SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn13. janúar 2019

HIN UPPLOGNA KÁTÍNA. Lastafans og lausar skrúfur

Didda (Sigurlaug Jónsdóttir). Lastafans og lausar skrúfur. Reykjavík: Forlagið 1995

 

Ritdómur eftir Sigríði Albertsdóttur

Hún er ruddaleg, kjaftfor, hörð, töff og kaldhæðin en samt svo agnarsmá inni í sér. Skrifar um líf utangarðsmannsins, drykkjukonunnar og dópistans af þvílíkri ástríðu að lesandinn fær einsemdina og ömurleikann beint í æð, verður dapur en um leið hugfanginn yfir snilld skáldkonunnar sem hlífir hvorki sér né lesendum sínum.

 

Yrkir kotroskin um sukk, svall og ríðingar

Didda lýsir í fyrstu ljóðabók sinni manneskju sem hefur glatað sjálfsvirðingunni en reynir að láta sem ekkert sé þar sem hún yrkir kotroskin um sukk, svall og ríðingar. Lýsingarnar eru kaldar og töffheitin meiða lesandann sem skynjar himinhrópandi einsemd stúlkunnar sem eftir geggjað partí í erlendum togara skverar sér í land „með þrjár/stolnar bjórflöskur í frakkavasanum" og hefur „kojast" með allavega tveimur. Og ljóðið endar svona:

 

Sómi Íslands
 
Ég togaramella? NEI!
Ég er sverð Íslands, sómi þess og skjöldur, slagandi
inn á Tryggvagötuna

 

 

Tímabundin blekking

Hún afneitar niðurlægingunni á kaldhæðinn hátt líkt og hún gerir í ljóðinu „Byrjun" en í því stoppar hún mann á Njálsgötunni og skipar honum að riða sér, standandi upp við vegg. Lýsingarnar á manninum eru gróteskar og miðast við að deyfa auðmýkingu stúlkunnar sem upphefur sjálfa sig á kostnað mannsins. Hann er gerður fáránlegur og hlægilegur þar sem hann stendur „þarna lítill og boginn og hjólbeinóttur" og stúlkan sér „einhvern veginn bara beint ofan á ennið á honum". Með því að lýsa manninum á þennan hátt finnur hún til (sjaldgæfra?) yfirburða en framhald Ijóðsins sýnir að það er einungis tímabundin blekking. Þó stúlkan þykist hafa aðstæður í hendi sér er hún aðeins viðfang og horfir á sjálfa sig og umhverfið eins og hlutlaus áhorfandi á meðan maðurinn lýkur sér af:

 

„Svellbunkarnir sindruðu í stjörnuskininu og það var svo dásamlega íslenskt að finna frostið narta í ber lærin. Og svo fyrir kraftaverk eitt fékk hann það og ég ýtti honum frá mér, hysjaði upp um mig buxurnar og sagði bless. Þetta var sá þriðji þetta kvöld og mér leið eins og ég væri rétt að byrja. "(12)

 

Didda 2006

 

Fórnarlamb vímu og sjálfseyðingarhvatar

Svipaðar lýsingar koma víða fyrir. Þar sem stúlkan lætur eins og hún hafi fullt vald á aðstæðum en lesandinn veit betur. Hún er fórnarlamb vímu og sjálfseyðingarhvatar sem fær hana til að gera „eitthvað sem engan langar að hafa gert, en hefur samt gert" eins og segir í ljóðinu „Það er ekki ósennilegt". Hún þykist glöð, kát og kærulaus af því öðruvísi getur hún vart lifað af í þessum ömurlega heimi sem er uppfullur af andlitslausum hjásvæfum — nei svoleiðis orðar Didda það ekki — ríðurum og nauðgurum sem koma henni ekkert við.

Hin upplogna kátína

En hún er ekki glöð þessi stúlka, hún er sár, meidd og brotin en reynir hvað hún getur að afneita sársaukanum t.d. í því mergjaða Ljóði „Aldrei-örið" sem fjallar um ömurlega bernsku. En það er einmitt afneitunin svo og hin upplogna kátína, bæði í þessu ljóði og öðrum sem gerir þrautirnar og eymdina jafn sýnilega og raun ber vitni. Og hún hefur ekki mikla trú á sjálfri sér stúlkan sem í ljóðinu „Nótt" situr ein að spjalli við sjálfa sig, er viðkvæm og vorkennir sjálfri sér:

 

Það er leiðinlegt
þegar maður er einn.
Sérstaklega þegar maður
er enginn félagsskapur.

 

Hispurslaus, berorð, sjokkerandi og um leið vönduð og vel gerð ljóð

Svo mikil er vantrúin að stúlkan reynir að mável gerð ljóð í hendur.út eigin tilvist í ljóðum sem eru hvert öðru magnaðra og rífa í hjartað. Það er langt síðan mér hafa borist jafn hispurslaus, berorð, sjokkerandi og um leið vönduð og vel gerð ljóð í hendur.

Ritdómurinn birtist í Veru, 4. tbl. 1995

 

 

 

Tengt efni