SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir19. desember 2020

DRAGÐU FRAM PENNA OG BLAÐ

Vert er að minnast skáldkonunnar Jóhönnu Á. Steingrímsdóttur. Jóhanna var á sinni tíð atkvæðamikil í félagsmálastarfi, tók þátt andófinu gegn virkjun Laxár sem lyktaði með því að stífla í ánni var sprengd í ágúst 1970. Jóhanna stofnaði vísnafélagið Kveðanda og var félagi í Rithöfundasambandi Íslands og í Alþjóðarithöfundasambandinu, en alls gaf hún út fjórtán bækur fyrir börn og fullorðna og ritstýrði nokkrum bókum. Allt meðfram því að sinna búi og börnum, en hún jók við ritstörfin eftir því sem hægðist um á heimilinu þegar börnin eltust.
 
Árið 2020 voru liðin 100 ár frá fæðingu hennar. Hildur Hermóðsdóttir, dóttir Jóhönnu, stóð þá fyrir því að gefa út fyrstu ljóðabók Jóhönnu, í tilefni af hundrað ára afmælinu.
 
Ætla má að staða Jóhönnu sem húsmóður og bóndakonu hafi orðið til þess að skáldskapurinn þyrfti oft að víkja. Frægt er kvæði hennar um Rímdrauginn, sem hún samdi 1945, þá hálfþrítug tveggja barna móðir og nýbúin að reisa nýbýlið Árnes með eiginmanni sínum. Það lýsir stöðu hennar vel:
 
Veistu ekki að börnunum brauð þarf að gefa,
bæta af þeim flíkur og grát þeirra sefa,
mjólkina upp gera, úr mjölinu baka,
mala þarf kaffi og þvottinn að taka.
En draugurinn glottandi í dyrunum segir:
– Dragðu fram penna og blað.

 

Tengt efni