SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóhanna Steingrímsdóttir

Jóhanna Álfheiður var fædd í lágreistum torfbæ í Nesi, Aðaldaldal, þann 20. ágúst 1920. Foreldrarnir voru bæði skáldmælt og bernskuheimilið ómaði af kvæðum og lausavísum. Jóhanna var alla tíð áræðin og skjótráð og vissi vel hvað hún vildi, ástin réð lífsbreidd hennar og ung var hún heitbundin Hermóði Guðmundssyni Friðjónssonar skálds frá Sandi í Aðaldal. Þau stofnuðu nýbýlið Árnes á hálfu Nesi sem þau byggðu upp og gerðu að stórbýli. Í kvæðinu Rímdraugur sem hún yrkir aðeins 25 ára gömul lýsir hún löngun sinni til að skrifa, en dagurinn endist aldrei. Í fjórða erindi kvæðisins segir:

Veistu ekki að börnum brauð þarf að gefa,

bæta af þeim flíkur og grát þeirra sefa,

mjólkina gera, úr mjölinu baka,

mala þarf kaffi og þvottinn að taka,

en draugurinn glottandi í dyrnum segir:

Dragðu fram penna og blað.

Jóhanna var mjög ritfær, átti auðvelt með að semja og setja fram skoðanir sínar í rituðu máli. Í amstri dagsins framan af ævi gafst ekki mikill tími til ritstarfa en þegar fór að hægjast um kom vel í ljós ritsnilld hennar og frásagnargleði. Fyrst í gerð vinsælla útvarpsþátta, Á bökkum Laxár, og síðan í ýmsum skáldskap, en þekktust er hún fyrir barnabækur sínar, þulur og kvæði. Árið 1992 var Jóhanna sæmd hinni íslensku fálkorðu fyrir störf að félags- og menningarmálum. Hún vann ötullega að margvíslegum félagsmálum og stóð í fylkingarbrjósti ásamt mannni sínum fyrir verndun Laxár í svokallaðri Laxárdeilu. Jóhanna var um árabil formaður Kvenfélags Nessóknar og Kvenfélagasambands Suður-Þingeyinga og stóð fyrir stofnun kvennakórsins Lissýjar. Hún stofnaði vísnafélagið Kveðanda ásamt fleiri hagyrðingum í Suður-Þingeyjarsýslu, var fyrsti formaður þess og í stjórn til dánardægurs. Hún sendi frá sér 14 bækur bæði fyrir börn og fullorðna, auk þess ritstýrði hún nokkrum bókum og tók virkan þátt í útgáfu bókanna Byggðir og bú, byggðasögu Suður-Þingeyjarsýslu. Jóhanna lést 25. mars 2002.

Árið 2012 kom út bókin Systrarím (sjá viðtal í Mbl.) sem inniheldur vísur sem Jóhanna og Kristbjörg systir hennar hentu á milli sín.

(Heimild, Mbl., 31.3.2002)


Ritaskrá

 • 2011 Systrarím, ásamt systur sinni Kristbjörgu
 • 2001 Sagan af Loðinbarða
 • 2001 Óli í Brattagili
 • 2000 Tóta á ferð og flugi 
 • 1999 Blákápa: íslenskt ævintýri 
 • 1997 Bita-kisa: leikur að ljóði og sögu 
 • 1996 Hvar endar veruleikinn? 
 • 1994 Allt í sómanum 
 • 1993 Fjalla-Bensi 
 • 1991 Þytur 
 • 1990 Barnagælur : amma yrkir fyrir drenginn sinn 
 • 1989 Maríuhænan : gestur í garðinum 
 • 1987 Á bökkum Laxár 
 • 1984 Dagur í lífi drengs 
 • 1980 Veröldin er alltaf ný 

Tengt efni