SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Kristín M. J. Björnsson

Kristín M. J. Björnsson (1901-1997) fæddist á Gauksmýri, V- Húnavatnssýslu. Foreldrar hennar voru Björn Jósafatsson, bóndi á Gauksmýri, og Ólöf Sigurðardóttir. Hún ólst upp í stórum systkinahópi og um hana segir í minningargrein: „Hrokkinhærð pabbastelpa sem fékk oft að fylgja föður sínum sem var mikill hesta- og selskapsmaður. Hún var snemma ljóðelsk og vel hagmælt. Amma hneigðist víst ekki til innistarfanna. Alla ævi hafði hún meira gaman af lestri bóka og skemmtilegum samræðum heldur en húsmóðurstörfunum.“

Kristín giftist Kristjóni Ág. Þorvarðssyni, (1885-1962), fyrrum kennara og starfsmanni hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og áttu þau einn son, Hákon Heimi og er Kristín föðuramma Huldu Hákon, myndlistarkonu. Seinni maður Kristínar var Einar Sveinsson, f. í Flatey á Breiðafirði (1908-1984). Kristín og Einar hófu búskap á Gauksmýri um 1950, ræktuðu og byggðu upp jörðina og voru þar í 13 ár uns aldur og heilsa fóru að segja til sín.

Kristín fór til Bandaríkjanna í lok fyrri heimsstyrjaldar til að læra hjúkrun og var þar fyrst í skjóli föðursystra sinna, Kristínar og Margrétar Benedictsson, sem var þekkt kvenréttindakona og gaf út tímaritið Freyju. Hún útskrifaðist frá Ripley Memorial Hospital School of Nursing 1924. „Hún nam við Kvennaskólann á Blönduósi og fór síðan 18 ára gömul til Bandaríkjanna að læra hjúkrun. Þar bjó amma í skjóli tveggja föðursystra sinna. Er ekki að efa að sex ára dvöl í Bandaríkjunum hafi verið húnvetnskri sveitastúlku mjög lærdómsrík. Heim kom hún árið 1926 með amerískt diplom sem hjúkrunarkona. Það gilti ekki á Íslandi og áætlanir hennar um að starfa að hjúkrun voru þar með úr sögunni.“ 

Margréti var boðið á Alþingishátíðina 1930 af íslenskum almenningi í Vesturheimi. Kristín var í Bandaríkjunum sín mestu mótunarár og hreifst mjög af hugmyndum eftirstríðsáranna fyrri um bræðralag þjóða, mannréttindi, sér í lagi kvenréttindi og bindindi á áfengi og tóbak.

„Á sjötta áratugnum vorum við systurnar í sveit hjá afa og ömmu og eigum margar góðar minningar þaðan. Amma lagði mikla áherslu á að fræða okkur og hélt að okkur bókmenntum og ljóðum. Kvöldlestrarnir voru ekki af verri endanum fyrir ungu ömmustelpurnar, Sögur herlæknisins, Dæmisögur Esóps, Maður og kona, Heljarslóðarorrusta. Einnig kenndi hún okkur mikið af ljóðum og söngvum, enda kunni hún ógrynnin öll. Afi var þar enginn eftirbátur, einkum var hann fróður í Íslendingasögum og mannkynssögu og var oft gaman að hlusta á þau ræða þessi sameiginlegu áhugamál. Samband þeirra var einstakt. Okkur er minnisstætt þegar amma og afi sungu í tvísöng lagið Kvöldið er fagurt, sól er sest og sefur fugl á grein. Það var eins og þetta ástarljóð hefði verið ort sérstaklega fyrir þau. Jafnhliða rammíslenskri innrætingu kallaði hún okkur "honey pie" og vitnaði í amerísku stjórnarskrána. Þannig var amma, blanda af Íslendingi aldamótakynslóðarinnar og heimsborgara. Þegar aldurinn færðist yfir brugðu amma og afi búi og fluttu í Kópavoginn. Þar sinnti amma hugðarefnum sínum, skáldskapnum, og liggja eftir hana nokkrar bækur. Framan af ævinni notaði hún skáldanafnið Ómar ungi.“

Fyrsta bók Kristínar kom út á kostnað höfundar undir dulnefni: Ljóð Ómars unga og fékk ágæta dóma. Í frétt um Kristínu í Morgunblaðinu 19. nóvember 1969 segir að hún hafi þýtt þjóðsönginn á ensku, hvar ætli sú þýðing sé niðurkomin?

Heimild: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/359893/

Mynd: http://www.bokin.is/product_info.php?products_id=38940


Ritaskrá

  • 1971 Musteri ástanna 
  • 1971 Darraðardans
  • 1970 Tíbrá 
  • 1970 Ástir prestsins: skáldsaga í ljóðum
  • 1969 Gréta: töfraklæðið
  • 1969 Víkingadætur
  • 1946 Ljóð Ómars unga

Tengt efni