SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir29. maí 2018

BEITTUR KJARNINN STENDUR EINN EFTIR. Kóngulær í sýningargluggum

Kristín Ómarsdóttir. Kóngulær í sýningargluggum. Reykjavík: JPV 2017, 93 bls.

Þurfum við á ljóðum að halda? Hafa ljóðskáld sérstöku hlutverki að gegna í samfélaginu? Eiga þau að yrkja til að létta fólki lífið, benda á fegurðina, leika sér með tungumálið, hugga og líkna? Eða eiga þau að bægja frá okkur áhyggjum og kvíða, halda valdi og ofbeldi í skefjum? Er samt ekki langbest að ljóðið sé stillt, smart, hnyttið, krúttlegt, ekki of djúpt, ekki of flókið eða óskiljanlegt? Eiga ljóðskáld yfirleitt nokkuð erindi við valdhafana, samborgarana, lesendurna, mig persónulega með öllum þessum litlu og snyrtilega hönnuðu ljóðabókum sem koma út á nokkurra ára fresti í takmörkuðu upplagi? Hver má annars vera að því að lesa ljóð, er ekki alltaf brjálað að gera? Jú, það er vangefið mikið að gera, en það er svo mikið hjal og fjas og síbylja í gangi; hjakk, klisjur og frasar; merking orða er útjöskuð og margtuggin. En þannig er ljóð nefnilega ekki, þegar vel tekst til. Þess vegna lifir það, þess vegna þurfum við á því að halda.

Ekkert froðusnakk

Feril Kristínar Ómarsdóttur, ljóðskálds og rithöfundar með meiru, hófst með látum fyrir sléttum 30 árum með ljóðabókinni Í húsinu okkar er þoka sem hún gaf út sjálf og leikritinu Draumar á hvolfi sem sigraði í leikritasamkeppni Þjóðleikhússins 1987. Síðan þá hefur hún verið afkastamikil á sviði bókmennta, skrifað skáldsögur og ljóðabækur auk leikrita, m.a. fyrir útvarp, og smásagna og hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir verk sín sem eru einkar frumleg og hafa alveg sérstæðan karakter.

Áttunda og nýjasta ljóðabók Kristínar heitir Kóngulær í sýningargluggum og er knálega ort og myrkt, ekkert léttmeti eða froðusnakk frekar en fyrri daginn og við fyrstu sýn er erfitt að átta sig á hvað þessir brotakenndu og furðulegu textar eiga að merkja. Bókin skiptist í 5 hluta, einn þeirra heitir „úr dagbók“, og er að sögn höfundar persónulegur bálkur, en í heild eru ljóðin í bókinni tæplega sextíu. Þau fjalla um samtíma, samhengi og samfélag; eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta og eru þess vegna torskilin og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur á einhvern seiðandi hátt.

Hverdagslegt klukkulíferni

Hefðbundin sjónarmið er hvergi að finna í þessari bók né stirðnað orðalag eða kunnuglegar myndir. Við sjáum krakka þræða saman varirnar með nál og tvinna, hafmeyjar með glerbrjóst stinga hausnum uppúr sjónum, himinninn er svangur og tannlaus, trúnaðarmaður stafrófsins segir kvöldfréttir og herskip flytja peysur og sokka til landsins. Fremst í bókinni eru einkunnarorð þar sem lesanda er boðið að líkamnast upp á nýtt áður en stigið er inn í launhelgar kóngulónna sem syngja í fyrsta ljóði bókarinnar. Þarna er tónninn sleginn, með undarlegum orðum, endurtekningum, furðum og óvæntum atburðum. Lesandinn er staddur á stað þar sem allt getur gerst en sýningarstjóri er við völd. Stað þar sem við erum vélmenni og líkneski og setjumst til borðs í dúkkuhúsi, hjakkandi í hversdagslegu klukkulíferni; verðir spenna boga og miða á okkur og lögreglan innsiglar eldhúsið, það eru yfirheyrslur og handtökur og við erum dregin fyrir dómara, við snyrtum hugarfarið og rekjum upp hugsanirnar til að komast af. Þetta er ansi drungaleg sýn, eiginlega óhugnanleg og leiðir hugann að distópíum eins og í Sögu þernunnar (Handmaids Tale) og 1984 þar sem firringin og valdið hafa náð yfirhöndinni yfir mennskunni.

Vélræn kerfi

Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði Kóngulóa í sýningargluggum smella inn í samfélagsumræðuna nú um stundir þegar verið er að draga valdið í efa, rýna í skrifræðisleg ferli og vélræn kerfi, þegar venjulegt fólk ræðst til atlögu ef réttlætiskennd þeirra er misboðið. Það er hamrað á fátækt, óréttlæti og grimmd í þessum ljóðum, myndmálið tengist líkamlegu ofbeldi og kvöl; höfuð eru afskorin, fingur klipptir af, flísar standa í augum, fingur er brotnir, gubbað í skál, þjáningin hverfur ekki, rýtingur er rekinn i hjartað. „Herra dómari“ er fulltrúi valdsins og honum er sama þótt mjólk renni úr geirvörtum utangarðskonunnar (54). En hvað getur maður sosum gert annað en skrifað dagbók, gert leikfimiæfingar, keypt í matinn (93); verið kónguló sem hniprar sig í sýningarglugga þar sem er ekkert líf, ekkert skjól. Það er þó örlítil vonarglæta, rétt á meðan „byltingarstelpur“ kasta eggjum í veggina, næst kasta þær í andlitin.

Bölsýnn lambaleggur

Ef við gefum ljóðunum tíma og alúð opnast þau og tengjast á margvíslegan hátt með endurtekningu bæði orða, mynda og hendinga, eins og vefur. Orð eins og „glerbrjóst“ kemur fyrir í nokkrum ljóðum, óvenjulegt orð og undarleg hugmynd sem vekur margvísleg hughrif. Orð og fyrirbæri tengd valdi, þ.e. yfirheyrsla, lífverðir, leikbrúða, lögregla, herskip og vegabréfsáritun, eru hér og þar í gegnum bókina. Endurtekningarnar skapa tilfinningu bæði fyrir heild og vélrænum takti. Tvö ljóð í röð heita „kveðja“, hér er dæmi um frumlegar myndir sem láta mann ekki í friði, sérkennilegan húmor og óvænt samhengi:

 

„hönd hvílir á diski
 
glös standa vörð við sorgardúk
 
einnig logarnir sem með hraði eldast, gestirnir kveðja
höndin á diskinum minnir bölsýnan á lambalegg
 
höndin á diskinum minnir bölsýnina á lambalegg
svo fagurt snerti hún snitturnar – bleiku kökurnar
 
svo fagurt snerti hún snitturnar – bleikar kökur
sósan teiknar varir á dúkinn
ég gaf hönd mína fyrir málsverð
 
hugsar skuggavera klædd döprum fötum
 
kápufóðrið: grátmúrinn
hve langa stund það tekur því að kveðja
 
hugsar fylgdarkonan og stingur augunum í vasann, brýtur saman eyrun
 
notar varirnar í kossa á mjúkar kinnar úr hörðnuðu regni
skuggarnir, eins og farartækin úti, sameinast regninu
ekki skilja mig eftir
 
hvíslar höndin væri hún ekki stödd hér heldur í ljóði“
(45)

 

Ljóð eins og „Hindranir yfirstignar, við vélmennin , yfirlýsing, boðflenna, ilmur“; ég vildi geta lesið þau öll hér en það er víst fleira efni í þættinum.

Og hvað er „minnisflís“? Allavega, hlutskipti skáldsins:

 

„moldin geymir orð sem ólíkt mér þekkja vitjunartímann
hinar ólíku árstíðir
þau stinga sér upp úr jörðinni í þessari bók
sofa í öðrum
tíminn er naumur
mér ber að huga að moldinni
sem ég er búin til úr
bregðast við éljum, sólskini, regni – “
(85)

 

Eitt ljóð heitir „gluggakistur“, og kveikir hugrenningar um hvernig má borga reikningana þegar allt um þrýtur, hvernig allt er falt og sá sterkari neytir yfirburða sinna. Og ljóðið „kústaskápur fasistans“ má túlka sem svo að byltingin éti börnin sín og hvernig alltaf má snúa á valdið. Óhugnaður er alltaf yfirvofandi í þessum ljóðum, þjáningin er alls staðar, endalaus og sjálfvirk. Í ljóðinu „handtaka“ tala veggir, innilokunarkenndin er yfirþyrmandi, það er engin undankomuleið.

 

„næst tóku veggirnir mig höndum
til varnar hagsmunum þínum
kallaðu okkur virkið
mæltu veggirnir og þrengdu að höfði mínu
múmíu úr spýtum og brestum
haustflís gætir mín“
(56)

 

Í ljóðum Kristínar hefur allur óþarfi verið skorinn burt, það er skerpt á stökum orðum sem stingast upp af blaðsíðunum, bara kjarninn stendur eftir, gljáandi og beittur og lesendum er látið eftir að kljúfa hann. Stundum er lykil að túlkun að finna í titli ljóðs en hann getur líka verið villuljós. Í ljóðheimi Kristínar er ekkert eins maður heldur, ekkert er víst nema þar má búast við alls konar usla og undrum.

 

Hægt að hlusta hér á bókmenntagagnrýni í Viðsjá, 17. okt. 2017

Sjá einnig grein eftir Steinunni Ingu um skáldsöguna Flækingurinn á Skáld.is hér

 

Tengt efni