SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 6. maí 2018

ÁSTIN Á SNJALLSÍMAÖLD. #tístogbast

Eydís Blöndal. Tíst og bast. Reykjavík: Lús 2015

Það er eitthvað lausbeislað og einlægt í ljóðum Eydísar Blöndal (f. 1994). Fyrsta ljóðabók hennar, Tíst og bast (2015), kom út hjá „Lús, forlagi sem fær fólk til að klóra sér í hausnum“. Eydís hélt bók sinni hressilega á lofti á tístinu og hún rataði á metsölulista Eymundsson.

Yrkisefni Eydísar er ástin, eða ástleysið öllu heldur, og einkaheimur ungmennisins sem er skítugt herbergi, pítsukassar og 101. Myndmálið er hrátt og einfalt, töffaralegt og slangrað. Lúið, gamalt og stirðnað form eldri höfunda nær ekki yfir veruleikann lengur; „engin orð ná dýptinni / og engir stuðlar skilja mig“. Rímið er stundum með í för, tilraunakennt og frjálslega farið með, ekkert bindur unga og óstýriláta hugsun niður.

Ljóðin sveiflast milli sælla minninga og sjálfsvorkunnar („ringluð sál og hjarta sem blæðir“) og sjálfshaturs: „mikið djöfulli getur þú verið heimsk“. Þetta er enginn væminn unglingakveðskapur, þarna eru þroskaðar hugmyndir, alvöruinnihald og brennandi andi. Örsnögg mynd segir meira en mörg orð: „ég hálf tóm, þú hálf fullur“. Og það er hárbeittur tónn í ljóði sem ber tvírætt nafn: „amen, nr 4“ og ætti að vera skyldulesning fyrir alla (karla).

Tvö ljóð bera nafnið „Harmleikur á snjallsímaöld“. Það er orðið alltof auðvelt að fylgjast með símtalaskránni og kveljast yfir að enginn hafi hringt, minnsta mál að senda eldheit eða reiðiþrungin sms og bíða svo í angist eftir svari og yfirþyrmandi sárt að fylgjast með fyrrverandi á Facebook eða öðrum samfélagsmiðlum. Ástarsorg er gnægtarbrunnur fyrir skáld og rithöfunda eins og dæmin sanna.

Ástarljóðin eru gullfalleg, t.d. Varúð: þetta ljóð er um kynlíf. Og hér er skemmtileg mynd sem gengur vel upp:

 

þvottavél
ég hélt ég væri þvottavél
og tróð inn í mig
 
óhreinustu drullusokkum borgarinnar
 
í von um að bjarga þeim
trúið mér
 
það virkar aldrei
 

Í bókinni eru tæplega 40 ljóð. Lokakafli bókarinnar ber heitið Ástarsorg. Hverfistregða einsleitrar stúlku. Tilraun framkvæmd þarna um árið. Ljóðin í þessum hluta eru númeruð líkt og í skýrslu, tilraunin endar í kafla „3.4. Sátt“ og lokakafinn er nr. „4. Niðurstöður og úrvinnsla.“

Það er ekkert nýtt að ljóðið sé notað eins og þerapía fyrir hrellda sál en í þessari bók verður að segjast að það er býsna vel gert. Með nákvæmri klínískri tilraun fást svellkaldar og óhagganlegar niðurstöður og það er ein aðferð til að vinna sig í gegnum erfiðar tilfinningar eins og höfnun, reiði og sorg.

Tíst og bast er fyrirtaks frumraun ungs höfundar sem á örugglega eftir að gera fleiri tilraunir í lífinu.

 

Greinin birtist fyrst í Kvennablaðinu, 20. nóv. 2015

 

 

 

Tengt efni