SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Sigríður Sæmundsen

Guðrún Sigríður er fædd 28. mars 1982. Hún er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Grenoble Graduate School of Business í Frakklandi. Á meðan hún vann að ritgerð sinni til meistaraprófs árið 2009 var hún í starfsnámi hjá EFTA í Brüssel. Síðan hefur hún starfað í fjármála- og ferðamannageiranum, m.a. hjá Bláa Lóninu þar sem hún sá um sölu og markaðssetningu Blue Lagoon húðvara erlendis.

„Á meðan ég var hjá franska sendi­ráðinu kláraði ég fyrstu bók­ina mína; Hann kall­ar á mig. Hana gaf ég sjálf út um jól­in 2015 eft­ir að hafa safnað upp í prent­kostnað á karolina­fund.com. Bók­ina byrjaði ég að skrifa haustið 2014 út frá textum sem ég hafði skáldað 2011. Þetta hef­ur allt sinn aðdrag­anda og ég hefði ekki getað ímyndað mér þegar ég byrjaði á textun­um 2011 að þeir myndu enda sem heil bók fjór­um árum síðar. Sú bók fjallaði um dökk­ar hliðar sam­fé­lags­ins, fíkn og of­beldi.“ (Mbl)

„Sjálfri finnst mér gaman að læra og fræðast. Ég elska að lesa og eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að skrifa. Það hefur fylgt mér frá blautu barnsbeini. Við systkinin erum alin upp við bækur, það var alltaf lesið fyrir okkur á kvöldin og bækur voru alltaf sýnilegar á heimilinu. Ef ég var í tiltekt og þurfti að velja hvort setja átti bækur ofan í kassa í geymslu eða skrautmuni, þá fór það síðarnefnda. Bækurnar mínar fengu alltaf sitt pláss.“ (Mannlíf)

„Ég hef alltaf verið að skrifa. Sem barn setti ég saman stuttar sögur og hafði mikið ímyndunarafl. Ég samdi ljóð bæði fyrir sjálfa mig og aðra. Ég gaf til dæmis afa mínum og frænku ljóð í afmælisgjöf þegar ég var á áttunda árinu. Á unglingsárunum hélt ég áfram að yrkja ljóð, þau voru gjarnan mjög tilfinningaþrungin, enda viðkvæmur tími og margt í gangi. Mér fannst svo gott að fá útrás fyrir erfiðar tilfinningar í gegnum ljóðin og heillandi að geta sagt mikið í stuttu máli.“ (DV)

„Bæk­urn­ar mín­ar hafa fjallað um mjög dökk­ar hliðar sam­fé­lags­ins. Það tek­ur á að skrifa þær og það get­ur tekið á að lesa þær. Þegar ég skrifa þá þarf ég að tala við fólk, kynna mér mál­in, reyna að setja mig inn í aðstæður og ná í þær til­finn­ing­ar sem ég ímynda mér að geti blossað upp við ákveðna reynslu, áfall eða annað. Það get­ur verið mjög erfitt að skrifa en það er mjög gam­an. Ég geri það af ástríðu,“ seg­ir hún.“ (Mbl) 

Haustið 2018 kom út önnur skáldsaga Guðrúnar Sigríðar, Andstæður. Hún fjallar um harðan heim vændis andspænis lífi hjóna í úthverfi sem hafa tapað neistanum í sambandinu og er byggð á heimildum. Sagan er spennandi, vel skrifuð og trúverðug.

Guðrún Sigríður segir í viðtali að draumurinn sé að skrifa, hún sé núna að lifa drauminn og sé hvergi nærri hætt. „Eftir áramót ætla ég að byrja á næstu bók og það er aldrei að vita nema það verði framhald af Andstæður. Viðbrögð lesenda hafa verið það góð að það verður erfitt að segja skilið við söguna og sögupersónurnar. Ég get alla vega sagt að það er af nógu að taka og flæði hugmynda endalaust, svo fylgist með.“ (Mannlíf)

Heimildir 

mbl.is/smartland/stars/2018/11/18/vidskiptafraedingur_skrifar_um_vaendi/

https://www.mannlif.is/frettir/syni-hver-vaendiskonan-raunverulega-er/

https://www.dv.is/fokus/2018/11/24/gudrun-skrifar-um-heim-vaendis-slaem-reynsla-af-logleidingu-20-giftir-karlmenn-nidast-saman-einni-konu/

Mynd

https://is.ambafrance.org/Nyr-visinda-og-menningarfulltrui-vi%C3%B0-sendira%C3%B0i%C3%B0


Ritaskrá

  • 2021  Rósa
  • 2018  Andstæður
  • 2015 Hann kallar á mig

Tengt efni