draumur“:
Hefur þig dreymt draumþar sem þú ert að fara eitthvað,að gera eitthvað mjög mikilvægten þú kemst aldrei þangaðsem þú ætlar þérsí og æ koma upp aðstæðursem hindra för þínaþú kemst aldrei á leiðarenda?Hefur þig dreymt slíkan draum?Þar sem hvert skref er hægt og þungtöll plön mistakastþú ert sem föstrétt við marklínunaen hún færist sífellt úr staðlíkt og þú sért að elta regnboga.Lífið er slíkur draumur,hillingar í eyðimörkbið eftir rétta augnablikinu sem aldrei kemurtálsýn, og svo hrekkur þú upp með andfælum.
Í ljóðinu „Drapplituð kona“ er erindi sem varpar ágætu ljósi á karakter Guðrúnar og má segja að standi sem smámynd fyrir alla Guðrúnarkviðu:
Þú hefur náð fullkomnum tökumá listinni að hverfagera þig ósýnilegatil að skyggja ekki á aðra
Guðrúnarkviða er bók sem vinnur vel úr frumlegri hugmynd. Verkið er efnismikið og er enn ein rósin í hnappagat Eyrúnar Óskar sem áður hefur sent frá sér athyglisverðar ljóðabækur. Um tvær þeirra má lesa ritdóma á skáld.is. Um Mamma, má ég segja þér (2019) má lesa hér og um Í huganum ráðgeri morð (2018) má lesa hér.