SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 2. apríl 2020

ÞÚ ERT VEIÐIMAÐUR - ÞÚ FINNUR HANA. Hið heilaga orð

Sigríður Hagalín Björnsdóttir. Hið heilaga orð. Reykjavík: Benedikt 2018, 378 bls.

 

 

Ritdómur eftir Sigríði Albertsdóttur

Það er hlýr og bjartur morgunn í lok ágúst þegar Edda gengur út af heimili sínu og hverfur. Drengurinn hennar er þriggja daga gamall þegar hún skilur hann eftir sofandi í vöggunni, og lögreglumaðurinn sem talar við fjölskylduna segir henni að þakka fyrir það. Oft sé ástæða til að hafa áhyggjur af öryggi nýfæddra barna þegar mæður þeirrar hverfa svona, þær taki þau stundum með sér ef þær missa vitið (9).
 

Þessi orð marka upphafið að annarri skáldsögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, Hið heilaga orð sem kom út árið 2018. Kona lætur sig hverfa frá nýfæddu barni og eftir situr fjölskylda hennar agndofa og veit ekkert hvaðan á sig stendur veðrið. Fjölskyldan er reyndar ekki í hefðbundnari kantinum því Edda elst upp hjá tveimur konum og bróður sínum, Einari. Konurnar, Júlía og Ragnheiður, verða ófrískar eftir sama manninn, sjarmerandi óbermi sem yfirgefur þær báðar og þær taka þá praktísku ákvörðun að ala börnin upp saman.

 

Systkinin Einar og Edda eru afar ólík en að sama skapi mjög náin. Einar er lesblindur en Edda er haldin því sem er kallað oflæsi, ákveðinni tegund einhverfu sem gerir það að verkum að viðkomandi nær einungis sambandi við texta. Edda lifir og hrærist í textum og spinnur upp sögur í sífellu en hún er ekki flink í að eignast vini. Lesblindan gerir Einari vissulega erfitt fyrir en hann á ekki í erfiðleikum með að umgangast fólk og það er í raun hann sem sér um mannleg samskipti systurinnar þegar hann er til staðar. En það er hann ekki alltaf og þá er Edda ólýsanlega einmana því það skilur hana enginn nema Einar. Þegar hún er á sautjánda ári upplifir hún sig sem ófreskju, „viðrini, félagslegt viðundur, og henni finnst hún verða að brjótast út úr þessari skurn, ná sambandi við umheiminn, finnst líf sitt liggja við“ (171). Og til þess að brjótast út og ná sambandi þiggur hún boð í partí sem endar með ósköpum, ekki vegna þess að hún kann ekki að tala við fólk og ekki heldur vegna þess að hún kann ekki að drekka, þótt hún kunni hvorugt. Hana grunaði nefnilega ekki hversu skelfilegir hlutir geta dunið yfir mann í lífinu og á leiðinni heim úr partíinu hefur hún aldrei verið jafn ein, aldrei jafn berskjölduð. Hún „heyrir ekki raddir vina sinna úr bókunum í höfði sér, finnur ekki Einar“ (174).

Bæði eru syskinin leitandi og virðast hafa fundið sig um tíma. Einar er kominn á kaf í ferðaþjónustuna og leiðsegir í tengslum við veiðimennsku í ám og vötnum. Edda hefur komið sér vel á framfæri sem áhrifavaldur og er með mörg þúsund fylgjendur á Snapchat og Instagram. Í stað rykugra bókastafla á bernskuheimilinu blasir við stafræn, stílhrein tilvera sem Einar á erfitt með að átta sig á. En tilvera Eddu er ekki fullkomnari en svo að hún lætur sig hverfa. En hvert og hvers vegna?

Í ljós kemur að Edda hefur farið til New York og Júlía fær Einar til þess að fara á eftir henni. Honum er það þvert um geð í fyrstu, finnst hún eigi bara að fá að vera frjáls ef það er það sem hún vill. „Edda hefur aldrei verið í lagi“ segir Júlía. „Fyrst þessi algera einangrun og áfallið, og svo þetta glanslíf hennar – hún hefur reynt að fela sig undir þessu yfirborði, en hún er þarna ennþá. Og hún er ekki í lagi“ (37). Það veit Einar manna best. En hann veit ekkert hvernig hann á að finna hana innan um milljónir manna í ókunnri borg. „Þú ert veiðimaður. Þú finnur hana“ segir Júlía (37). Og hann finnur hana að lokum en ekki fyrr en hann er búin að feta sig eftir ýmsum krákustígum sem meðal annars vísa honum á vit ástarinnar.

Aðalpersónur sögunnar eru heillandi hver á sinn hátt. Hin ljúfa Ragnheiður, mamma Einars, sem alltaf er með blíðuorð á vörum, tilbúin til þess að hugga og hughreysta og töffarinn Júlía, mamma Eddu, sem heldur heimilinu saman og lætur engan segja sér fyrir verkum. Júlía er sú sem öllu bjargar og reddar og Einar er bjargvættur Eddu en er samt í æsku engu minna háður henni en hún honum. Höfundur hefur einkar góð tök á persónusköpun sinni og gefur góða innsýn í tilfinningalíf persónanna, einkum ungmennanna. Lýsingar á brothættu og flóknu sálarlífi þeirra eru afar næmar og trúverðugar og umkomuleysi þeirra, einkum Eddu, sker í hjartað.

Stærsti hluti sögunnar fjallar um systkinin, uppvöxt þeirra, líf og samskipti og svo leit Einars að Eddu sem hverfist á endanum um sjálfsleit þeirra beggja sem og leit þeirra að hamingjunni. Inn í sögu þeirra fléttast svo óhjákvæmilega saga mæðranna sem og hliðarsaga um föðurinn en hann er afhjúpaður á óvæntan og ömurlegan hátt í lok bókar.

Í frásögn sinni flakkar höfundur frá einni sögu til annarrar og blandar saman ólíkum tímabilum í lífi persónanna sem að mínu mati eykur á spennu sögu sem er grípandi frá fyrstu síðu. Sigríður hefur frábær tök á íslensku máli, textinn er ljóðrænn og fallegur og höfundur missir hvergi marks í einstakri og afar spennandi sögu þar sem litríkar og lifandi persónur stíga á stokk.

Hið heilaga orð er margslungin saga og í henni er tekist á við ýmis mál sem snerta okkur í samtímanum og er eitt aðalviðfangsefnið ritmál, lestur, læsi, orð og orðleysi. Í forgrunni höfum við stúlkuna Eddu sem fram á unglingsár þrífst einungis í heimi orða en rífur sig lausa þaðan og finnur sér nýja tilveru í hinum stafræna heimi þar sem allt snýst um að fá sem mesta athygli fljótt og vel. Í stað þess að týna sér í orðum og búa til ævintýraheim sem skemmtir bæði henni og Einari gengur hún inn í heim yfirborðsmennsku þar sem allt snýst um tísku, vinsældir og „læk“. En Edda þarf að leggja mikið á sig til þess að vera gjaldgeng í þessum heimi, „hún hlustar og hrósar og smjaðrar og daðrar og kyssir … og allan tímann er hún svo einmana að hjartað í henni er að bresta (214). Og hún hættir alveg að lesa.

Höfundur Hins heilaga orðs tekur enga beina afstöðu, hvorki til lesturs sem slíks né takmarkaðs ritmáls í heimi samfélagsmiðla heldur fléttar inn í texta bókarinnar heimspekilegum hugleiðingum þess eðlis að tilgangur ritmálsins sé fyrst og fremst sá að hneppa annað fólk í ánauð (182). Og hugleiðingum sem snúast um að hugsanlega sé læsi hættulegur sjúkdómur sem dreifi sér um heilann eins og krabbamein, leggi „undir sig hluta hans sem eiga að sjá um aðra hluti, eins og að þekkja andlit, mynda tengsl við annað fólk, elska“ (234). Þessar pælingar rugla lesanda dálítið í ríminu því þótt Edda hafi einangrast á þeim eina almennilega heimavelli sem hún átti, bókunum, farnast henni síst betur í sviðsljósi samfélagsmiðlanna. Þannig dregur höfundur lesanda á tálar þar til hann veit ekki sitt rjúkandi ráð. Og titill bókar er tvíræður. Hið heilaga orð er orð guðs, ljós lífsins eitthvað sem aldrei slokknar á. En ein af persónum bókarinnar fær heilablóðfall í miðri útvarpsmessu einmitt þegar presturinn segir: Þannig hljóðar hið heilaga orð (177). Persónan steypist ofan í niðadimm göng þaðan sem hún á aldrei afturkvæmt, hún skynjar umhverfi en missir mál og þar með hið heilaga orð.

Í þessum tvíræðu pælingum felst enn einn styrkur bókarinnar en lesandinn verður, einn og óstuddur að taka afstöðu til orðsins.

 

 

 

Tengt efni