SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir17. október 2020

„HLJÓÐLÁTT EN MAGNAÐ BERGMÁL MANNA Á MILLI“ - Viðtal við Guðrúnu Hannesdóttur

Hún er fædd á fyrsta degi lýðveldisins, 18. júní 1944. Hún byrjaði seint að yrkja eins og oft vill verða með skáldkonur, en ljóð hennar hafa heldur betur ratað til sinna. Í spjalli við Steinunni Ingu Óttarsdóttur segir Guðrún frá ýmsu, s.s. yfirþyrmingum, orðasöfnun og munaðarlausum ljóðabókum.

Hvenær byrjaðir þú að yrkja?

Seint. Fyrsta ljóðabókin mín kom ekki út fyrr en 2007. Til þess lágu annir og ýmsar ástæður aðrar. Ég hef ekki hugsað um það að ráði fyrr enn upp á síðkastið, fannst lengi að hið dularfulla fyrirbæri „fylling tímans“ hefði eitthvað komið þar við sögu. En svo hef ég verið að spá í þetta í ró og næði og komist að annarri niðurstöðu, sum sé þeirri að ég hafi alltaf verið að „yrkja“. Ég var frá fyrstu tíð undirorpin ýmsum yfirþyrmingum og grufli eða hvað nafn má gefa því. Sem ég sagði engum frá.

Nú? Segðu okkur endilega frá!

Elsta minning mín í þessa veru er frá því ég var á þriðja ári. Ég bjó ásamt foreldrum mínum í lítilli kjallaraíbúð á Skarphéðinsgötu. Í eldhúsinu var gluggi nokkuð hátt á vegg og þar sat ég í gluggakistunni í sólskininu. Það voru páskar og í uppsiglingu pakkabúðingur til hátíðabrigða. Ég fékk að halda á skálinni og hræra í þurru duftinu með skeið. Búðingsduftið ilmaði og það brakaði yndislega í því. Og rétt í því að stakur sólargeisli fyllti skálina, laust því niður í mig úr hverju sólskinið sé gert – sem sagt úr vanilluilmi og þessu brakandi hljóði. Ég er ekki frá því að mér finnist þetta rétt hjá mér enn!

Þetta var mitt fyrsta ljóð þó ég vissi það ekki. Ég held að ég sé enn á sama róli svona hugsanalega séð og gefin fyrir tilfallandi pælingar og hæpnar niðurstöður. Sumt kemst á blað og annað ekki. Svona minningar eru enn þá að tínast inn í bækurnar mínar í bland við nýrri spekúlasjónir.

Ég er því loksins búin að sjá við sjálfri mér og hætt að reyna að svara svona spurningum skynsamlega.

Hvernig er samband þitt við orð?

Ég hef dálæti á orðum. Fyrir mér eru þau bæði seglið, akkerið og árarnar – endalausir möguleikar og uppspretta ánægju. Ég safna orðum ef ég á að vera hreinskilin, geymi þau ýmist á pappír eða í huganum. Gleymi þeim stundum og finn þau aftur þegar þarf.

Lestu mikið?

Ég hef lesið mikið frá því ég man fyrst eftir mér. Það var til mikið af bókum heima og hjá ættingjum. Ég var í sveit sem barn og þar las ég líka allt sem hönd á festi. Sögur herlæknisins, bækur Pearl S. Buck, Selmu Lagerlöf, gamlar ævisögur og endurminningar, bækur af öllu tagi. Það var svo fátt sem glapti, það var ekki einu sinni rafmagn fyrsta sumarið mitt í sveitinni, þá sat maður bara úti í gluggakistu á kvöldin og las. Gluggakistur hafa greinilega verið stór áhrifavaldur hjá mér, segir Guðrún sposk.

En sennilega er ótalin sú manneskja sem hafði mest áhrif á mig. Það var frænka mín Þuríður Jakobsdóttir sem hafði fylgt heimili afa míns og ömmu frá barnsaldri og var til heimilis hjá þeim. Hún var ógift og barnlaus, en athvarf og klettur allra barna. Ég var mjög ung þegar ég fór að suða um að fá að gista hjá Þuru, því hún var kunni ógrynni af vísum og þulum sem hrifu mig mjög og ég var fljót að læra utan að. Svona nældi ég í tilfinningu fyrir veröld sem var, þó í litlu væri.

Ég er enn með nefið niðri í bókum, en er að verða svolítið bókvönd. Sérstaklega á ljóðabækur. Ég fór seint að lesa ljóð og ofbauð alveg hvað ég var dómhörð. Ég held kannski að það hafi verið til að tugta sjálfa mig svolítið til að ég fór að skrifa niður ljóðin mín. Ég les alltaf meira og meira af ljóðum, íslenskum og erlendum. Gallinn er sá að mér finnst úrvalið ekki nóg, hvorki í verslunum né bókasöfnum. Það er svolítið umhendis að panta bækur á netinu og tekur tíma. Og mér leiðist að lesa ljóð af skjá. Mig dreymir um að komið verði á fót hér sérstöku ljóðasafni eða ljóðabókasafni í einhverju fallegu húsnæði eða umhverfi. Ég veit að eitt slíkt er að finna á Siglufirði, Ljóðasetrið, en þangað er spölur. Ég hef heimsótt ljóðasafnið í Edinborg, þar er hægt að sitja dagana á enda með aðgang að öllum heimsins ljóðskáldum og bókavörðum sem hafa öll svör á takteinum. Smáspölur þangað líka. Ljóðabókasafn gæti verð góður staður fyrir munaðarlausar ljóðabækur sem ég held að séu margar á hrakhólum.

 

Vá, það er falleg hugmynd! Þú ert líka myndlistarkona og fræðikona, hefur það haft áhrif á eða birtist það í skáldskapnum?

Mér þykir gaman að teikna en hef ekkert til þess lært. Þar kemur til sögunar fyrrnefnd Þura, sem vakti áhuga minn á gömlum kveðskap. Sem varð til þess að ég fór að safna gömlum vísum fyrir börn og gaf þau síðan út í þremur myndskreyttum bókum. Þetta voru mínar fyrstu myndskreytingar. Það reyndist erfið glíma að velja ljóðin, sem voru ólík innbyrðis, raða þeim saman á opnu og ekki síður að teikna mynd við hverja opnu án þess að allt ræki sig hvert á annars horn og spillti hughrifunum.

Þetta, að finna innra samræmið, var mjög lærdómsríkt og heillandi og gagnlegur skóli fyrir ljóðagerð. Auk þess tók leitin að ljóðunum sjálfum langan tíma og fyrirhöfn og leiddi mig út á áður ókunnar æsandi safnaslóðir. Á þessum tíma var t.d. ekki búið að tölvuskrá vísnaefni Árnastofnunar þannig að ekki var hægt að finna nákvæmlega það sem ég leitaði að, svo ég þurfti að hlusta á ótal spólur í von um að finna barnavísur, gramsa í skókössum á Landsbókasafni sem geymdu vísnasöfn og síðast en ekki síst tala við það ágæta fræðafólk sem var hnútum kunnugt, Jón Samsonarson, Grím Helgason, Hallfreð Örn Eiríksson, Ögmund Helgason og fleiri. Fyrir utan fjöldann allan af gömlum körlum og kerlingum. Það er ekki alltaf leiðinlegt að lifa!

Svo tók skáldskapurinn yfir. Hvernig hefur þér gengið að fá verk þín útgefin?

Fyrstu bækurnar mínar, vísnabækurnar tvær sem ég var að nefna, gengu skínandi vel, Jóhann Páll gaf þær út með myndarbrag og þær eru löngu uppseldar. Sú þriðja þótti þeim eitthvað vera að drolla of lengi í hillunum hjá sér og dag einn fékk ég bréf þess efnis að búið væri að farga eitt þúsund eintökum. Það fékk svolítið á mig.

Aðrar barnabækur sem ég myndskreytti gengu sömuleiðis ágætlega. Þegar út í ljóðabókaútgáfuna kom var ég svo lánsöm að Hildur Hermóðsdóttir vildi gefa þær út, og flestar þeirra komu út hjá henni á meðan hún rak bókaútgáfuna Sölku. Það var ánægjuleg samvinna. Svo kom smá hiksti, Sæmundur gaf út eina, ég sjálf aðra með góðra vina hjálp og nú síðast kom til sögunnar Partus útgáfa sem vildi gefa út síðustu bókina, Spegilsjónir.

Ég hef undanfarin misseri fengist við þýðingar líka. Ég hef átt bágt með að sleppa augunum af barnabókum og hef nýlega þýtt nokkrar úr sænsku eftir Rose Lagercrantz, sem er meðal þekktustu rithöfunda Svía. Í sumar lauk ég við þýðingu á ungversku skáldsögunni „Dyrnar“ eftir Mögdu Szabo. Það var mjög tímafrek vinna og tilraunir til að fá hana gefna út reyndust hálfgerð svipugöng. En þar kom bókaútgáfan Dimma til bjargar, enda með óhefðbundna og skemmtilega eigin útgáfustefnu.

 

„Dyrnar“ er frábær bók og öndvegisþýðing á henni. Fá verkin þín verðskuldaða athygli og umfjöllun að þínu mati?

Þetta er nú spurning sem varla er hægt að spyrja rithöfund!

Nú, af hverju ekki?

Hvað ætti að leggja til grundvallar? Ekki stundirnar sem farið hafa í þetta, varla hægt að mæla þetta út frá einhverjum fráleitum vonum um verðlaun, þýðingar á ótal erlend mál, athygli á rithöfundaþingum eða verðskuldaða frægð á heimsvísu. Ég er mjög ánægð með mína stöðu í bráð og lengd og þau skref sem ég hef tekið upp á eigin spýtur. Enda ritverk ekki í eðli sínu samanburðarhæf finnst mér.

Ég var styrkt af launasjóði rithöfunda um nokkurra ára skeið, í sex mánuði í senn flest árin. Það gerði mér kleift að vinna hálft árið við skriftir en hinn helminginn í launavinnu. Án þessa styrks hefði ég sennilega ekki getað haldið mínu striki.

Svo eru það verðlaunin Ljóðstafur Jóns úr Vör sem ég fékk árið 2007, sama ár og fyrsta ljóðabókin mín kom út. Þau voru mér gríðarleg hvatning og gerðu eiginlega gæfumuninn um framhaldið. Eins var gleðilegt að vera tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2016. Mest og best gleður það mig samt að hitta lesendur sem hafa lesið ljóð sér til ánægju. Ljóð eru þess eðlis að ekki þarf nema eitt til að lýsa upp stundina, jafnvel daginn ef það hittir rétt í lið.

Hvað finnst þér um bókmenntaumfjöllun og gagnrýni í samtímanum?

Mér hefur fundist sú sena hálf döpur síðustu ár enda er ég af þeirri sort sem aldrei fær nóg af slíku. Þar á ég við hina hefðbundnu fjölmiðla sem eiga stysta leið til hins almenna lesanda. Sérstaklega dagblöðin sem sum sjá sér greinilega illa fært að halda úti tímafrekri umfjöllun um bækur, kannski sérstaklega um ljóðabækur, sem erfitt er að greina á handahlaupum svo vel sé. Það er helst um blájólin að reynt er að gera þeim skil. Öllu þessu ráða þó trúlega óbótamennirnir Tími og Peningar svo ekki sé minnst á Markaðinn sjálfan.

Eldsálin Jórunn Sigurðardóttir hefur lengi haldið úti ítarlegri og greinandi bókaumfjöllun í útvarpi og sjónvarpsþættir Egils Helgasonar líka kynnt fólki bækur af miklum móð og er það vel. Þar hefur Kolbrún Bergþórsdóttir með sinn sprellifandi áhuga og aðrir liðsmenn lengi glatt okkur og vakið með sínu framlagi. Á rás eitt eru þættirnir Orð um bækur og Bók vikunnar kærkomin viðbót og Víðsjá er með vandaðar bókaumsagnir, þó strjálar séu.

Mér er ljóst að margt fer fram og kemur út á fræðasviði bókmenntanna í Háskólunum og í vönduðum tímaritum, en það gagnast ekki lesandi almenningi beint og brotalaust. Barnabókum þarf líka að sinna af virðingu og þar hefur orðið fjörkippur, miðað við fyrri ár, sem betur fer. Barnabækur dagsins í dag segja fyrir um hvernig menningarsaga framtíðarinnar lítur út, sagði einhver spekingur. Gáum að því. Svo hafa orðið mikil og gleðileg tímamót með tilkomu umræðna og bókaumsagna á netinu sem tekur á sig æ fjölbreyttari form. Ég bind líka miklar vonir við stöðugan straum rithöfunda og skálda yngri kynslóða sem magnast og eflist með hverju ári og vona úr þeim hópi kristallist liðsmenn vandaðrar bókagagnrýni hvar og hvernig sem hún birtist.

 

Hvað er framundan hjá þér?

Fyrir utan að gerast ung og fögur, fræg og rík meinarðu!? Ég ætla að halda áfram með þýðingar af öllu tagi eftir því sem mér vinnst tími til. Það eru til þvílík býsn af góðum bókum og ég vona að ég hitti á aðra óskastund eins og þegar ég rakst á Dyrnar í einu lestrarkastinu. Ég er líka með í vinnslu þýðingar á ljóðum erlendra kvenna úr ýmsum áttum út frá svolítið sérstöku sjónarhorni sem gaman er að vinna í. Ég mun halda mínu striki við ljóðagerðina, með hana verður ekki aftur snúið.

Hver eru skilaboð þín til lesenda? Hvert er erindi ljóða?

Fyrir mér eru ljóð þýðingarmikill og merkilegur máti til að lýsa upp orðin, lýsa upp hugsanir og tilfinningar okkar – þau eru hljóðlátt en magnað bergmál manna í milli.

Hraðinn og tvístrunin sem einkennir alla hluti í dag getur orðið bæði hugsun og tungumáli skeinuhætt. Ég held að það sé eðlislægt manneskjunni og afar mikilvægt að umgangast orð af virðingu og nákvæmni. Þau hafa ferðast milli alda og menningarheima og bera með sér dýrmætan farm. En þau eru ofurseld hraðanum eins og allt annað og nýir miðlar gera það að verkum að þau staldra stutt við, eru horfin á augabragði án þess að skilja eftir djúp spor. Hugtakið óþolinmæði hefur öðlast alveg nýtt inntak með tilkomu tölvanna.

Ljóð þarf að lesa hægt, það þarf jafnvel að lesa bilið milli orðanna. Það er eðli þeirra að kalla fram skilning og þegar best lætur, skyndilega uppljómun eða leiftur, þegar við gerum okkur ljós náin tengsl okkar - hvort heldur við söguna, landið eða hvort annað.

Guðrún hefur ekki tíma fyrir frekara spjall. Hennar bíða akrar ljóðsins, engi þýðinganna, orðasöfnunin. Við fáum eitt ljóð í lokin frá þessum meistara, lesum bilið milli línanna og þökkum fyrir þessa stund.

 

Hlátur

 

í myrka skotinu

þar sem líkami og sál mætast

býr hláturinn

 

ferðast án fyrirhafnar milli tveggja heima

opnar brjóstið léttur sem andardráttur

svo hjartað fær flögrað einn hring

 

vekur eigin tár

þyrlar upp

ískrandi ófarnaðarkæti

nístandi íssalla

rjúkandi sýru

 

hann gýs upp þegar minnst varir

eða slær inn

í dimmrauðum fagnaðarmökkva

flauelshlýjum

 

og hoppar alltaf jafn léttilega og jafnfætis

yfir skynsemina

hvort heldur í fullum herklæðum

eða nakinn og nývakinn.

 

 

 

 

 

 

Tengt efni