LÁRVIÐARSKÁLD OG LANDSBYGGÐARTÚTTA. Ingunn Snædal. Ljóðasafn
Ingunn Snædal. Ljóðasafn 1995-2015. Reykjavík: Bjartur 2015, 320 bls.
Ingunn Snædal hlammaði sér hressilega á skáldabekkinn aðeins 24 ára gömul með óvenju þroskaðri og hnyttinni ljóðabók sem hún gaf út sjálf, Á heitu malbiki (1995). Þar heilsaði hún glaðlega með upphafsljóðinu „Halló“ og smaug beint inn í hjörtu lesenda sinna. Flest ljóðin í frumrauninni fjalla um heita ást og kulnun hennar. Þegar mesti ástarbríminn er slokknaður eru hugsanir elskhugans „víðs fjarri“ (18) og ljóðmælandi „grípur í tómt“ (24); loks er hversdagurinn svo yfirþyrmandi að hann tekur yfir allt: „… að kaupa mjólk / fara í banka / hringja / taka úr vélinni / fara með skóna í viðgerð / tala við guð / biðja hann / að taka úr mér hjartað / og færa þér / það gerir mér hvort eð er / ekkert gagn lengur“ (25). Sambandið er búið og það tengist skipbroti karlmennskuímyndarinnar sem fólst í þegjandalegum töffaraskap; það glittir í lítinn strák sem stamar og grætur (19) og „Maðurinn sem situr þarna / með kaffi og hálfreykta rettu / hann bítur saman tönnunum / til að brotna ekki“ (16).
Náttúran er Ingunni nærtækur efniviður, dúnmjúkar mýrar og gráir melar vekja heimþrá og viðkvæmni, hún yrkir um snjókomu í apríl og villt blóm sem vaxa inni í henni og eiga rétt á að vera ekki fótum troðin: „þau eru fíngerð / og fálma eftir ljósi / láttu blómin mín í friði / þau eiga aðeins / eitt líf“ (15). Frægt er ljóð hennar um Herðubreið í líki drambsamrar drottningar og hún birtist aftur í sama hlutverki í annarri ljóðabók Ingunnar. Myndmálið er jafnan einfalt og skýrt, mest beinar myndir sem hnitast um eina hugsun, tilfinningu eða atburð. Myndhverfingar eru sparlega notaðar, sem dæmi mætti nefna þegar regnið verður til þess að ljóðmælandi breytist í hafmeyju sem syndir brott með sporðaköstum og vængjasláttinn sem heyrist þegar „Beiskar hugsanir / flögra brott“ (40).
Strax í fyrstu ljóðabók sinni sló Ingunn tón sem er hennar hreini og sanni. Síðan liðu ellefu ár. Þá hreppti hún verðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir handrit að ljóðabókinni Guðlausir menn – hugleiðingar um jökulvatn og ást (2006). Bókinni var afar vel tekið, rokseldist og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Grunnhugmyndin er saga af ferðalagi á æskustöðvarnar í skugga yfirvofandi sambandsslita. Nítján númeruð ljóð fjalla um ferðina og ýmsa togstreitu í fjölskyldunni. Alls staðar er einlægni í fyrirrúmi og henni ekkert pakkað neitt sérstaklega ljóðrænt inn, nema á stöku stað. Ljóðin virka stundum eins og þerapía eða útrás, til að afbera að finnast maður ekki tilheyra neins staðar, að þora ekki að segja pabba sannleikann og þurfa að þegja yfir skuggalegu leyndarmáli bróður síns. Þau vekja hugrenningatengsl við liðna tíð, gamlar ljósmyndir og útsaumaða púða, heyskap og ráðskonur á flótta undan fjölþreifnum húsbændum. Angistin eykst eftir því sem líður á, ljóst er að ástarsambandi við konu er lokið og dapurlegt ljóð endar í gálgahúmor: „þrjátíu og tveggja og / var að missa / mannréttindin“ (92).
Í gullfallegum ástarljóðum er myndmál sólarinnar notað til að lýsa eldheitum tilfinningum, „kreista sólina / svo gulir taumar / rynnu um þig alla“ (48), sólin sáldrar freknum (51), sólgyðjan grípur í hár og rótar í því með gylltum prikum og sólgulur bolti skoppar niður úr himninum (sbr. 90). Þrjú sms-ljóð gerðu mikla lukku þegar bókin kom út, þetta var fyrir daga íslensks lyklaborðs í farsíma og hugsanlega í fyrsta sinn sem slíkur texti birtist á prenti.
Eitt ljóð sýnir nýja hlið á skáldinu, það er án titils og margræðara en mörg hinna.
ég er skrýmslavörðursvört og hvöss ólmast þauá hvítu tjaldi hugansvilja bíta migég er skrýmslaveiðimaðursit fyrir þeimhvenær semtækifæri gefstég er skrýmslavinurgef þeim rúsínurúr berum lófaog sleppi lausumtil að éta migaftur(93)
Í Guðlausum mönnum er náttúran bakgrunnur fyrir söguna, tengist bernskuminningum og hugarástandi hverju sinni. Þessi þráður er kyrfilega tekinn upp í næstu bók sem kom út tveimur árum síðar, Í fjarveru trjáa, vegaljóð (2008). Þar er náttúran enn í aðalhlutverki og titillinn tengist auðn og víðerni sem skapa heillandi sérstöðu íslensks landslags. Í bókinni er ort um staði og stundir á hringveginum, landið sem kannski fer undir vatn, táraþúfur og sjóblautt myrkur og um íslenska náttúru áður en túristarnir komu; meðan bara einn og einn pissaði í grasið og henti plastflöskum úr bílnum (112). Ferðalög og staðir skapa heildarmynd og tengja ljóðin saman, líkt og í Guðlausum mönnum. Kunnuglegar senur, eins og að japla á sótsvörtum og hálfhráum grillsneiðum í útilegu og hlusta ekki á leiðbeiningar bóndans í Úthlíð um notkun heita pottsins lýsa umgjörð ferðalagsins, síðan fléttast saman ljóð um minningar, ást og dauða sem skapa nostalgíska stemningu. Myndmálið er í sama stíl og áður, látlaust, tært og einfalt, efnistökin íronísk:, „Skaufasel / því miður komið í eyði“ (161) og oft með sárum undirtóni.
Þingvellir hafa annan róm hjá Ingunni en vant er; það er hvorki helgislepja né þjóðremba í skáldskap hennar um þann merka stað, þvert á móti er hann aftignaður á íronískan hátt og dökkur útlendingur með í för:
þingvallamosiekki fara hingaðgulgrár eins og á kirkjugarðsveggnema í fylgd meðsíðhærðum dökkum útlendingiflöskugrænn með hvítum flekkjumsem þú hefur nýlega kynnstsem er alveg sama þótt rignigrófur undir fætiog enn meira sama umelsta þjóðþing í heimigylltir púðar í svörtum hraunsófumfer úr öllu og teygir úr sérflos til að hvíla í og elskaleggst í mosann glitrar í framanog ullar upp í skýin(154)
Efni bókarinnar er fjölbreytt, formið frjálslegt og ljóðin skemmtileg aflestrar. Það er ort um sögulega þætti, s.s. Fjalla-Eyvind (110), síðustu aftöku á Íslandi (129) og „svarthvíta skólapilta með slifsi / sem fóru til Ameríku“ (145). Land og saga eru vissulega nátengd, landslagið er „að hálfu leyti himinn / hinn helmingurinn / minning (176). Þá koma við sögu draugar sem húkka sér far, við rekumst á draugabýli (126) og dularfull vera birtist á stafrænum myndum (157). Og kersknin úr fyrri bókum er söm við sig, „… brúin yfir Blöndu / bara tröll undir henni/ sem lögreglan / nær aldrei“ (149)
Fjórða ljóðabók Ingunnar, Komin til að vera, nóttin (2009) fékk góða dóma og var tilnefnd til menningarverðlauna DV. Íslensk náttúra er áberandi sem fyrr, svo og ástin eða öllu heldur ástleysi og höfnun. Bókin hefst á fyrirmælum um að skrifa um hamingju en Ingunn kemur til dyranna eins og hún er klædd og gengst við sársaukanum, afneituninni og örvæntingunni sem fylgja lífinu. Eftir alls konar uppákomur og „tuttugu ár / af ástarsamböndum“ segist hún hafa lært að halda í sér, „gubba hljóðlaust / á afviknum stað“ (217) og bætir kaldhæðnislega við að það sé raunar hæfileiki sem hafi oft komið að góðum notum.
Í eftirfarandi ljóði er kænlega komist að kjarna málsins með mynd sem gengur fullkomlega upp:
samband sem molnareins og gamall grjótveggurdauðadæmdir hnullungarhverfa smám saman í grasiðað lokum verður hvergistigið niðurán þess að reka tærnar íog bölva(209)
já gott fólkþetta heitir líka skilnaðurhjá okkur kynvillingunumþið verðið bara að kyngja því(229)
Nýjasta ljóðabók Ingunnar, Það sem ég hefði átt að segja næst – þráhyggjusögur (2011) inniheldur 58 ljóð sem eru misjöfn að gæðum. Bókin er ekki eins heilsteypt að byggingu eins og fyrri bækur en er þó haldið uppi aðallega af tveimur kunnuglegum þráðum, ást(leysi) og dalalífi. Hér er ekki lengur ort af viðkvæmni eða söknuði, heldur horft á ástina með beiskju. Hún er garnahreinsandi, sýrumyndandi, heilsuspillandi, niðurlægjandi, eyðileggjandi og niðurrífandi (242). Breyting hefur átt sér stað, viðkvæmnin er horfin og skáldið hefur harðnað í afstöðu sinni: „hættu að hringja / ég er ekki þessi margnota / tilfinningaþurrka / sem ég hef leikið undanfarið (247). Þráin kraumar víða, hún er þó orðuð á beinskeyttari hátt en áður og stappar nærri örvæntingu, t.d. í ljóðinu „oh-h“, þar sem ljóðmælandi óttast viðbrögðin „ef ég yrði snert / af áhugasömum aðila / kastaði mér ýlfrandi af girnd / á viðkomandi / brysti í grát / brotnaði í þúsund mola (266).
Sjónarhornið hefur færst frá náttúru og landslagi inn í sveitabæinn og fjárhúsið. Slegið er á létta strengi, flæðandi frásögn er í öndvegi, sími og sms, talmál og slangur eru áberandi, kannski ekkert sérlega frumlegt eða skapandi en einhvern veginn viðbúið og eðlilegt í ljóðaveröld Ingunnar. Mörg ljóðanna eru beinar myndir en í nokkrum þeirra bregður fyrir listilegum stílbrögðum, t.d. í upphafsljóðinu, „gægjumyrkur“, þar sem stjörnur myndhverfast í milljón hús (237), „(og bein)“ þar sem sársaukinn hefur leikið lík ansi grátt (251) og „sumarferð“ þar sem sveitarómantíkin er hastarlega dregin niður á annað plan:
sveitin errauður borði á gulu skiltiþegar þéttbýlinu sleppiruppgefnir vegirsólsleiktar klappirvaggandi blærbíll á hvolfi í blóðugri árignir tárum úr sólinni(279)
Í bókinni er tæpt á togstreitu milli sveitar og borgar sem birtist m.a. í andstæðum eins og „gróskumiklum garði / í grænni höfuðborg“ og harðindum „hinum megin á landinu“ (293), í reiðilestri yfir túristum sem kúka í bakgarðinum og kaldhæðni um lélegt netsamband á landsbyggðinni, skruðninga í útvarpinu og soðin bjúgu (294). Áfram er látleysið alltumlykjandi og ljóðin laus við alla tilgerð. Hins vegar saknar maður meiri ögrunar og háska, að skáldskapurinn ýti meira við manni. Hefur lárviðarskáldinu brugðist bogalistin?
Nei, skáldskapur Ingunnar stendur fyrir sínu. Styrkur hennar felst í þeim sjálfsævisögulegu þráðum sem hún vefur í ljóð sín, léttri íroníu og samsömun við breyskt, mannlegt eðli. Helstu þemun eru ást og land og ferðalög, sveitalíf og ský himinsins, og grái liturinn sem speglar hugarástand og dregur fram sérkenni íslenskrar náttúru; þennan kindakæfulega lit sem er hér á öllu og öllum. Í nýjustu ljóðabókinni má greina örlitla stefnubreytingu, ástin er ekki eins áleitið yrkisefni, hugurinn stefnir hugsanlega í fleiri áttir. Í ljóðasafninu er að finna áður óprentað „Þjóðhátíðarljóð“ sem Ingunn samdi sérstaklega fyrir hátíðarhöldin 17. júní 2013. Þar er landinu líkt á gamalkunnan hátt við æviskeið mannsins og myndmálið sótt til náttúrunnar, unglingurinn er með rytjulegan gróður í vöngum og aldin Íslands frú ber skýjadún að hrukkóttum vanga. Saga okkar er dregin í gljúpa mold, rist með fjallsoddi, trömpuð, múruð og negld í sperrur. Hér búa bæði hipsterar og bændur í sátt og samlyndi í eilífri hringrás (299-302) en hafa skal hugfast að seint gróa sár landsins og þjóðarsálin bergmálar á milli kletta. Má vænta frekari brýningar í þessum dúr? Ekki ef marka má þrjú áður óbirt ljóð í bókarlok.
Hversdagsleg ljóðræna og ærlegar tilfinningar eru aðalsmerki Ingunnar, hún yrkir ekki um kvenlegan veruleika eða kvenmyndir eilífðarinnar og er hvorki róttækt, femínískt né erótískt skáld né yrkir hún um samkynhneigðar ástir. Skáldskapur hennar er allra; skýr, knappur og hnyttinn og yrkisefnin sammannleg. Hún er lárviðarskáld og landsbyggðartútta, heimskona dregin upp úr dalalífi, með heitar tilfinningar sem hún hikar ekki við að flíka, um leið og hún breiðir yfir sársaukann með kaldhömruðu glotti.
Greinin birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2016
Ljósmyndin af Ingunni er fengin af vefsíðunni austurfrett.is