Kristín Sigfúsdóttir
Kristín Sigfúsdóttir fæddist 13. júlí árið 1876 að Helgastöðum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði og ólst þar upp.
Foreldar Kristínar voru fátækir bændur sem ekki gátu kostað börn sín til náms svo Kristín naut aðeins heimakennslu. Kristín hefur ritað endurminningar sínar fram til fermingaraldurs og kemur þar fram hversu mjög hugur hennar stóð til bókmennta og skáldskapar strax á unga aldri.
Kristín las allar bækur sem hún kom höndum yfir og byrjaði snemma að yrkja vísur. Líkt og margar konur á þessum tíma fór hún leynt með yrkingarnar. Í æsku samdi Kristín leikrit sem hún æfði til sýninga í sveitinni og kom fólk víðsvegar að til að horfa á þær. Þau leikrit eru nú öll glötuð því Kristín brenndi handritin að sýningum loknum.
Árið 1901 giftist Kristín sveitunga sínum Pálma Jóhannessyni og hófu þau búskap í Eyjafirði. Lengst af bjuggu þau í Kálfagerði, sem hún var stundum kennd við. Þegar Kristín gekk í hjónaband var hún staðráðin í að hætta öllum skáldskapariðkunum og reyna að standa sig sem búkona. Enda fór svo að næstu árin gafst ekki mikið tóm til ritstarfa. Kristín og Pálmi eignuðust sex börn á fjórtán árum og á því tímabili samdi Kristín einungis erfiljóð og tækifærisvísur. Það var ekki fyrr en börnin voru komin á legg að hún hóf aftur að skrifa af kappi. Upphafið var sagan „Digra Gudda“ sem hún skrifaði að þrábeiðni sonar síns sem vantaði efni í sveitablað sem unglingar í sveitinni handskrifuðu og létu ganga manna á milli. Þetta var seint á öðrum tug tuttugustu aldar og upp úr því fór Kristín að fleiri sögur.
Leikritið Tengdamömmu samdi Kristín 1920. Það var frumsýnt að Saurbæ í Saurbæjarhreppi snemma árs 1923 og síðan sýnt að Þverá í Öngulstaðahreppi og á Akureyri. Leikritinu var alls staðar vel tekið og urðu móttökurnar til þess að haustið 1923 var það gefið út á bók. Það var fyrsta bók Kristínar en á næstu árum komu út eftir hana tvær skáldsögur, eitt smásagnasafn og tvö önnur leikrit.
Kristín varð þjóðkunnur og vinsæll rithöfundur. Framan af var henni vel tekið af ritdómurum sem hrifust sérstaklega af því að höfundur var fátæk og ómenntuð bóndakona. Þessar viðtökur hvöttu hana til að halda áfram að skrifa, en í bréfi til Jóns úr Vör skrifar hún: „Duldist mér þó ekki, að dómarnir voru skrifaðar af vorkunnsemi vegna erfiðrar aðstöðu minnar.“ Með tímanum urðu dómarnir um verk Kristínar harðari og óvægnari og 1927 skrifar Steindór Sigurðsson í ritdómi um skáldsöguna Gesti í Nýjar kvöldvökur XX: „Jeg er hræddur um, að Kristín Sigfúsdóttir sje farin að skrifa of mikið.“ Þessi orð ritdómarans eru næsta furðuleg því í sama dómi skrifar hann að „fangamark snilldarinnar [sé] markað á hverri síðu.“ Hvort sem orðum ritdómarans eða einhverju öðru er um að kenna varð hlé á ritstörfum Kristínar Sigfúsdóttur eftir að síðari skáldsaga hennar, Gömul saga, kom út í tveimur bindum á árunum 1927 og 1928. Það var ekki fyrr en tíu árum síðar að hún hófst aftur handa og skrifaði leikritið Melkorku, en gekk að sögn hægt og illa. Leikritið birtist fyrst í ritsafni hennar sem gefið var út í þremur bindum á árunum 1949-1951.
Auk bókanna birtust sögur eftir Kristínu víða í tímaritum og þá samdi hún fjölda leikrita sem aldrei komust á prent.
Kristín lést 28. september árið 1953.
Heimildir
- Jón úr Vör. „Formáli.“ Rit I. Reykjavík: Ísafold 1949.
- Kristín Sigfúsdóttir. „Í föðurgarði, bernskuminningar.“ Rit I. Reykjavík: Ísafold 1949.
- „Kristín Sigfúsdóttir sjötug.“ Viðtal í tímaritinu Emblu 1946.
- Soffía Auður Birgisdóttir. „Skyldan og sköpunarþráin.“ Eftirmáli að Sögur íslenskra kvenna 1879-1960. Reykjavík: Mál og menning 1989.
Myndin af Kristínu Sigfúsdóttur er tekin af síðu Héraðsskjalasafns Akureyrar.
Ritaskrá
- 1949-1951 Rit I-III
- 1929 Árstíðirnar (leikrit)
- 1928 Gömul saga II, Eldraunin
- 1927 Gömul saga I, Í meinum
- 1926 Óskastundin (leikrit)
- 1925 Gestir
- 1924 Sögur úr sveitinni
- 1923 Tengdamamma (leikrit)
- án árs Úr bæ í sveit (leikrit)